1Sjá! sá konungur skal koma, sem ríkja mun í réttlæti, og höfðingjar, sem stjórna munu með réttvísi.2Sá maður skal koma, sem vera mun eins og hlé fyrir vindi, og skjól fyrir skúrum, eins og vatnslækir í öræfum, og sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.3Þá skulu ekki afturlukt vera augu þeirra, sem sjá, og eyru þeirra, sem heyra, skulu vera eftirtektarsöm.4Hjörtu hina hviklyndu skulu veita viskunni athygli, og tunga þeirra, sem sama, skal tala liðugt og skírt.5Heimskur maður skal ekki framar kallast góðmeni, og undirförull maður ekki heita göfugmenni.6Því heimskur maður talar heimsku, og hjarta hans fer með það sem hégómlegt (syndsamlegt) er, svo hann kemur öðrum til að bera óvirðingu fyrir Guði, og lokkar með orðum sínum aðra menn til að falla frá Drottni, lætur hinn hungraða skorta fæðu, og hinn þyrsta drykk.7Vopn hins undirförula eru skaðvænleg: hann upphugsar pretti, til þess að spilla fyrir hinum umkomulausa, og það jafnvel þó hinn fátæki hafi satt að mæla.8En góður maður hugsar um það, sem góðum manni sæmir, og stendur stöðugur í því, sem góðmannlegt er.
9Standið upp, þér andvaralausu kvinnur b), og heyrið mína raust! þér ugglausu dætur, hlustið á mín orð!10Að ári í þetta mund skuluð þér, hinar ugglausu, skelfast, þegar vínberjalesturinn bregst, og ekkert næst inn af korni.11Hræðist, þér hinar andvaralausu! Skelfist, þér hinar ugglausu! Farið af klæðum og verið naktar, og leggið hárklæði um lendar yðar.12Menn bera sig hörmulega vegna akranna, vegna hinna fögru kornakra, vegna hins frjóvsama vínviðar.13Á akurlöndum míns fólks, já á öllum gleðinnar híbýlum í hinni glaðværu borg skulu vaxa þyrnar og þistlar.14Hallirnar skulu vera í eyði, og hin fjölmenna borg yfirgefin; hæðir og turnar skulu verða að hellrum til eilífðar, skógarösnum til skemmtunar og hjörðum til hagbeitar:15þar til loksins yfir oss verður úthelltur andi af hæðum; þá skal eyðimörkin verða að aldinmörk, og aldinmörkin að skógarmörk;16þá skulu réttindin búa á eyðimörkinni og réttlætið hafa sitt aðsetur í aldinskóginum.17Ávöxtur réttlætisins skal vera friður: og árangur réttlætisins, rósemi og öruggleiki.18Mitt fólk skal búa í híbýlum friðarins, í heimkynnum öruggleikans, í hvíldarstað róseminnar.19En hagli skal rigna, þegar skógurinn c) hrynur niður, og borgin d) skal djúpt niðurlægð verða.20Sælir eruð þér, sem hvörgi sáið nema við vötn, og látið uxana og asnana ganga sjálfala.
Jesaja 32. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:41+00:00
Jesaja 32. kafli
Réttlátur konungur. Viðrétting landsins eftir eymdarhag þess.
V. 9. b. Kvinnur, dætur, borgirnar í Júdaríki, eða innbyggjendur þeirra. V. 19. c. Skógurinn, Assýríuland, borgin, Babýlon eða Ninive.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.