1Vei þeim, sem veita ranga úrskurði og óréttvís atkvæði,2til þess að halla réttarfari fátækra, og ræna lögum hina voluðu á meðal míns fólks, til þess að ekkjurnar verði þeim að herfangi, og hinir munaðarlausu að bráð!3Hvað viljið þér til gjöra á hegningardeginum, þegar eyðileggingin að kemur úr fjarska voveiflega? Til hvörs viljið þér þá flýja um ásjá? og hvar viljið þér geyma auðæfi yðar?4Þau geta ekkert af sér gjört, nema að hneppa undir sig hina fjötruðu, og leggjast undir valinn. Með öllu þessu rénar eigi reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.
5Vei Assyríukonungi, þeim vendinum minnar reiði! Sproti sá, sem er í hendi þeirra (Assyríumanna), það er reiðisproti minn.6Eg senda hann móti andvaralausri þjóð, eg bauð honum að ræna og rupla þá þjóð, hvörri eg var reiður orðinn, og fóttroða hana sem saur á strætum.7En hann áleit þetta ekki á þann veg, heldur virti það fyrir sér öðruvísi,8og sagði: „eru ekki höfðingjar mínir allir saman konungar?9Fór ekki fyrir Kalneborg eins og fyrir Karkemisborg? fyrir Hamatsborg eins og fyrir Arpadsborg? fyrir Samaríu eins og fyrir Dammaskusborg?10Með því eg nú hefi komist höndum yfir ríki þeirra goða, er meiri voru fyrir sér en Jerúsalemsgoð og Samaríugoð,11skylda eg þá ekki gjört geta við Jerúsalemsborg og hennar guði, það sama sem eg gjörði við Samaríu og hennar goð?“12En, þegar hinn Alvaldi hefir framkomið fyrirætlan sinni á Síonsfjalli og í Jerúsalemsborg, þá mun eg (segir Drottinn) gefa gætur að því, sem leitt hefir af ofdrambi Assyríukonungs og af hinu hrokafulla yfirlæti hans,13er hann segir: „með styrk handar minnar og með viturleik mínum hefi eg þessu til leiðar komið, því að eg em hyggindamaður. Eg hefi fært úr stað landamerki þjóðanna, rænt fjárhlutum þeirra, og fleygt innbyggjendunum niður, eins og sterkur uxi.14Eg hefi tekið upp eigur þjóðanna, eins og fuglshreiður; eg hefi safnað saman öllum löndum, eins og menn safna eggjum, þá fuglinn er floginn úr hreiðrinu, án þess nokkur blakaði vængjum, eða lyki upp nefinu, eða tísti“.15Þorir nokkuð öxin að dramba í móti þeim, sem höggur með henni? eða sögin að miklast í gegn þeim, sem sagar með henni? allteins og stafurinn geti ráðið við þá, sem reiða hann! eða sprotinn fái valdið því, sem ekki er af tré! a)16Þess vegna mun hinn Alvaldi, Drottinn allsherjar, senda megrunarsótt á meðal hans sællegu (hermanna), og loginn skal leika undir hans einvalaliði, eins og í eldsbruna.17Því ljósið Ísraelsmanna b) mun verða að eldi, og hinn heilagi Guðs þeirra að eldsloga, og sá logi skal á einum degi uppbrenna og eyða þyrnum og þistlum hans (Assýríukonungs),18og afmá gjörsamlega c) hinn blómlega viðarskóg og aldinskóg hans, svo hann skal verða eins og sjúklingur sá, er mornar allur og þornar.19Þau skógartré hans, sem eftir verða, skulu eigi fleiri vera en svo, að hvört barnið skal mega telja þau.
20Á þeim degi skulu þeir, sem eftir verða af Ísraelsmönnum, og afkomast af Jakobsniðjum, ekki framar reiða sig á þann, sem sló þá d) heldur munu þeir trúfastlega reiða sig á Drottin, hinn heilaga Ísraels Guð.21Nokkurar eftirleifar, sem eftir verða af Jakobsniðjum, skulu aftur hverfa til Guðs hins almáttuga.22Því þó fólksfjöldi þinn, Ísraelslýður, væri sem sjávarsandur, skulu þó aðeins nokkurar leifar hans aftur hverfa. Eyðileggingin er ályktuð, og reiðidómurinn mun yfir dynja;23því hinn Alvaldi, Drottinn allsherjar, mun láta eyðilegginguna og reiðidóminn ganga yfir gjörvallt landið.24Þar fyrir segir hinn Alvaldi, Drottinn allsherjar, svo: óttast eigi, þú minn lýður, sem býr á Síonsfjalli, fyrir Assyríukonungi, sem sló þig með sprota, og reiddi að þér staf sinn, eins og Egyptar (forðum).25Því ekki mun á löngu líða, áður reiði minni og heift linnir við eyðileggingu þeirra c).26Þá mun Drottinn allsherjar reiða svipu á loft yfir þeim, eins og þegar Midíansmenn biðu ósigurinn (Dóm. 7) hjá Orebskletti (Dóm 7,25), og eins og þegar hann hóf staf sinn yfir hafið, og sló Egyptalandsmenn.27Þá skal byrði sú, sem hann (Assyríukonungur) hefir lagt á herðar þér, ofan falla, og ok hans af hálsi þínum; og okið skal brotna af ofurstyrk uxans f).28Hann (Assyríukonungur) heldur til Ajatsborgar, fer framhjá Mígronsborg, og leggur upp farangur sinn í Mikmasborg.29Þeir fara yfir skarðið, og hafa náttból í Gebaborg. Ramaborg skelfur, og Gíbeaborg, sem kennd er við Sál, tekur á flótta.30Hljóða þú upp, Gallimsborgar mær! Taktú eftir því, Laísaborg! Æ hina ógæfusömu Anatotsborg!31Madmenaborg flýr, innbyggjendur Gebimsborgar hörfa undan.32Sama dag kemur hann til Nóbsborgar, og æir þar; og nú réttir hann hönd sína móti Síonsfjalli og móti hæðum Jerúsalemsborgar.33En, sjá þú! hinn Alvaldi, Drottinn allsherjar, hann afsníður laufkvistuna voveiflega: hin hávöxnu trén verða upprætt, og hin gnæfandi hníga til jarðar.34Hann ryður skógarrunnana með eggjárni, og Líbanons skógur fellur fyrir hinum volduga.
Jesaja 10. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:34+00:00
Jesaja 10. kafli
Ranglæti Gyðinga. Ofdramb og hegning Assyriumanna.
V. 15. a. Því sem ekki er af tré, þ. e. manninum, sem á sprotanum heldur. V. 17. b. Samanbr. 60,1. 2 Mós. 13,21. V. 18. c. Gjörsamlega, á hebr., „frá sálu og allt til holds“. V. 20. d. Þann sem sló þá, þ. e. Assyríukonung. V. 25. e. Þeirra, þ. e. Assyríumanna. V. 27. f. Af ofurstyrk uxans, á hebr. „af feiti“.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.