VI.

Hvert er þinn vinur genginn, þú in fegursta á meðal kvennanna? Hvert hefur þinn vinur vikið sér? So viljum vér leita með þér að honum. Minn vinur er ofangenginn í sinn aldingarð, til sinna jurta, að hann fæði sig í garðinum á meðal rósanna. Minn vinur er minn og em eg hans, hann sem mig fæðir á meðal rósanna.

Þú ert fögur, mín unnusta, sem Tirsa, lystileg sem Jerúsalem, ógurleg sem brjóstfylkingar. Snú þú þínum augum frá mér því þau gjöra mig brennanda. Þitt hár er líka sem geitsauðahjörð sem klippt er á Gíleaðsfjalli. Þínar tennur eru líka sem sauðahjörð hver eð sig hefur laugað, hafandi öll saman tvíbura og þar er engin ófrjósöm á meðal þeirra. Þín kinnbein eru líka sem rispur á granataepli á meðal þinna lokka.

Sextígi eru drottningarnar og áttatígi frillurnar en á ungum meyjum er engin tala. En ein er mín dúfa, mín innilega, ein er sinnar móður in kærasta og sinnar móður in útvalda. Og þá dæturnar sáu hana sögðu þær hana sæla og drottningarnar með frillunum lofuðu hana. Hver er sú sem framkemur sem morgunroði, fögur sem tungl, útvalin sem sól, ógnarleg sem hermannafylking?

Eg em ofangengin í valnýtagarðinn að skoða greinirnar hjá lækjunum og að skoða hvort að víntrén blómgast og ef granataeplin eru vaxin. Mín sála vissi ekki að hann hafði sett mig til vagna Amínadab.

Kom aftur, kom aftur, ó Súlamít, kom þú aftur, kom aftur, so að vér megum skoða þig. Hvað sjái þér á Súlamít nema dans í Mahanaím?