XXIII.
Þau tíðindi komu til eyrna Davíð að Philistei stríddu á Kegíla og ræntu þeirra kornhlöður. [ Þá spurði Davíð Drottin að og sagði: „Skal eg fara þangað og slá þessa Philisteos?“ Og Drottinn sagði til Davíðs: „Far þangað og munt þú slá Philisteos so þú frelsir borg Kegíla.“ En þeir menn sem voru með Davíð sögðu til hans: „Sjá, vér erum með ugg og ótta hér í Júda og viljum þó fara til Kegíla í móti herliði þeirra Philisteis?“ Þá spurði Davíð Drottin í annan tíma að þessu. [ Og Drottinn svaraði honum og sagði: „Rís þú upp og far ofan til Kegíla því að eg vil gefa Philisteos í þínar hendur.“ Svo ferðaðist Davíð með sínum mönnum til Kegíla, réð til bardaga við Philisteos og rak burt allt þeirra kvikfé og veitti þeim mikið slag. Svo frelsaði Davíð þá í Kegíla. Því að þá Abjatar son Ahímelek flýði til Davíðs til Kegíla þá bar hann lífkyrtilinn með sér.
Þetta frétti Saul, að Davíð var kominn til Kegíla. [ Þá sagði hann: „Guð hefur nú gefið hann í mínar hendur að hann er kominn í þann stað sem hann er byrgður með portum og slagbröndum.“ Og Saul lét samankalla allt sitt stríðsfólk ofan til Kegíla að sitja um Davíð og hans menn. En sem Davíð fær þann kvitt að Saul hugsaði honum illt sagði hann til Abjatar prests: „Fær mér hingað lífkyrtilinn.“ Og Davíð sagði: „Drottinn, þú Ísraels Guð, þinn þénari hefur fengið þann kvitt að Saul er nú þess sinnis að hann vill koma hér ofan til Kegíla þennan stað að eyðileggja minna vegna. Munu borgarmenn í Kegíla framselja mig í hans hendur og mun Saul koma ofan hingað so sem þinn þénari hefur heyrt? Drottinn, Guð Ísraels, undirvísa nú þetta þínum þjón.“ Drottinn svaraði: „Hann mun koma ofan hingað.“ Davíð sagði: „Munu þá borgarmenn Kegíla framselja mig og mína menn í hendur Saul?“ Drottinn svaraði: „Já.“
Þá tók Davíð sig upp og hans menn, nær sex hundruð, og fóru út af Kegíla og gengu hingað og þangað. En sem Saul fékk að vita að Davíð var flúinn af Kegíla þá yfirgaf hann sína reisu. [ En Davíð dvaldist í eyðimörku í öruggu vígi og var upp á fjallinu í eyðimörku Síf. Saul lét ekki af að leita hans alla sína daga en Guð gaf hann ekki í hans hendur. Og Davíð merkti að Saul var enn útdreginn að leita eftir hans lífi. En Davíð hélt sig í eyðimörku Síf á nokkrum skógi.
Eftir þetta tók sig upp Jónatas son Saul og fór til fundar við Davíð í skóginn og styrkti hans hendur í Drottni og sagði til hans: [ „Óttast þú ekki. Hönd Saul föður míns skal ekki finna þig heldur muntu verða kóngur yfir Ísrael. Svo vil eg verða næstur þér og minn faðir veit allt þetta.“ Og þeir bundu báðir enn sinn félagskap hvor við annan í augliti Drottins. Og Davíð varð eftir í skóginum en Jónatas hvarf aftur til síns heimilis.
En þeir sem bjuggu í nánd eyðimörku Síf fóru til fundar við Saul í Gíbea og sögðu: [ „Er ekki Davíð hjá oss í fylsnum í vígi því sem eru í skógi á þeim hálsi Hakíla hver að liggur til hægri handar eyðimerkur? Því far nú, kóngur, ofan eftir þinni vild. Þá viljum vér koma honum í kóngsins hendur.“ Þá sagði Saul: „Blessaðir séu þér af Drottni að þér hafið harm minna vegna. Farið nú aftur af stað og verðið vísir að þér bæði vitið og sjáið í hverjum stað hans fætur eru og hver hann hefur séð þar. Því að mér er sagt að hann sé slægur. Rannsakið og njósnið um öll þau fylsni þar hann má felast og komið til mín aftur nær þér hafið örugga vissu af hvar hann felur sig. Þá vil eg fara með yður. Sé hann í landinu þá vil eg leita eftir honum á meðal allra þúsunda í Júda.“
Þessir menn tóku sig upp og gengu til Síf undan Saul. [ En Davíð og hans menn voru í eyðimörku Maon á sléttlendunum sem liggja til hægri handar hjá eyðimörkinni. En sem Saul fór nú með sínum mönnum að leita Davíðs þá fékk Davíð það að vita. Og hann fór ofan að bjarginu og var í eyðimörku Maon. Þá Saul frétti það fór hann þegar eftir Davíð í eyðimörk Maon. Og Saul með sínum mönnum gekk öðrumegin fjallsins, Davíð og hans menn voru öðrumegin. En sem Davíð flýtir sér að komast undan Saul þá tók Saul með sínum mönnum að kringja öllumegin um Davíð og hans menn og var við sjálft að hann mundi grípa þá.
Í því bili kom þar sendimaður til Saul og sagði: [ „Flýt þér og kom snart því Philistei eru fallnir inn í landið.“ Þá hvarf Saul aftur og lét af að sækja eftir Davíð en fór í mót Philisteis. Þar af var sá staður kallaður Sela Mahelkót. [ Og Davíð fór þaðan og dvaldist í Engeddí þar eð voru örugg vígi.