1Á þessum sama degi gaf Assverus kóngur Ester drottningu hús Amans, óvinar Gyðinganna; og Mardokeus kom fyrir konunginn, því Ester hafði sagt honum, hvörsu hann væri sér vandabundinn.2Og kóngurinn dró af hendi sér fingurgull sitt, sem hann hafði tekið af Aman, og gaf það Mardokeus; og Ester setti Mardokeus yfir Amans hús.3Og Ester talaði enn fremur við kónginn og féll honum til fóta og bað grátandi, að hann vildi ónýta illsku Amans Agagitans, og áform það er hann hafði upphugsað, Gyðingum til tjóns.4Og kóngurinn rétti að Ester ena gulllegu spíru; þá stóð Ester upp og gekk fyrir konunginum,5og mælti: ef konunginum það þóknast, og hafi eg náð fundið hjá honum, og sé konunginum það ei ógeðfellt, og ef eg þóknast honum: þá sé skrifað, til að afturkalla ráðagjörð Amans sonar Ham-Medata Agagita, sem hann skrifaði, svo að Gyðingafólk yrði í öllum löndum konungsins, afmáð.6Því hvörnig fæ eg horft á ólukku þá er koma mun yfir mitt fólk? eða hvörnig get eg horft á það, að ætt mín eyðileggist?7Og Assverus konungur sagði við Ester drottningu og Gyðinginn Mardokeus: sjá! eg hefi nú gefið Ester hús Amans, en hann sjálfur er á gálga hengdur, fyrir það, að hann lagði hendur á Gyðinga.8En skrifið nú um Gyðinga það sem ykkur líkar í kóngsins nafni og innsiglið með kóngsins hring, því allt sem í kóngsins nafni er skrifað og með hans hring innsiglað, verður ei afturkallað;9þá voru strax kallaðir skrifarar konungsins, á tuttugasta og þriðja degi þriðja mánaðar, sem er mánuðurinn sivan, og var þá skrifað, allt eins og Mardokeus bauð til Gyðinga, til höfðingjanna, til hirðstjóranna og höfuðsmannanna í löndunum, frá Indíalandi og allt til Mórlands, er var hundrað og tuttugu og sjö lönd, og hvörju landi var skrifað eftir þess skrift, og hvörju fólki eftir þess tungumáli og Gyðingum einnig eftir skrift og tungumáli þeirra.10Og hann (Mardokeus) skrifaði undir nafni Assverus kóngs, og innsiglaði með hring konungsins, og sendi bréfin með hlaupurum, á hestum, ríðandi á gæðingum, múlum, kaplasonum.11Konungurinn leyfði Gyðingum að samansafnast hvar sem þeir væru í stöðunum, til að verja líf sitt, og að afmá, drepa og deyða alla makt þess fólks og lands sem sýndi þeim fjandskap, þeirra börnum og kvinnum, og þeirra eignum ræna,12á einum degi í öllum löndum Assverus kóngs, á þrettánda degi þess tólfta mánaðar, sem er mánuðurinn adar.13Og innihald bréfsins, með hvörju gefin var skipan um öll lönd, var kunngjört öllum þjóðum, að Gyðingar skyldu viðbúnir vera á þeim tiltekna degi að hefna sín á óvinum sínum.14Og hlaupararnir á gæðingunum og múldýrum ríðandi, fóru eftir skipan kóngsins, sem mest og hraðast þeir máttu; og þessi skipan var á Súsan sloti útgefin.15Og Mardokeus gekk út frá konunginum íklæddur bláum og hvítum kónglegum klæðum, og berandi möttul úr líni og purpura og stóra gullkórónu á höfði sér: og í borginni Súsan varð gleði mikil og fögnuður;16og ljós upprann Gyðingum, og fögnuður, gleði og sæmd.17Og í öllum löndum og öllum borgum, og svo langt sem orð og skipan konungsins náði, var gleði og unaðsemd meðal Gyðinga, gestaboð og hátíðisdagur, svo margir af landanna innbúum gjörðust Gyðingar, því ótti fyrir Gyðingum var kominn yfir þá.
Esterarbók 8. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:01:11+00:00
Esterarbók 8. kafli
Gyðingar fá leyfi hjá kónginum til að taka hefnd á óvinum sínum.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.