1Þetta er sú reglugjörð, sem þú skalt fylgja, þegar þú vígir þá til að vera mína kennimenn: tak ungan uxa og tvo hrúta gallalausa;2sömuleiðis ósýrt brauð, ósýrðar kökur viðsmjöri stokknar, og ósýrða hleifa smurða með viðsmjöri; þetta skaltu gjöra af hveiti.3Þú skalt láta þetta í eina körfu, og bera það fram í körfunni, og leiða fram uxann og báða hrútana;4þá skaltu leiða Aron og syni hans fyrir dyr samkundutjaldbúðarinnar, og lauga þá í vatni;5síðan skaltu taka klæðin, og færa Aron í serkinn og hökulkyrtilinn og í hökulinn og brjóstskjöldinn, og girða hann með hökulbeltinu.6Þá skaltu leggja ennidúkinn um höfuð honum, og láta hinn heilaga dregil (kap. 28,36–38) um ennidúkinn;7þá skaltu taka smurningarviðsmjörið, og hella því yfir höfuð hans, og smyrja hann.8Síðan skaltu leiða fram sonu hans, og færa þá í serkina,9girða þá með beltum, bæði Aron og sonu hans, og binda á þá höfuðdúkana, og eru þeir þá fullgildir til kennimansskapar ævinlega, og skaltu fá þeim embættið í hendur, Aroni og sonum hans.
10Síðan skaltu leiða uxann fram fyrir samkundutjaldbúðina, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð uxanum,11en þú skalt slátra uxanum frammi fyrir Drottni, fyrir dyrum samkundutjaldbúðarinnar.12Síðan skaltu taka nokkuð af blóði uxans, og rjóðra með fingri þínum á altarishornin, en öllu hinu blóðinu skaltu niður steypa við altarisfótinn.13Þú skalt taka alla netjuna, blöðkuna af lifrinni, bæði nýrun og nýrnamörinn, og brenna það á altarinu;14en kjöt uxans, húðina og gorið skaltu brenna í eldi fyrir utan herbúðirnar, því það er syndafórn.
15Því næst skaltu taka annan hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins;16síðan skaltu slátra hrútnum, taka blóð hans, og stökkva því allt um kring á altarið.17En hrútinn skaltu lima í sundur, þvo innyfli hans og læri, og leggja þau ofan á limina og höfuðið,18og brenna svo allan hrútinn á altarinu; það er brennifórn fyrir Drottni, og þakknæmilegur ilmur, það er fórn sem Drottni líkar.
19Þarnæst skaltu taka hinn hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins,20en þú skalt slátra hrútnum, og taka nokkuð af blóði hans, og ríða því á hægra eyrnasnepil Arons og sona hans, og á hægra þumalfingur þeirra, og á hægri þumaltá þeirra, og stökkva blóðinu um kring á altarið;21þú skalt taka nokkuð af því blóði, sem er á altarinu, og nokkuð af smurningaviðsmjörinu, og stökkva því á Aron og klæði hans, og þar með á sonu hans og þeirra klæði, og verður hann þá vígður og hans klæði, og synir hans og þeirra klæði.22Síðan skaltu taka feitina af hrútnum, rófuna, netjuna, lifrarblöðkuna, bæði nýrun og nýrnamörinn, og hægra lærið (því þetta er vígslufórnarhrútur),23eitt kringlubrauð, eina viðsmjörsköku og einn hleif úr körfunni með ósýrðu brauðunum í, sem stendur frammi fyrir Drottni;24allt þetta skaltu leggja í hendur Arons og sona hans, og veifa því sem annarri veifunarfórn frammi fyrir Drottni;25síðan skaltu taka það af höndum þeirra, og brenna það á altarinu yfir brennifórninni, til þakknæmilegs ilms fyrir Drottni: það er fórn, sem Drottni líkar.
26Því næst skaltu taka bringuna af vígsluhrút Arons, og veifa henni sem annarri veifunarfórn frammi fyrir Drottni; hún skal falla í þinn hlut;27þú skalt vígja veifunarbringuna; og eins upplyftingarlærið, sem veifað og upplyft hefir verið, af vígsluhrút Arons og sona hans;28það skal tilheyra Aroni og sonum hans, eftir því lögmáli, sem ævinlega skal gilda hjá Ísraelsmönnum; því það er upplyftingarfórn, og upplyftingarfórn skulu Ísraelsmenn færa af þakkarfórnum sínum, en upplyftingarfórn þeirra heyrir Drottni til.29Þau helgu klæði, sem Aron hefir, skulu synir hans hafa eftir hann: í þeim skulu þeir smurðir verða, í þeim skal embættið verða þeim í hendur fengið.30Sá af sonum hans, sem kennimaður verður í hans stað, skal sjö daga vera í þeim, þá hann gengur inn í samkundutjaldbúðina til að embætta í helgidóminum.31Þú skalt taka vígsluhrútinn, og sjóða kjöt hans á helgum stað,32og skulu þeir Aron og synir hans eta kjöt hrútsins og það brauð, sem er í körfunni fyrir dyrum samkundutjaldbúðarinnar;33þess vegna skulu þeir eta þetta, að þar með afplánast það, að maður hefir fengið embættið í hendur þeim og vígt þá; en enginn útlendur má eta það, því það er vígt.34En ef nokkuð leifist af vígslufórnarkjötinu og brauðinu til næsta morguns, þá skaltu brenna þær leifar í eldi; það má ekki eta, því það er vígt.35Þú skalt svo gjöra við Aron og sonu hans í alla staði, eins og eg hefi boðið þér; í sjö daga skaltú leggja vígslufórnina í hendur þeim,36og á hvörjum degi skaltu slátra uxa í syndafórn til forlíkunar, og fórna syndafórn á altarinu til að friðhelga það, og þú skalt smyrja það undir vígsluna.37Þú skalt vera í 7 daga að friðhelga altarið og vígja það, og þá skal altarið verða alheilagt, og hvör sá, sem snertir altarið, skal vera heilagur.
38Þessi er sú fórn, sem þú skalt fórnfæra á altarinu: ætíð hvörn dag tvö ásauðarlömb veturgömul;39öðru lambinu skaltu fórnfæra að morgni dags, en hinu eftir sólarlag.40Með öðru lambinu skal hafa tíunda part af hveiti, blönduðu við fjórðung hínar af steyttu viðsmjöri, og til dreypifórnar fjórðung hínar af víni;41hinu lambinu skaltu fórnfæra eftir sólarfall, og hafa við sömu matarfórn og dreypifórn, sem um morguninn, til þakknæmilegs ilms, til þægilegrar fórnar fyrir Drottni.42Þetta er sú daglega brennifórn, sem yðar niðjar skulu fórnfæra fyrir dyrum samkundutjaldbúðarinnar í augsýn Drottins; þar vil eg koma á yðvarn fund, til að tala þar við þig:43þar vil eg eiga fund við Ísraelsmenn, og þessi staður skal helgast af minni dýrð;44eg vil helga samkundutjaldbúðina og altarið, eg vil helga Aron og sonu hans til að vera mína kennimenn;45eg vil búa á meðal Ísraelsmanna, og vera þeirra Guð;46þeir skulu viðurkenna, að eg em Drottinn, þeirra Guð, sem útleiddi þá af Egyptalandi, til þess eg mætti búa meðal þeirra. Eg em Drottinn, Guð þeirra.
Önnur Mósebók 29. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T00:59:30+00:00
Önnur Mósebók 29. kafli
Vígsla prestanna. Sú daglega fórn.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.