1Sú þjóð, sem í myrkrinu gengur, sér mikið ljós: yfir þeim, sem búa í landi náttmyrkranna, ljómar fögur birta.2Þú gjörir þessa þjóð fjölmenna, og eykur stórum hennar fögnuð: menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskerutímanum, og eins og menn leika af feginleik, þegar herfangi er skipt.3Því okið, sem hún bar, stafinn, sem reið að herðum hennar, barefli verknauðarmannsins hefir þú í sundur brotið, eins og á degi Midíansmanna (10,26),4þegar hvör maður batt á sig brynhosu í ofboði, og klæðin velktust í blóði, og allt, sem brenna náði, varð eldsmatur.5Því eitt barn er oss fætt, sonur er oss gefinn; á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla; hann skal heita „hinn undrunarlegi, ráðgjafi, hinn máttugi sterki Guð, faðir eilífðarinnar, friðarhöfðingi.“6Hans veldi skal æ fara vaxandi, og friðurinn skal aldrei enda taka á Davíðs hásæti og í hans konungsríki, því er hann mun efla, og styrkja með dómi og réttvísi (réttvísum dómi) héðan í frá og til eilífrar tíðar. Ástríki Drottins allsherjar mun slíku til vegar koma.
7Hinn Alvaldi hefir sent orð Jakobsniðjum, og það mun niður koma á Ísraelsmönnum.8Allt landsfólkið skal verða þess áskynja, Efraimsætt og innbyggjendur Samaríu, sem af metnaði og dramblæti segja:9„tígulsteinarnir eru niðurfallnir, en vér viljum byggja upp aftur af höggnu grjóti, mórberfíkjutrén eru upprætt, en vér viljum setja sedrustré í staðinn.“10Þess vegna mun Drottinn efla mótstöðumenn Resíns a) á hendur þeim, og vopna óvini þeirra,11Sýrlendinga að austan og Filistea að vestan, og þeir skulu svelgja Ísraelslýð opnum munni. Allt fyrir það linnir ekki reiði hans, og hans hönd er enn þá útrétt.12Því fólkið snýr sér ekki til hans, sem tyftar það, það leitar ekki Drottins allsherjar.13Þess vegna mun Drottinn afhöggva höfuð og hala Ísraelsmanna, pálmakvistinn og sefreyrinn á sama degi.14Valdsmennirnir og virðingamennirnir, þeir eru höfuðið, spámenn þeir, er kenna lygar, eru halinn.15Því leiðtogar þessa fólks leiða það afvega, og þeir, sem láta þá leiða sig, tortýnast.16Þess vegna getur hinn Alvaldi enga gleði haft af æskumönnum þeirra, og ekki verið munaðarleysingjum og ekkjum þeirra miskunnsamur; því þeir eru allir guðlausir og vondir, og hvör munnur talar það, sem svívirðilegt er. Með öllu þessu rénar ekki reiði hans, og enn þá er hans hönd útrétt.17Því hið óguðlega athæfi brennur, eins og eldur sá, er eyðir þyrnum og þistlum og kveikir í þykkum skógarrunnum, svo þeir hvirflast upp í reykmökk.18Landið stiknar af reiði Drottins allsherjar; fólkið verður sem eldsmatur, og enginn vægir öðrum.19Menn rífa í sig til hægri handar, og eru þó hungraðir: þeir eta um sig til vinstri handar, og verða þó eigi saddir. Hvör etur holdið af sínum eigin armlegg.20Manassis ættkvísl er upp á móti Efraimsætt, og Efraimsætt móti Manassisætt, og þær báðar saman móti Júda ættkvísl. Með öllu þessu rénar ekki reiði hans, og hans hönd er enn þá útrétt.
Jesaja 9. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:02:34+00:00
Jesaja 9. kafli
Viðrétting á hag Gyðingalýðs; tign og veldi Frelsarans. Hótunarorð til Gyðinga sökum óhlýðni þeirra við Guð.
V. 10. a. Mótstöðumenn Resíns, (7,1), þ. e. Assýríumenn.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.