1Vei þeim börnum, segir Drottinn, sem eru svo þverúðarfull, að þau taka ráð sín saman án minna atkvæða, gjöra samband við aðra, þvert á móti mínum vilja, og auka þannig synd á synd ofan,2sem gjöra sér ferð ofan til Egyptalands, án þess að leita minna atkvæða, til þess að efla sig með styrk faraós, og leita sér skjóls í skugga Egyptalands.3En styrkur faraós skal verða yður til skammar, og skjólið í skugga Egyptalands til svívirðingar.4Höfðingjar þeirra (Ísraelsmanna) hafa verið í Sóansborg, og sendimenn frá þeim hafa komið til Hanesborgar.5En þeir munu allir hljóta að skammast sín fyrir þá þjóð, sem ekki getur orðið þeim að nokkuru liði; hún verður til engrar hjálpar, til einskis gagns, heldur til minnkunar einnar, og jafnvel til háðungar.6Klyfjaðir eykir ganga suður; til ánauðarlandsins og kúgunarlandsins, til þess landsins, hvar ljónsmæðrur og ljón, nöðrur og flugdrekar búa, flytja þeir auðæfi sín á asnabökum og fjársjóðu sína á úlfaldakryppum, til þeirrar þjóðar, sem ekkert lið getur veitt þeim.7Liðveisla Egyptalandsmanna verður til einskis, til ónýtis; þess vegna kveð eg svo að orði um þá: „þeir hafa mikið um sig, en fara hvörgi“.8Far nú, og rist þetta á spjald, svo þeir sjái, og rita það í bók, svo það verði uppi hér eftir um aldur og ævi.
9Þessi lýður er þverúðarfullur; það eru óhlýðin börn, sem ekki vilja heyra lögmál Drottins,10sem segja til þeirra, er fá opinberanir: „þér skuluð engar opinberanir fá“; og til þeirra, sem fá vitranir: „þér skuluð ekki spá því, sem rétt er; segið oss heldur það, sem geðfellt er, spáið því, sem táldrægt er;11farið út af veginum, beygið út af brautinni, víkið hinum heilaga Guði Ísraels í burt frá augliti voru“!12Þess vegna segir hinn heilagi Ísraels Guð svo: Sökum þess þér hafnið þessu orði, en reiðið yður á ofríki og rangindi, og styðjist við þau:13þá skal þessi misgjörð verða yður eins og veggjarkafli, sem ætlar að hrapa, og sem bunga á hávum múrvegg, sem fljótt og óvörum hrynur inn,14og brotnar í sundur, eins og leirker, sem mölvað er í smátt hlífðarlaust, svo að af brotum þess fæst ekki svo mikið sem leirbrot, til að taka með eld af arni, eða til að ausa með vatn úr gröf.15Því svo sagði hinn Alvaldi, Drottinn, hinn heilagi Ísraels Guð: „ef þér snúið yður og eruð rósamir, þá munuð þér frelsaðir verða: í rósemi og trausti skal yðar styrkur vera“; en þér vilduð það ekki:16„nei“, sögðuð þér, „vér viljum forða oss á hestum“—en þá skuluð þér vera sem flóttamenn—„vér viljum ríða á léttum reiðskjótum“.—En þá skulu þeir líka vera léttir á sér, sem elta yður.17Þúsund af yður skulu flýja fyrir ópi eins manns, og fyrir herópi fimm manna skuluð þér flýja svo gjörsamlega, að eftirleifar yðrar skulu vera sem vitastöng á fjallstindi, og sem hermerki á hól.
18Þó mun Drottinn hafa biðlund við, svo hann geti líknað yður; hann mun sýna sig hátt upp hafinn, þá hann fer að miskunna yður: því Drottinn er Guð réttlætisins; sælir eru allir þeir, sem á hann vona.19Þér, Síonsborgarmenn, þér sem búið í Jerúsalemsborg, þér skuluð þá ekki gráta; hann mun líkna yður fúslega, þegar þér kallið í neyðinni: hann mun svara yður, undir eins og hann heyrir það.20Hinn alvaldi mun gefa yður brauð, þegar þér eigið bágt, og vatn í neyðinni. Kennifeður yðrir munu ekki verða í burt teknir frá yður, þér munuð hafa þá fyrir augum yðar.21Hvört sem þér víkið til hægri handar eða vinstri, munuð þér heyra þessi orð töluð á baki yðar: „hér er sá vegur, sem þér skuluð ganga, farið hann!“22Þá munuð þér vanheilagan álíta silfurbúnaðinn yðvarra skurðgoða, og gullbúnaðinn yðvarra líkneskja; þér munuð burtsnara þeim, sem óhreinu klæði, og segja til þeirra, „burt héðan!“23Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og láta hinn feita og frjóvsama jarðveg brauð af sér gefa. Fénaður þinn mun á þeim tíma ganga í víðlendum grashaga.24Þeir uxar og asnar, sem vinna að akuryrkjunni, skulu eta samfengið korn, salti blandað, sem sældað hefir verið með sáldi og vinsað með kornskóflu.25Á hvörju hávu fjalli og á hvörri gnæfandi hæð skulu vatnslækir fram fljóta á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrapa niður.26Þá skal tunglskinið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfalt stærra, eins og sjö daga sólskin, þann dag er Drottinn græðir meinsemdir síns fólks og læknar þess mörðu sár.27Sjá! sjálfur Drottinn a) kemur úr fjarlægð: hans reiði er brennandi, og brennur ákaft: varir hans eru fullar af heift, tunga hans sem eldur brennandi,28andi hans er sem ólgandi vatnsfall, það er tekur manni upp í háls; hann dryftar mennina í sáldi eyðileggingarinnar, og leggur í munn þjóðunum bitul þann, er leiðir þær afvega.29Þá munuð þér halda söng, eins og þá nótt, er menn halda heilagt fyrir hátíðir: þá mun hjartans gleði á yður vera, eins og þá gengið er með hljóðpípum upp á Drottins fjall til Hellubjargsins Ísraelsmanna b).30Þá mun Drottinn heyra láta hina hátignarlegu raust sína, og láta sjá til sín, þegar hann reiðir ofan armlegg sinn í hermdarhug, í brennandi eldslogum, í stór flóðum, steypihríðum og hagléljum.31Því Assýríumenn skulu skelfast fyrir raustinni Drottins; með sprota sínum mun hann slá þá.32Og í hvört sinn sem refsivölur sá, er Drottinn reiðir á lofti uppi yfir þeim, kemur niður, mun heyrast bumbuhljóð og hörpusláttur; því með snarlegri bardaga svipan mun Drottinn á þá herja.33Tófetsdalur c) er þegar fyrir löngu undirbúinn, einnig handa konunginum; það er búið að taka til í dalnum, dýpka hann og gjöra rúmlegan; það er hlaðið stórt bál, og eldurinn og eldiviðurinn er nógur; andi Drottins mun leika á honum, eins og loganda brennusteinsflóð.
Jesaja 30. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:41+00:00
Jesaja 30. kafli
Spámaðurinn ávítar Gyðinga fyrir það, að þeir af ótta fyrir Assyríumönnum leituðu trausts hjá egypskum, og að þeir fyrirlitu áminningar spámannanna; boðar þeim Guðs líkn og frelsun frá yfirgangi Assyríumanna, ef þeir treysti Guði, hlýði spámönnunum og hafni skurðgoðum.
V. 27. a. Sjálfur Drottinn, á Hebr., „nafn Drottins“. V. 29. b. Þ. e. til Drottins (Es. 17,10. 26,4. 44,8). V. 33. Í Tófetsdal voru framin blót og börn brennd; síðan var sá dalur hafður fyrir líkabrennur, Jer. 7,31. 19,6.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.