1Eftir þetta skeði það að Absalon útvegaði sér vagna og hesta og 50 menn sem fyrir honum hlupu b).2Og Absalon var árla á fótum og gekk á veginn sem lá inn að borgarhliðinu; og hvörn þann mann sem mál hafði að kæra fyrir kóngi, þann hinn sama kallaði Absalon til sín, og sagði við hann: frá hvaða stað ert þú? og segði maðurinn: þinn þjón er af einni Ísraels ættkvísl,3þá tók Absalon þannig til orða við hann: þitt málefni er rétt og hreint, en enginn er settur af kónginum sem hans vegna líti á þína sök.4Og Absalon mælti: eg vildi óska að eg væri settur dómari í landinu, svo hvör maður, sem hefði misklíð, eða mál að sækja, gæti komið til mín, þá skyldi eg hjálpa honum til að ná rétti sínum!5Og þegar einhvör nálægði sig honum, til að lúta honum, rétti hann fram höndina, og greip til hans og kyssti hann.6Þannig breytti Absalon við alla Ísraelsmenn, sem í málum sínum komu fyrir konunginn. Og Absalon stal hjörtum Ísraelsmanna a).
7Og það skeði eftir 40 ár b), að Absalon kom að máli við konunginn, og sagði: leyf þú mér að fara til að leysa heit í Hebron sem eg hefi gjört Drottni.8Því heit hefir þjón þinn unnið c), þá eg var í Gesur á Sýrlandi, því eg sagði: láti Drottinn mig aftur komast til Jerúsalem, svo vil eg þjóna Drottni.9Og konungurinn sagði til hans: far þú í friði d)! og svo tók hann sig til og fór til Hebron.10Og Absalon sendi njósnarmenn til allra Ísraels ættkvísla og sagði: þegar þér heyrið hljóm básúnunnar, þá segið: Absalon er orðinn kóngur í Hebron.11Og með Absalon fóru 2 hundruð manns úr Jerúsalem, þeim var boðið og fóru í grandleysi sínu, og þeir vissu ekki hvað undirbjó.12Og Absalon sendi og lét kalla Gilonítann Akítofel e), ráðgjafa Davíðs, úr hans stað, Silo, þá hann var að fórnfæringu. Og samblásturinn varð mikill, og að Absaloni dróst mikill liðsafli.
13Þá kom maður nokkur til Davíðs og mælti: hjarta Ísraelsmanna hneigist nú að Absalon.14Þá mælti Davíð við alla sína þénara sem hjá honum voru í Jerúsalem: tökum oss upp og flýjum! því ekki mun Absalon gefa oss grið. Hraðið yður að flýja, að hann ekki sviplega nái oss, og leiði yfir oss ólukku, og slái staðinn með sverðseggjum!15Og kóngsins þénarar sögðu til kóngsins: hvað sem helst minn herra kóngurinn velur, þá sjá! vér erum þínir þjónar.16Þá lagði kóngur af stað, og allt hans hús með honum, og konungurinn lét eftir verða 10 hjákonur sínar f) til að gæta herbergjanna.17Svo lagði kóngur af stað og allt það fólk sem honum fylgdi, og nam staðar hjá Bet-Merhak.18Og allir hans þénarar gengu með honum og öll hirðin, og allir Gatítarnir, 6 hundruð manns, sem komið höfðu með honum frá Gat, þeir gengu með konunginum.
19Þá sagði Davíð við Itaí, Gatítann g): hvar fyrir vilt þú og með oss fara? snú þú aftur, og vertú hjá konunginum! því útlendur maður ert þú, og á gamlar stöðvar fer þú aftur.20Í gær komstu og í dag skyldi eg hafa þig með á þessum flótta? Eg fer eitthvað sem fætur toga. Snú þú aftur og taktu með þér bræður þína með elskusemi og tryggð.21En Ítaí svaraði konunginum og mælti: svo sannarlega sem Drottinn lifir, og minn herra konungurinn lifir! á hvörjum stað sem minn herra konungurinn verður, það sé til dauða, það sé til lífs, á þeim sama stað mun þinn þjón vera h).22Og Davíð sagði til Itaí: kom þú þá með og far þú á undan! Og svo fór Gatítinn Ítaí og allir hans menn á undan, og öll börnin sem með honum voru.23En allt landið grét hástöfum, þegar allt fólkið fór áfram, og kóngurinn gekk yfir lækinn Kedron; og allt fólkið hélt á fram veginn til óbyggðanna.24Og sjá! þar var og Sadok a) og allir Levítarnir með honum og báru Guðs lögmáls örk, og þeir settu niður Guðs örk; og Abíatar staðnæmdist þar b), þangað til allt fólkið var komið burt úr staðnum.
25En kóngurinn sagði við Sadok: far þú með Guðs örk aftur inn í staðinn! finni eg náð í augum Drottins, mun hann leiða mig heim aftur, og láta mig sjá hana og sinn bústað.26En ef hann segir svo: eg hefi ekki þóknan á þér—sjá! hér em eg—gjöri hann við mig sem honum gott þykir c).27Og kóngurinn sagði við prestinn Sadok: ert þú ekki sjáandi d) far þú til staðarins í friði og Akímas son þinn, og Jónatan sonur Abíatars c) ykkar báðir synir með ykkur.28Sjáið! eg vil hafast við á sléttlendinu í óbyggðinni, þangað til eg fæ eitthvað tíðinda, sem þið látið til mín komast.
29Og svo fluttu þeir Sadok og Abíatar Guðs örk aftur til Jerúsalem, og voru þar.30En Davíð fór upp Viðsmjörsviðarfjallið og gekk grátandi með huldu höfði, og berfættur, og allt fólkið sem með honum var, hvör og einn huldi líka höfuð sitt, og gekk grátandi.31Og menn sögðu Davíð þessi tíðindi: Akítófel er meðal þeirra sem samsvarist hafa með Absalon. Þá mælti Davíð: Drottinn gjör þú Akítófels ráð að heimsku!32En sem Davíð kom upp á hæðina, þar sem menn voru vanir að tilbiðja Guð, sjá! þá mætti honum Arkítinn Húsaí, í rifnum klæðum, og með mold yfir sínu höfði.33Og Davíð sagði við hann: farir þú með mér, verður þú mér til tafar.34En ef þú fer til staðarins og segir við Absalon: þinn þjón, ó konungur! vil eg vera, þjón föður þíns var eg fyrir skemmstu, en nú er eg þinn þjón; svo munt þú gjöra Akítófels ráð að engu mér í hag.35Og eru ekki hjá þér þar prestarnir Sadok og Abíatar; og láttu nú sjá, allt sem þú heyrir í kóngsins húsi, það láttu þá prestana Sadok og Abíatar vita.36Sjá! hjá þeim eru báðir synir þeirra, Akímas sonur Sadoks og Jónatan sonur Abíatars. Látið þá færa mér öll þau tíðindi sem þið fáið.37Svo kom Húsaí vinur Davíðs í staðinn, um það leyti sem Absalon kom til Jerúsalem.
Síðari Samúelsbók 15. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T01:00:30+00:00
Síðari Samúelsbók 15. kafli
Absalons uppreisn. Davíðs flótti.
V. 1. b. 1 Kóng. 1,5. V. 6. a. Gen. 31,20. V. 7. b. Frá því Davíð var smurður til kóngs. V. 8. c. Gen. 28,20. V. 9. d. 1 Sam. 20,42. V. 12. e. Kap. 23,34. V. 16. f. Kap. 16,21. V. 19. g. Kap. 18,2. V. 21. h. Rut. 1,16. V. 24. a. 1 Kron. 12,28. b. Staðnæmdist þar nefn. hvar örkin stóð. Aðrir leggja út: offraði brennifórnum. V. 26. c. Kap. 10,12. 1 Sam. 3,18. 1 Makk. 3,60. V. 27. d. Sjáandi, sá sem hefir gáfu til að vita hið ókomna. 1 Sam. 9,9. e. 1 Kóng. 1,42.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.