V.
Og þeir komu yfir um þann sjó í byggðir Gadarenorum. [ Og er hann sté af skipinu þá hljóp strax í móti þeim úr leiðum framliðinna einn djöfulóður maður, sá er hafði sitt híbýli í gröfum dauðra manna. [ Því enginn fékk hann bundið og eigi með járnviðjum. Því að hann hafði oft bundinn verið með fjötrum og járnviðjum og hann hafði viðjurnar af sér slitið og fjötrin í sundur núið og enginn fékk hann tamið. Og allt jafnt nætur og daga þá var hann á fjöllum eður í dauðra manna gröfum, kallandi og lemjandi sig með grjóti. En þá er hann sá langt til Jesú hljóp hann og féll fram fyrir honum, kallaði hárri röddu og sagði: „Hvað hefi eg með þig að gjöra, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Eg særi þig fyrir Guð að þú kveljir mig ekki.“ En Jesús sagði til hans: „Far út, þú óhreini andi, af þessum manni.“ Og hann spurði hann að: „Hvert er þitt heiti?“ Hann svaraði og sagði: „Legio er mitt heiti því að vær erum margir.“ [ Og sá bað hann mikillega að hann ræki þá eigi burt úr þeirri byggð.
En þar var í þeim stað við fjallið mikil svínahjörð á biti um hagana. [ Og andarnir báðu hann, segjandi: „Lofa oss það að vær förum í svínin.“ Og Jesús leyfði þeim það strax. Þá fóru inu óhreinu andar út og hlupu í svínin. Og svínahjörðin fleygði sér með miklum þys í sjóinn, nær tveimur þúsundum, og drukknuðu þar í sjónum. En þeir sem þeirra gættu flýðu og kunngjörðu það um staðinn og um allar grundir. Og þeir gengu þá út að sjá hvað þar hafði gjörst og komu til Jesú og sáu þann sem af djöflunum hafði kvalist sitjanda klæddan og heilvita og þeir hræddust það. En þeir sem það höfðu séð sögðu þeim hvernin gjört hafði verið við hann sem djöflana hafði haft og so frá svínunum. Og þeir hófu upp og báðu hann að hann færi burt úr þeirra landsálfum.
Og er hann sté á skip tók sá til að biðja hann sem af djöflunum hafði kvalist að hann mætti vera hjá honum. En Jesús lofaði honum það eigi heldur sagði til hans: „Far þú í þitt hús til þinna og kunngjör þeim hvað mikið er Drottinn gjörði þér og hvörsu líknsamur eð hann var þér.“ Hann fór þaðan og tók út að hrópa um þær tíu borgir hvað mikinn velgjörning eð Jesús hafði honum gjört. Og allir undruðust það.
Og þá eð Jesús fór yfir um sjóinn aftur á skipi kom samans margt fólk til hans og var við sjóinn. Og sjá, þar kom og einn af foringjum samkunduhússins, Jaírus að nafni. [ Og þá er hann sá Jesúm féll hann að fótum hans og bað hann mikillega og sagði: „Mín dóttir er komin að dauða, kom og legg þína hönd yfir hana so hún verði heil og lifi.“ Og hann fór með honum. Margt fólk fylgdi honum eftir og það þrengdi að honum. Og sú kona var þar er haft hafði blóðfall í tólf ár. [ Hún hafði og mikið þolað af mörgum læknir, hafði og kostað þar til öllu sínu. Það stoðaði henni þó ekkert heldur hafði hún þess meiri kvöl. Þá hún heyrði nú af Jesú kom hún með fólkinu á bak til og snart hans klæði. Því að hún sagði: „Ef eg fæ að snerta hans klæði þá mun eg heil verða.“ [ Og jafnsnart þá uppþurrkaðist hennar blóðfallsbrunnur og hún fann þá á sínum líkama að hún var heil orðin af þeirri plágu.
Og Jesús fann strax með sjálfum sér þann kraft er út af honum gekk og sneri sér við til fólksins og sagði: „Hver snart mín klæði?“ Hans lærisveinar sögðu til hans: „Þú sér að fólkið þrengist að þér. Þó segir þú: Hver snart mig?“ Og hann skyggndist í kringum sig að sjá þann er það hafði gjört. En konan var hrædd og óttaslegin (því að hún vissi hvað hana hafði skeð) og kom, féll fyrir honum niður og sagði honum allan sannleik. En hann sagði til hennar: „Mín dóttir, þín trúa gjörði þig heila. Far í friði og vert heil af þinni plágu.“ [
Þá hann talaði þetta komu sendiboðar til samkunduforingjans og sögðu: „Þín dóttir er önduð. Hví ómakar þú meistarann lengra?“ En er Jesús heyrði hvað þar sagðist sagði hann til samkunduforingjans: „Óttast þú eigi, trú þú heldur.“ Og hann lofaði öngvum að fylgja sér nema Pétri og Jakob og Johanne bróður Jakobs. Og hann kom í samkunduhöfðingjans hús og leit þar buldran og þá er þar grétu mjög og æptu. Og hann gekk þangað innar og sagði til þeirra: „Hvað buldri þér og sýtið? Stúlkan er eigi látin heldur sefur hún.“ Og þeir dáruðu hann. En hann rak þá alla út og tók með sér föður og móður stúlkunnar og þá er með honum voru og gekk þangað inn er stúlkan lá. Og hann hélt um hönd stúlkunnar og sagði til hennar: „Talíþa kúmí.“ Það útleggst: „Stúlka, eg segi þér: Rís upp.“ Og þá strax reis stúlkan upp og gekk. [ En hún var tólf ára gömul. Og þeir urðu af miklum ótta felmsfullir. Og hann bauð þeim stórlega að það skyldi enginn vita og bauð að gefa henni að eta.