1Drottinn mælti við Móses, og sagði:2seg til Ísraelsmanna, að þeir skuli snúa við, og setja herbúðir sínar fyrir framan Pí-Hakírot, milli Migdols og hafsins, gegnt Baal-Sefon; þar andspænis skuluð þér setja herbúðir yðar við hafið.3Því faraó mun segja um Ísraelsmenn: þeir fara villir vega í landinu, eyðimörkin hefir innibyrgt þá.4Og eg vil forherða hjarta faraós, svo hann skal veita þeim eftirför; eg vil sýna almætti mitt á faraó og öllum hans her, svo að Egyptalandsmenn skulu vita að eg em Drottinn. Þeir gjörðu svo.5Þegar Egyptalandskonungur frétti, að fólkið var flúið, þá varð hugur faraós og þjóna hans mótsnúinn fólkinu, og þeir sögðu: hví höfum vér gjört þetta, að vér höfum látið Ísraelsmenn sleppa úr þrældóminum frá oss.6Hann lét þá beita fyrir vagn sinn, og tók menn sína með sér.7Hann tók 600 útvalda vagna, og hvað annað af vögnum var í Egyptalandi, og setti hermenn sína á hvörn þeirra;8því Drottinn forherti hjarta faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann veitti Ísraelsmönnum eftirför, en Ísraelsmenn höfðu út gengið sigri hrósandi.9Egyptalands menn sóttu nú eftir þeim, og allir hestar og vagnar faraós, riddararnir og allur herinn náðu þeim, þar sem þeir höfðu sett herbúðir sínar við hafið, fyrir framan Pí-Hakírot, gegnt Baal-Sefon.10Þá faraó nálgaðist, hófu Ísraelsmenn upp sín augu, og sáu, að Egyptar sóttu eftir þeim; urðu Ísraelsmenn þá mjög óttafullir, og ákölluðu Drottin;11og sögðu til Mósis: þurftir þú þess vegna að taka oss burt til að deyja hér á eyðimörku, að engar væru grafir til í Egyptalandi? Hví hefir þú gjört oss þetta, að fara með oss út af Egyptalandi?12Kemur nú ekki fram það sem vér sögðum við þig í Egyptalandi: lát oss vera kyrra og þjóna heldur Egyptalandsmönnum, en að deyja í eyðimörkinni.13Þá sagði Móses til fólksins: óttist ekki, gangið fram, og horfið á það hjálpræði, sem Drottinn mun í dag láta fram við yður koma; því þessa egypsku menn, sem þér sjáið í dag, munuð þér aldrei nokkurn tíma framar augum líta;14Drottinn mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir.
15Þá mælti Drottinn við Móses: hví kallar þú á mig? seg Ísraelsmönnum, að þeir haldi á fram;16en þú lyft upp staf þínum, og rétt út hönd þína yfir hafið, og skipt því í sundur, og skulu þá Ísraelsmenn þurrum fótum ganga mega gegnum sjóinn.17Sjá! eg forherði hjörtu Egyptalands manna, svo þeir skulu sækja á eftir þeim, og eg vil láta mína dýrð birtast á faraó og öllum hans liðsafla, á vagnaliði hans og riddaraliði,18svo að allir Egyptar skulu vita, að eg em Drottinn, þá eg hefi látið dýrð mína birtast á faraó, og á vagnaliði hans og riddaraliði.19Og engill Guðs, sá er gekk á undan herskörum Ísraelsmanna, tók sig upp og fór á bak við þá, og skýstólpinn, sem stóð fyrir framan þá, hóf sig upp og staðnæmdist að baki þeirra,20milli herliðs egypskra og herskara Ísraelsmanna, og var skýið myrkt annarsvegar en annarsvegar upplýsti það nóttina; og færðist hvörugur herinn nær öðrum alla þá nótt.21En Móses rétti út hönd sína yfir hafið, og Drottinn bægði hafinu frá með hvössum austanvindi, sem blés alla nóttina; hann gjörði hafið að þurrlendi, og sjórinn skiptist í sundur;22og Ísraelsmenn gengu þurrum fótum mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.23Egyptalandsmenn sóttu eftir, og fóru út í sjóinn á eftir þeim, með öllu hestaliði faraós, og vagnaliðinu og riddaraliðinu.24En á morgunvökunni leit Drottinn yfir her egypskra ofan af eldstólpanum og skýstólpanum, og sló felmtri í lið Egyptalandsmanna,25og lét þeirra vagna ganga af hjólunum, svo þeim varð ekið torveldlega. Þá kölluðu Egyptar: eg vil flýja fyrir Ísraelsmönnum, því Drottinn berst með þeim móti egypskum.26Þá sagði Drottinn við Móses: rétt út þína hönd yfir hafið, og skulu þá vötnin aftur falla yfir egypska, yfir þeirra vagna og riddaralið.27Þá útrétti Móses sína hönd yfir hafið, og sjórinn féll að aftur undir morguninn, en Egyptar flýðu beint í mót aðfallinu, og keyrði Drottinn þá mitt út í hafið.28Sjórinn féll að og huldi vagna og riddara í öllum Farós her, sem eftir þeim hafði farið út á hafið, svo ekki komst nokkur einn maður af;29en Ísraelsmenn gengu þurrum fótum mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.30Svo frelsaði Drottinn Ísraels lýð á þeim degi frá hendi Egyptalands manna, og þeir sáu hina egypsku menn liggja dauða á sjávarströndinni.31Og er Ísraelsmenn sáu þau stórmerki, sem Drottinn hafði framið á Egyptalandsmönnum, þá óttaðist fólkið Drottin, og trúði honum og hans þjóni Móses.
Önnur Mósebók 14. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T00:59:30+00:00
Önnur Mósebók 14. kafli
Ísraelsmenn fara yfir Hafið rauða. Faraó drukknar.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.