1Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.2Og jörðin var í eyði og tóm, og myrkur yfir djúpinu, og Guðs Andi lagðist á djúpið.3Og Guð sagði: verði ljós, og þar varð ljós.4Og Guð sá, að ljósið var gott. Þá aðskildi Guð ljósið frá myrkrinu5og kallaði ljósið dag, en myrkrið nótt. Þá varð kvöld, og þá varð morgun, hið fyrsta dægur.6Og Guð sagði: verði festing milli vatnanna, svo að hún aðskilji vötn frá vötnum.7Þá gjörði Guð festingu, og aðskildi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum sem voru yfir henni, og það skeði svo.8Og Guð kallaði festinguna himin. Þá varð kvöld og þá varð morgun, hið annað dægur.9Og Guð sagði: safnist vötnin undir himninum í einn stað, svo að sjást megi þurrt land; og það skeði svo.10Og Guð kallaði þurrlendið jörð; en samsafn vatnanna kallaði hann sjó. Og Guð sá að það var gott.11Og Guð sagði: láti jörðin af sér upp spretta græn grös og jurtir, hafandi fæði í sér, og ávaxtarsöm tré, svo að hvert beri ávöxt eftir sinni tegund, og hafi í sér sitt eigið sæði, á jörðunni; og það skeði svo.12Og jörðin lét á sér spretta græn grös og jurtir, hafandi sæði hvert eftir sinni tegund, og ávaxtarsöm tré, hafandi sín eigin sæði í sjálfum sér, hvert eftir sinni tegund, og Guð sá að það var gott.13Þá varð kvöld og þá varð morgun, hið þriðja dægur.14Og Guð sagði: verði ljós á festingu himinsins, svo þau aðgreini dag frá nótt, og séu teikn tímum, dögum og árum,15og séu ljós á festingu himinsins, til að lýsa yfir jörðina; og það skeði svo.16Og Guð gjörði tvö stór ljós; það stærra ljósið til að ráða deginum, og hið minna ljósið til að ráða nóttunni, þar að auki stjörnurnar.17Og Guð setti þau á festingu himinsins, að þau skyldu lýsa jörðunni,18og ráða degi og nótt, og að greina ljós og myrkur. Og Guð sá að það var gott.19Og þá varð kvöld og þá varð morgun, hið fjórða dægur.20Og Guð sagði: vötnin fyllist af sveimandi lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir himinsins festingu.21Og Guð skapaði stóra hvalfiska og allsháttar lifandi skepnur sveimandi, sem fylla vötnin, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla, eftir þeirra tegund.22Og Guð sá að það var gott. og Guð blessaði (þessar skepnur) og sagði: frjóvgist og fjölgið og fyllið vötn hafsins. Og fuglinn margfaldist, á jörðunni.23Þá varð kvöld og þá varð morgun, hið fimmta dægur.24Og Guð sagði: jörðin framleiði lifandi skepnur eftir þeirra eðli: fénað, skriðkvikindi og dýr jarðarinnar; hvert eftir sinni tegund. Og það skeði svo.25Og Guð skapaði dýr jarðarinnar, hvert eftir sinni tegund, og alls kyns skriðkvikindi jarðar eftir sinni tegund; og Guð sá að það var gott.26Og Guð sagði: vér viljum gjöra manninn eftir mynd og líkingu vorri, svo að hann drottni yfir fiskum sjávarins, og yfir fuglum loftsins, og yfir fénaðinum á allri jörðunni, og yfir öllum skriðkvikindum sem hrærast á jörðunni.27Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, og hann skapaði þau karlmann og kvenmann.28Og Guð blessaði þau, og sagði til þeirra: verið frjóvsöm, og margfaldist og uppfyllið jörðina, og gjörið ykkur hana undirgefna! drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum sem hrærast á jörðunni!29Og Guð sagði: sjáið! alls lags jurtir, sem sá sér, á allri jörðunni, og allra handa ávaxtarsöm tré, sem sá sér, gef eg ykkur til fæðslu.30Og öllum lifandi dýrum jarðarinnar og öllum fuglum himinsins, og öllum skriðkvikindum á jörðunni (hefi eg gefið) grænar jurtir til fæðslu. Og það skeði svo.31Og Guð leit yfir allt sem hann hafði gjört, og sjá! það var harla gott, og þá varð kvöld og þá varð morgun, hið sjötta dægur.
Fyrsta Mósebók 1. kafliHið íslenska biblíufélag2018-01-02T00:59:15+00:00
Fyrsta Mósebók 1. kafli
Heimsins sköpun.
V. 1. Sálm. 33,6. Jer. 32,17. V. 2. 5 Msb. 32,11. V. 5. hér brúkast dægur, eins og í fornu máli, fyrir: dag og nótt. V. 7. Sálm. 148,4. Jer. 51,16. V. 27. 5,1. 9,6.
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.