1Statt upp, og tak við birtunni! því þitt ljós kemur, og dýrðin Drottins rennur upp yfir þér.2Sjá, myrkur er yfir jörðinni, og dimma yfir þjóðunum; en yfir þér upp rennur Drottinn, og uppi yfir þér opinberast hans dýrð.3Heiðingjarnir munu stefna á ljós þitt, og konungarnir á ljómann, sem upp rennur yfir þér.4Hef upp augu þín, og litast um! þeir koma allir flokkum saman til þín; synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á armleggjum.5Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun komast við, og þér mun rúmt verða innanbrjósts, þegar auðlegð sjávarins hverfur til þín, og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.6Mergð úlfalda, hinir ungu úlfaldarnir frá Midíanslandi og Effalandi, munu hylja þig; allir Sabamenn munu koma, færandi gull og reykelsi, og kunngjöra lof Drottins.7Allar hjarðir Kedaringa (42,11) munu safnast til þín, og hrútar Nebajotsmanna standa þar til reiðu; þeir munu fórnfærðir verða á altari mínu til þægilegrar fórnar, og eg mun prýða minn hinn dýrðlega bústað.8Hvörjir eru þessir, er koma fljúgandi, sem ský, og sem dúfur til dúfnabúra?9Það eru fjarlægir strandbyggjar, sem langar á minn fund; á undan þeim koma skip frá Tarsisborg, sem færa þér sonu þína úr fjarlægum landsálfum; þeir hafa með sér silfur sitt og gull sitt, Drottni Guði þínum til vegs, og hinum heilaga Guði Ísraels: því það er hann, sem gjörir þig vegsamlega.10Synir útlendra þjóða munu hlaða upp borgarveggi þína, og konungar þeirra munu þjóna þér; því eins og eg sló þig, þá eg var reiður, eins miskunna eg þér, þá eg er líknsamur.11Ávallt skulu borgarhlið þín opin standa, hvörki skulu þau dag né nótt aftur látin verða, svo að herskarar heiðingjanna og hinir aðfluttu (herteknu) konungar þeirra verði inn látnir.12Því sú þjóð og það ríki, sem ekki vill þjóna þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir skulu eyðilagðar verða.13Fegurðarprýðin Líbanonsfjalls skal til þín koma, furan, beykið, bússviðurinn, hvað með öðru, til að prýða minn helgidómsstað; því eg mun vegsamlegan gjöra þann staðinn, er fætur mínir á standa.14Synir þeirra, sem áður kúguðu þig, munu koma til þín, og hneigja sig fyrir þér; allir þeir, sem áður smánuðu þig, munu fleygja sér flötum niður fyrir fætur þér; þeir munu kalla þig borg Drottins, Síonsborg hins heilaga Ísraels Guðs.15Í stað þess að þú áður varst yfirgefin, hötuð og óbyggð, skal eg gjöra þig að bústað ævarandi vegsemdar og fagnaðar um aldur og ævi.16Þú skalt drekka mjólk heiðingjanna, og sjúga brjóst konunganna; og þú skalt viðurkenna, að eg Drottinn er þinn frelsari, og hinn voldugi Jakobs Guð þinn endurlausnari.17Eg skal færa þér gull í stað eirs, silfur í stað járns, eir fyrir tré, járn fyrir grjót; eg set þér friðinn fyrir forstjóra, og réttlætið fyrir valdsmann.18Í landi þínu skal ekki framar heyrast getið um ofríki, og ekki um nokkurt tjón eða eyðilegging innan þinna landamerkja. Þínir borgarveggir skulu kallast „Hjálpræði“, og þín borgarhlið „vegsemd“.19Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu. Drottinn skal vera þér eilíft ljós, og þinn Guð skal vera þín birta.20Þá mun sól þín ekki framar niður renna, og tungl þitt ekki hverfa; því Drottinn skal vera þér eilíft ljós, og þínir hörmungardagar skulu enda taka.21Allur þinn lýður skal vera réttlátur, og eiga landið eilíflega, því hann er sá kvistur, sem eg hefi gróðursett, hann er verk minna handa, með hvörju eg hefi mig vegsamlegan gjört.22Af hinum minnsta skulu verða þúsund, og af hinum lítilmótlegasta skal koma voldug þjóð. Eg Drottinn mun slíku fljótt til vegar koma á sínum tíma.
Jesaja 60. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:48+00:00
Jesaja 60. kafli
Sældarhagur Gyðingalýðs, þegar Frelsarinn kæmi.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.