Jósef segir til sín

1 Nú gat Jósef ekki lengur haft stjórn á tilfinningum sínum frammi fyrir hirðmönnum sínum og skipaði þeim að fara út. Enginn þeirra var því inni hjá honum þegar hann sagði bræðrum sínum hver hann væri. 2 Jósef brast í grát og grét svo hátt að Egyptar heyrðu það og fréttin barst um höll faraós.
3 Jósef sagði við bræður sína: „Ég er Jósef. Er faðir minn enn á lífi?“ En bræður hans gátu ekki svarað honum, svo óttaslegnir voru þeir.
4 Þá sagði Jósef við bræður sína: „Komið hingað til mín.“ Þeir gengu til hans og hann sagði: „Ég er Jósef, bróðir ykkar, sem þið selduð til Egyptalands. 5 En verið ekki daprir og ásakið ykkur ekki fyrir að hafa selt mig hingað. Það var Guð sem sendi mig hingað á undan ykkur til að bjarga lífi. 6 Nú hefur hungursneyð verið í landinu í tvö ár og enn munu koma fimm ár án þess að hægt verði að plægja eða uppskera. 7 Guð hefur sent mig hingað á undan ykkur til þess að halda við kyni ykkar á jörðinni og tryggja ykkur fjölda niðja. 8 Það voruð því ekki þið sem senduð mig hingað heldur Guð og hann hefur gert mig að fremsta ráðgjafa faraós, sett mig yfir allt hús hans og falið mér að stýra öllu Egyptalandi. 9 Flýtið ykkur nú heim til föður míns og segið við hann: Svo segir Jósef sonur þinn: Guð hefur falið mér stjórn alls Egyptalands. Komdu til mín án tafar. 10 Þú skalt búa í Gósenlandi, nærri mér, þú og synir þínir og sonasynir, sauðfé þitt og nautgripir og allt sem þitt er. 11 Ég skal sjá þér farborða því að enn verður hungursneyð í fimm ár. Þú munt ekki líða skort, hvorki þú, fjölskylda þín né nokkuð sem þitt er.“
12 Jósef hélt áfram: „Þið sjáið með eigin augum, bæði Benjamín bróðir minn og þið hinir, að það er ég sjálfur sem tala til ykkar. 13 Segið föður mínum hversu valdamikill ég er í Egyptalandi og frá öllu sem þið hafið séð. Komið hingað með föður minn eins fljótt og ykkur er unnt.“
14 Hann féll um háls Benjamín bróður sínum og grét og Benjamín faðmaði hann og grét. 15 Hann kyssti alla bræður sína, faðmaði þá og grét. Eftir það töluðu bræður hans við hann.

Bræðurnir snúa aftur til föður síns

16 Það hafði frést í höll faraós að bræður Jósefs væru komnir og glöddust faraó og hirðmenn hans yfir því. 17 Faraó sagði við Jósef: „Segðu bræðrum þínum: Klyfjið burðardýr ykkar og haldið af stað til Kanaanslands. 18 Sækið föður ykkar og fjölskyldur og komið til mín. Ég skal gefa ykkur það besta sem Egyptaland hefur upp á að bjóða og þið skuluð njóta gæða landsins. 19 Segðu þeim einnig þetta: Takið vagna í Egyptalandi handa börnum ykkar og konum, sækið síðan föður ykkar og komið hingað. 20 Hirðið ekki um eigur ykkar því að þið munuð eignast það besta sem Egyptaland hefur upp á að bjóða.“
21 Synir Ísraels gerðu þetta og Jósef fékk þeim vagna og nesti til fararinnar eins og faraó hafði boðið. 22 Hann gaf þeim öllum spariklæðnað en Benjamín gaf hann þrjú hundruð sikla silfurs og fimm spariklæðnaði. 23 Hann sendi og föður sínum tíu asna klyfjaða hinum bestu afurðum Egyptalands og tíu ösnur klyfjaðar korni, brauði og öðru matarkyns handa föður sínum til ferðarinnar. 24 Síðan kvaddi Jósef bræður sína og er þeir héldu af stað sagði hann við þá: „Deilið ekki á leiðinni.“
25 Þeir fóru frá Egyptalandi og komu til Kanaanslands, heim til Jakobs, föður síns. 26 Þeir færðu honum tíðindin og sögðu: „Jósef er enn á lífi og stýrir öllu Egyptalandi.“ En hjarta hans komst ekki við því að hann trúði þeim ekki. 27 En er þeir skýrðu honum frá öllu sem Jósef hafði við þá talað og hann sá vagnana sem Jósef hafði sent til að flytja hann í, þá lifnaði yfir Jakobi, föður þeirra. 28 „Mér nægir að Jósef, sonur minn, er enn á lífi,“ sagði Ísrael. „Ég vil fara og sjá hann áður en ég dey.“