III.

Allir þessir hlutir hafa sinn tilsettan tíma og allt áform undir himninum það hefur sinn tíma. Tími er að fæðast og tími er að deyja, tími er að planta og tími er upp að ræta það sem plantað er, tími er að deyða og tími er að græða, tími er að brjóta niður og tími er upp að byggja, tími er að gráta og tími er að hlæja, tími er að syrgja og tími er að dansa, tími er steinum sundur að dreifa og tími er steinum saman að safna, tími er að faðmast og tími er að vera fyrir utan faðmlög, tími er að vinna og tími er að tapa, tími er að halda og tími er í burt að kasta, tími er að rífa í sundur og tími er saman að sauma, tími er að þegja og tími er að tala, tími er að elska og tími er að hata, tími er að berjast og tími er frið að hafa.

Maðurinn má arfiða með hverjum hætti sem hann vill, þó fær hann ei meira til vegar komið. Soddan mæðu sá eg sem Guð mönnum gefið hafði að þeir skyldu kveljast þar með. En hann gjörir alla hluti vel í sinn tíma og lætur þeirra hjörtu kveljast, hvernin það mun ganga til í veröldinni. Því maðurinn veit ekki hvað Guð vill gjöra og kann hverki að sjá upphafið né endann. Þar fyrir merkta eg að ekki neitt er betra hér út í en að vera glaður og að gjöra gott af sér á meðan hann lifir. Því að hver sá maður sem etur og drekkur og er glaður í öllu sínu erfiði, þar er ein Guðs gáfa.

Eg merkti að öll Guðs verk blífa ætíð stöðug og þau verða hverki aukin né vönuð og Guð verkar þvílíkt svo menn skuli óttast hann. Hvað Guð gjörir, það stendur svo og hvað hann vill gjöra, það hlýtur að ske og hvað sem burt fer það kallar hann aftur.

Eg sá enn framar meir undir sólunni: Sæti dómaranna, og það var óguðlegt athæfi, og sætið réttlætisins, þar var ranglæti. Þá sagða eg í mínu hjarta: Guð mun dæma bæði hinn réttláta og svo hinn rangláta því allt uppsátur og allir gjörningar hafa sinn tíma.

Eg sagða í mínu hjarta um athafnir mannanna í hverjum Guð gefur oss að vita og merkja að manneskjan er með sér sjálfri líka sem fénaður. Því manninum gengur líka sem fénaðinum og svo sem fénaðurinn deyr svo deyr maðurinn og hverttveggja hefur eins líka lifandi anda. Og maðurinn hefur ekki par meira en sem fénaðurinn hefur því að það er allt hégómi. Það fer allt til eins staðar. Það er allt saman gjört af jörðunni og verður svo aftur að jörðu? Hver veit hvert mannsins andi fer upp í loftið og fjárins andi niður undir jörðina? Þar fyrir segi eg: Ekkert er betra en að maðurinn sé glaður í sínu arfiði því það er hans hlutdeild. Því að hver kann að færa hann þangað svo hann kunni að sjá hvað eftir hann skal koma?