Í Guðbrandsbiblíu er ritið Bréf Jeremía birt sem 6. kafli Barúksbókar. Til einföldunar á framsetningu er textinn hér birtur undir yfirskriftinni Bréf Jeremía.

VI.

Þetta er ein útskrift af því sendibréfi sem Jeremias sendi til þeirra sem burt skyldu flytjast herteknir til Babýlon af kónginum í Babýlon, í hverju hann kunngjörði þeim slíkt so sem Guð hafði honum bífalað: [

Vegna yðar synda sem þér hafið í Guði móti gjört þá skulu þér herteknir í burt fluttir verða til Babýlon af Nabogodonosor Babýlonskóngi. Og þér skuluð verða í Babýlon langan tíma, sem er, sjötíu ár, eftir það vil eg flytja yður þaðan hingað aftur með friði.

En á meðan þér eruð í Babýlon þá munu þér fá að sjá að menn bera á sínum öxlum skúrgoð gjörð af silfri, gulli og tré, fyrir hverjum að heiðingjarnir eru hræddir. [ Þar fyrir sjáið yður vel fyrir að þér gjörið eigi slíkt eftir þeim og að þér ekki verðið so sem heiðingjar. Og þegar þér sjáið fólkið það sem undangengur og eftir fer biðjandi til skúrgoða þá segið so í yðru hjarta: „Drottinn, þig eiga menn að tilbiðja“ því að minn engill skal vera hjá yður og eg vil hefna yðvara sálna.

Þeirra tungur eru vel smíðaðar af hagleiksmanninum og þau eru prýdd með gulli og silfri og hafa fagrar útskornar tungur. [ En það eru ei réttilegar tungur og þær kunna ekki að tala. Þeir prýða þau með gulli so sem eina jómfrú í dans og setja kórónur á þeirra höfuð. Og prestarnir stela gullinu og silfrinu frá skúrgoðunum og eyða því með lausakonum í hóruhúsi. Og þeir prýða skúrgoðin með klæðum sem eru af silfri, gulli og tré so sem væri þau maður. En þau geta ekki varðveitt sig fyrir ryði og möl og þá nokkur færir þau í purpuraklæði þá má strjúka duftið af þeim sem á þeim liggur.

Það hefur stjórnarsprota í hendi líka sem kóngur og kann þó öngvan að straffa þann sem því illt gjörir. Það hefur eitt sverð og eina öxi í hendi en getur þó ekki varið sig fyrir þjófum og ræningjum. Af þessu sjá menn ljóslega að þeir eru ekki guðir. Þar fyrir hræðist þá ekki.

Líka sem eitt ker það menn hafa haft sér til gangs það er til einkis þegar það er í sundurbrotið, so eru og þeirra skúrgoð. Þegar menn setja þau í þeirra hús þá verða þau full af dufti af fótum þeirra sem þar inn ganga. Prestarnir gæta skúrgoðanna musteris með hurðum, lásum og slagbröndum so að ræningjar steli þeim ekki í burt. Eins so sem þá nokkur fangi er fjötraður og geymdur sá sem forbrotið hefur í móti kónginum og til dauða er dæmdur.

Þeir tendra fleiri ljós og lampa fyrir þeim en fyrir sjálfum sér og þau sjá þó ekkert.

Þau eru so sem bjálkar í húsinu og skriðormar jarðarinnar eta þeirra hjörtu og þeirra klæðnað og þau verða ekki vör við það.

Þau eru svört í andlitinu af reyknum í húsinu og náttuglur, svölur og fleiri aðrir fuglar setjast þeim á höfuð, sömuleiðis og einnin kettirnir. Af þessu megi þér merkja að þeir eru ekki guðir. Þar fyrir hræðist þá ekki.

Það gull sem menn festa upp á þau þeim til prýðis það skín eigi þegar menn fægja ekki ryðið af því. Þá þau voru steypt þá kenndu þau þar eigi til. Menn hafa smíðað þau af allra handa forkostulegu efni og þar er þó ekki líf í þeim. Og fyrst þau geta ekki gengið þá verða menn að bera þau á öxlunum. Af þessu mega menn sjá að þetta eru háðuglegir guðir.

Þeir mega og skammast sín þeirra vegna sem þau göfga fyrir því að þau hverki kunna að standa upp ef þau falla og eigi heldur að hræra sig þó að þau sé uppreist og í burt sett, eigi heldur reisa sig upp þó að menn halli þeim. Og líka sem menn setji fórn fyrir þann dauða so setja menn og fyrir þau. En þeirra prestar eyða því upp sem þeim er gefið, sömuleiðis og þeirra kvinnur skarta þar af og gefa hverki þeim fátæku né þeim sjúku nokkuð af því. Óhreinar kvinnur og þær sem í útistöðu eru koma við þeirra offur, af hverju þér megið merkja að þeir eru ekki guðir. Þar fyrir óttist þá ekki.

Og hvar af skyldu þeir nefnast guðir? Því að kvinnunar þjóna þeim afguðum sem eru af silfri, gulli og tré og prestarnir sitja í þeirra musterum, hafandi víðar kórkápur, afrakað skegg, rakaðar krúnur, sitja þar berhöfðaðir, ýla og æpa fyrir sínum afguðum líka sem menn plaga að gjöra þá dauðra er minnst. Prestarnir stela frá þeim þeirra klæðum og klæða þar með konur sínar og börn.

Hvert sem þeim er gjört gott eður illt þá kunna þau það ekki að launa. Þau geta hverki innsett einn kóng né heldur hann afsett. Þau kunna hverki að gefa góss né peninga. Heiti maður þeim nokkru og haldi það ekki þá krefja þau þess eigi. Þau geta ekki frelst nokkurn frá dauða og eigi heldur hjálpað þeim veika í móti þeim sterka.

Þau kunna ekki að gefa blindum sýn. Þau hjálpa öngvum manni í neyð. Þau sjá ekki aumur á ekkjunni og hjálpa ekki þeim föðurlausa. Því þau eru af tré, prýdd með gulli og silfri, líka sem steinar þeir eð menn höggva af bjargi. Þar fyrir skulu þeir að skömm verða sem þá vegsama.

Hvernin mega menn halda þá fyrir guði eða ákalla þá? Með því að þeir Chaldei halda ekki stórlegt af þeim. Því að nær þeir sjá einn mállausan sem ekki kann að tala þá leiða þeir hann fyrir Bel, segjandi að sá mállausi skuli ákalla hann líka so sem að skildi hann það. Og þó að þeir viti það í þeim er ekkert líf þá hlaupa þeir þó eftir þeim en kvinnunar sitja úti fyrir kirkjunum umgirtar með línbeltum og bera þeim mat til offurs. Og þegar nokkur gengur þar fram hjá og tekur eina í burt af þeim og sefur með henni þá hrósar hún sér þar af fyrir hinum öðrum að hinar aðrar hafi ekki verðugar verið so sem hún að þeirra belti skyldu uppleysast. Allt það sem skeður af þeim eru einsömun svik. Hvernin mega menn þá halda þau fyrir guði eður nefna þau svo?

Þau eru gjörð af hagleiksmönnum og gullsmiðum og hvað sem smiðurinn vill það verður þar af en ekkert annað. Og þeir sem þau hafa gjört kunna ei lengi að lifa. Hvernin skyldi það þá vera guð sem af þeim er smíðað? Þar fyrir gefa þeir eftirkomendunum ekki utan hneykslun og efni til ljótlegrar afguðadýrkunar. Því að þegar ófriður eður önnur ólukka kemur yfir þá þá halda prestarnir ráðagjörð hver við annan hvar þeir skulu fela sig með sínum skúrgoðum. Af því mega menn vel merkja að þau eru öngvir guðir með því að þau kunna ekki að hjálpa sér, hverki fyrir ófriði né annarri ólukku. Því þau eru ekki annað en skúrgoð af tré sem eru forgyllt og með silfri yfirslegin.

Þar fyrir mega menn framvegis nú vel vita að það eru svik sem eru opinber fyrir öllum heiðingjum og konungum og ekki guðir heldur eru þau gjörð með mannahöndum og þar er enginn guðdómur í þeim. Þar fyrir má hver maður vel merkja að þau eru ekki guðir. Því að þau uppvekja öngvan konung í landinu. Þau gefa ekki mönnum regn og þau stjórna ei né straffa og ei heldur en fuglarnir þeir sem í loftinu fljúga aftur og fram.

Þegar að skúrgoðahúsið sem er af tré forgyllt og með silfri þakið brennur af eldi þá skunda prestarnir burt og forða sér fyrir skaðanum en þau brenna upp so sem aðrir bjálakr. Þau kunna hverki kóngi né stríðsfólki mótstöðu að veita. Því skulu menn þá halda þau fyrir guði eða nefna þau so?

Þessi trégoð, forgyllt og með silfri yfirslegin, þau kunna ekki að varðveita sig fyrir þjófum og ræningjum. Því að þeir verða þeim ofsterkir og þeir ræna þau og afklæða, taka bhurt þeirra gull, silfur og klæði og komast so undan og þau kunna ekki sjálf hjálpa sér. Þar fyrir er miklu bera að vera einn konungur sá eð auðsýna kann sína magt eður nytsamlegt ker sem er til gagns í húsinu eður ein hurð sem húsið geymir eður ein tréstoð í kóngsherbergi heldur en slíkt vanmáttugt skúrgoð.

Sól, tungl og stjörnur skína og eru hlýðnar eftir Guðs skipan. So og lýsir eldingin so að menn sjá hana. Vindurinn blæs í öllum löndum og skýin fara gegnum allan heiminn og gjöra það sem Guð skipar þeim. So og líka eldurinn þar ofan að, hann slær fjöll og skóga og gjörir það sem honum er boðið. En skúrgoðin kunna hverki að hræra sig né nokkuð að gjöra. Þar fyrir skulu menn ekki halda þau fyrir guði eður nefna þau so því að þau kunna hverki að straffa né hjálpa.

Eftir því að þér þá vitið að þau eru ekki guðir, því óttist þau ekki. Því þau kunna hverki að bölva né blessa kóngana. Þau kunna ekki nokkur teikn heiðingjunum að gefa á himnum. Þau kunna eigi bjart að gjöra sem sólin, eigi heldur nokkra birtu að gefa so sem tunglið. Skynlaus dýr eru betri en þau, þau kunna að flýja í eitt fylsni og fela sig.

Af því er öldungis opinbert að þau eru ekki guðir. Því að líka sem ein fuglahræða í grasgarði geymir einkis so eru og þeirra trégoð, gyllt og með silfri yfirslegin, til einkis gagns. Og svo sem runnur í einu rjóðri hvar eð allra handa fuglar hreiðra eður svo sem framliðinn sá sem í gröfinni liggur so eru og þeirra tréskúrgoð, forgyllt og með silfri yfirslegin.

Menn mega og þar af merkja að þau eru ekki guðir því að það skarlatsklæði sem þau eru í það verður uppetið af möl og einnin þau sjálf um síðir svo að hver maður spottar þau. Sæll er sá maður sem er réttlátur og engin skúrgoð hefur, hann mun eigi verða til skammar.

Ending á Barúksbók