Þá gat Jósef ekki haldið sér lengur fyrir öllum þeim sem stóðu hjá honum og hann kallaði: „Látið hvern mann fara út frá mér.“ [ Og þar stóð ekki einn maður eftir þá Jósef lét sína bræður þekkja sig. Og hann grét með hárri röddu so það heyrðu egypskir og það heyrðist í pharaonis hús. Og hann sagði til sinna bræðra: „Eg er Jósef. Lifir minn faðir enn nú?“ En hans bræður máttu öngvu svara honum, so hræddir voru þeir orðnir fyrir hans augliti.
Þá sagði hann til sinna bræðra: „Komið hingað til mín“ og er þeir gengu til hans þá sagði hann: „Eg er Jósef, yðar bróðir, hvern þér selduð í Egyptaland. Hræðist ekki og hugsið ekki að eg sé þar fyrir reiður að þér selduð mig hingað. Því að yður til hjálpar hefur Guð sent mig hingað fyrir yður. Því að tvö ár eru síðan þetta hallæri kom í landið og þar eru enn nú eftir fimm ár á hverjum menn skulu hverki sá né uppskera. En Guð hefur sent mig hingað undan yður að hann vill láta yður haldast við á jörðunni og frelsa yðvart líf með stórri frelsan. Og eigi hafi þér sent mig hingað heldur Guð, hann hefur settt mig föður pharaonis og einn herra yfir allt hans hús og einn höfðingja yfir allt Egyptaland.
Flýtið yður nú og farið upp til míns föðurs og segið honum: Þetta segir Jósef þinn son: Guð hefur gjört mig að höfðingja yfir allt Egyptaland. [ Kom ofan til mín, tefðu ekki. Þú skalt búa í landi Gósen og vera nærri mér, þú og þínir synir og þín barnabörn, þitt kvikfé smátt og stórt og allt það þú hefur. Þar vil eg fæða þig, því þar standa enn nú fimm hallærisár eftir, so að þú ekki fordjarfist með þínu húsi og öllu því þú hefur. Sjáið, yðar augu sjá það og míns bróðurs Ben-Jamíns augu að eg tala munnlega við yður. Kunngjörið mínum föður alla mína vegsemd í Egyptalandi og allt það sem þér hafið séð, farið skyndilega og komið ofan hingað með mínum föður.“
Og hann féll um háls sínum bróður Ben-Jamín og grét. Og Ben-Jamín grét og so um hans háls. Og hann minntist við alla sína bræður og grét yfir þeim. Eftir þetta töluðu hans bræður við hann.
Þessi tíðindi komu í pharaonis hús að Jósefs bræður voru komnir. Það líkaði pharaone vel og öllum hans þénurum. Og faraó sagði til Jósefs: „Seg þú þínum bræðrum: Gjörið svo, klyfjið yðar eyki og farið heim aftur í Kanaansland og takið yðar föður og yðvart frændlið og komið til mín. Eg vil gefa yður góss í Egyptalandi að þér skuluð eta merg landsins. Og bjóð þeim: Gjörið so, takið yður vagna af Egyptalandi handa yðar börnum og konum og takið yðarn föður og komið hingað. [ Og lítið ekki eftir yðar búshlutum, því að auðæfi alls Egyptalands skulu vera yðar.“
Og Ísraels synir gjörðu so. Og Jósef fékk þeim vagna sem faraó bauð og so vistir á veginn. Hann gaf og hverjum þeirra tvennan hátíðaklæðnað. En Ben-Jamín gaf hann þrjú hundruð silfur peninga og fimm helgradagaklæði. Og hann sendi sínum föður þar með tíu asna klyfjaða með góss af Egyptalandi og tíu ösnur klyfjaðar af korni, brauði og vistum handa sínum föður á veginn. Svo lét hann sína bræður fara og þeir fóru í burt. Og hann sagði til þeirra: „Deilið ekki á veginum.“
Þeir fóru af Egyptalandi og komu í Kanaansland til síns föður Jakobs, kunngjörðu honum og sögðu: „Jósef lifir enn nú og er einn herra yfir öllu Egyptalandi.“ En hans hjarta hugsaði allt annað því hann trúði ekki þeirra sögu. Þá sögðu þeir honum öll Jósefs orð sem hann hafði sagt til þeirra. Og sem hann sá þá vagna sem Jósef hafði sent honum til flutnings þá endurlifnaði önd föður þeirra Jakobs. Og Ísrael sagði: „Það er mér nóg að minn son Jósef lifir enn nú. Eg vil fara og sjá hann áður en eg andast.“