XXI.

Þessu næst varð sá atburður að Nabót í Jesreel átti einn víngarð í Jesreel hjá Akabs kóngs höllu í Samaria. [ Og Akab talaði við Nabót og sagði: „Gef mér þinn víngarð. Eg vil gjöra mér einn kálgarð þar af sökum þess að hann liggur svo í nánd við mitt hús en eg vil gefa þér annan betra víngarð fyrir hann eða ef þú vilt það heldur þá vil eg gefa þér silfur fyrir hann, svo mikið sem hann er verður.“ Nabót svaraði Akab: „Drottinn forði mér frá því að eg gefi þér mína föðurs leifð.“ [

Þá kom Akab heim með reiðum hug og þungu geði sökum þess orðs sem Nebót í Jesreel talaði til hans, segjandi: Eigi vil eg gefa þér minna feðra arf (svo fékk honum þetta mikils) að hann lagðist í rekkju, snúandi sínu andliti (til veggjar) og át ekki brauð.

Jesabel hans kvinna fornam þetta. Þá gekk hún inn til hans og mælti við hann: „Hvað er þetta að svo hryggir hug þinn að þú tekur ekki fæðslu til þín?“ [ Hann svaraði henni: „Eg talaði við Nabót Jesreeliter og sagði: Gef mér þinn víngarð fyrir peninga eða viljir þú það heldur þá vil eg gefa þér annan víngarð fyrir hann. En hann svaraði: Eigi vil eg gefa þér minn víngarð. Þá sagði Jesabel hans kvinna til hans: Hvað væri Ísrael fyrir ríki ef þú gjörðir það? Rís upp, tak fæðslu til þín og vert með góðu geði, eg vil útvega þér þennan víngarð Nabót af Jesreel.“

Og hún lét skrifa eitt bréf undir Akabs nafni og innsiglaði með hans fingurgulli og sendi það til öldunga og gæðinga í hans borg sem bjuggu hjá Nabót. Á því bréfi var þessi boðskapur: „Bjóðið föstu og setjið Nabót efst á millum fólksins. Setjið síðan til tvo vonda menn þá er bera falsvitni í móti honum, segjandi: Þú hefur [ blessað Guð og kónginn, og leiðið hann út fyrir borgina og grýtið hann í hel.“

Og öldungarnir og gæðingar hans borgar, þeir sem bjuggu hjá honum, gjörðu sem Jesabel bauð þeim, eins sem hún hafði skrifað í bréfinu því sem hún sendi til þeirra. Og þeir létu boða föstu og settu Nabót efst á millum fólksins. Síðan komu þar tveir argir skálkar og stóðu rétt frammi fyrir honum og vitnuðu mót Nabót fyrir fólkinu og sögðu: „Nabót blessaði Guð og kónginn.“ Þá leiddu þeir hann út af borginni og lömdu hann í hel með grjóti.

Og þeir gjörðu boð Jesabel og létu segja henni: „Nabót er grýttur til dauða.“ [ En sem Jesabel heyrði það að Nabót var í hel grýttur þá sagði hún til Akab: „Rís upp og eignast nú víngarð Nabót í Jesreel þann sem hann vildi ei selja þér fyrir peninga því að ekki lifir Nabót heldur er hann dauður.“ En sem Akab heyrði að Nabót var dauður þá stóð hann upp og gekk ofan í víngarð Nabót Jesreeliters að eignast hann.

Þá skeði orð Drottins til Eliam Thesbiter og sagði: „Statt upp og far ofan til fundar við Akab Ísraelskóng sem er í Samaria. Sjá, hann er nú í víngarði Nabót, þangað er hann ofan genginn að eignast hann. Og tala þú við hann og seg þú honum: Svo segir Drottinn: Þú hefur í hel slegið og þar með þér til eignar tekið. Og þú skalt tala við hann og segja: [ So segir Drottinn: Í þeim stað sem að hundarnir sleiktu Nabóts blóð þar skulu og hundar sleikja þitt blóð.“ Og Akab sagði til Eliam: „Hefur þú nökkurn tíma fundið mig að vera þinn óvin?“ Hann sagði: „Já, eg hefi fundið það sökum þess að þú hefur selt þig til þess að gjöra ekki nema illt fyrir Drottni. Sjá, eg vil og leiða ólukku yfir þig og burt taka þína eftirkomendur og eg vil drepa af Akab það sem pissar á vegg og það innilukta og síðasta í Ísrael. Og eg vil gjöra þitt hús svo sem hús Jeróbóam sonar Nebat og sem hús Baesa sonar Ahie fyrir það að þú styggðir mig og komst Ísrael til að syndgast.“

Og Drottinn talaði og so um Jesabel og sagði: „Hundar skulu éta Jesabel innan Jesreels múrveggja. [ Hver í staðnum deyr af Akab, þann skulu hundar uppéta og hver sem deyr utan staðar, þann skulu fuglar undir himninum uppéta.“ Og þar var enginn maður sem so var öldungis seldur til að gjöra illt fyrir Drottni so sem Akab. Því að hans kvinna Jesabel eggjaði hann á það. Og hann gjörði sig mjög svívirðilegan so að hann gekk í allan máta eftir skúrgoðum eins og þeir Amoriter hverja Drottinn útrýmdi fyrir Israelissonum. [

En sem Akab heyrði þessi orð þá sundurreif hann sín klæði og tók eitt [ hárklæði yfir sig og fastaði og svaf í svekk og gekk hryggðarlega fram. Og Guðs orð kom til Eliam Thesbiten og sagði: „Hefur þú eigi séð hversu Akab auðmýkir sig fyrir mér? Nú sökum þess að hann auðmýkir sig svo fyrir mér þá vil eg ekki leiða það vonda inn um hans daga. En á dögum hans sonar vil eg þessa ólukku koma láta yfir hans hús.“