Davíð frelsar Kegíluborg
1 Davíð voru flutt þessi tíðindi: „Filistear eru að herja á Kegílu og ræna þreskivellina.“ 2 Þá leitaði Davíð svara hjá Drottni og spurði: „Á ég að fara og ráðast á Filisteana?“ Drottinn svaraði honum: „Farðu og herjaðu á Filisteana og bjargaðu Kegílu.“ 3 En menn Davíðs sögðu við hann: „Meira að segja hér í Júda erum við stöðugt hræddir, hvað þá ef við eigum að fara niður til Kegílu og gegn fylkingum Filistea.“ 4 Þá leitaði Davíð aftur svara hjá Drottni. Drottinn svaraði honum og sagði: „Haltu af stað og farðu niður til Kegílu. Ég mun selja Filistea í hendur þér.“
5 Þá fór Davíð ásamt mönnum sínum til Kegílu, réðst á Filistea, sem biðu mikinn ósigur, og rak búfé þeirra burt. Þannig bjargaði Davíð íbúum Kegíluborgar.
6 Þegar Abjatar, sonur Ahímeleks, flýði til Davíðs í Kegílu hafði hann með sér hökul. 7 Sál var tilkynnt að Davíð væri kominn til Kegílu og sagði: „Guð hefur selt hann mér í hendur. Hann er orðinn fangi sjálfs sín með því að loka sig inni í borg með hliðum og slagbröndum.“ 8 Síðan kvaddi Sál allan herinn í herför gegn Kegílu til að setjast um Davíð og menn hans.
9 Þegar Davíð varð ljóst að Sál hafði illt í huga gegn honum sagði hann við Abjatar prest: „Komdu með hökulinn.“ 10 Síðan bað hann: „Drottinn, Guð Ísraels. Þjónn þinn hefur heyrt að Sál ætli að koma til Kegílu og eyða borgina vegna mín. 11 Munu ráðamenn Kegíluborgar selja mig og menn mína í hendur honum? Kemur Sál hingað niður eftir eins og þjónn þinn hefur fregnað? Drottinn, Guð Ísraels, svara þú þjóni þínum.“ Drottinn svaraði: „Hann kemur.“ 12 Þá spurði Davíð: „Munu ráðamenn Kegíluborgar selja mig og menn mína í hendur Sál?“ Drottinn svaraði: „Já, það munu þeir gera.“ 13 Davíð fór því af stað ásamt mönnum sínum, um sex hundruð talsins. Þeir héldu frá Kegílu og fóru stefnulaust um landið. Þegar Sál frétti að Davíð hefði sloppið heill á húfi frá Kegílu hætti hann við herförina.
Davíð í Sífeyðimörk
14 Davíð hafðist nú við í klettavirkjum í eyðimörkinni. Hann bjó um sig í fjöllunum í Sífeyðimörk. Sál leitaði hans án afláts en Guð seldi hann ekki í hendur honum. 15 Davíð óttaðist um sig vegna þess að Sál var lagður af stað og sóttist eftir lífi hans.
Á meðan Davíð var í Hóres í Sífeyðimörk 16 kom Jónatan, sonur Sáls, til Davíðs í Hóres. Jónatan taldi í hann kjark í nafni Guðs[ 17 og sagði: „Vertu óhræddur því að hönd Sáls, föður míns, mun ekki ná þér. Þú verður konungur yfir Ísrael og ég mun ganga næst þér. Þetta veit Sál, faðir minn.“ 18 Síðan gerðu þeir með sér sáttmála frammi fyrir augliti Drottins. Davíð var áfram um kyrrt í Hóres en Jónatan fór aftur heim.
19 Nú fóru nokkrir menn frá Síf upp til Sáls í Gíbeu og sögðu: „Veistu ekki að Davíð hefur falið sig hjá okkur í klettavirkjunum í Hóres, á Hakílahæð, sunnan við Jesímon? 20 Þóknist þér, konungur, að koma niður eftir, komdu þá og við munum sjá um að selja Davíð í hendur konungi.“
21 Sál svaraði: „Drottinn blessi ykkur fyrir að standa með mér. 22 Farið nú og undirbúið þetta frekar. Haldið uppi njósnum og komist að því hvar Davíð heldur sig og hver hafi séð hann. Mér er sagt að hann sé mjög slægur. 23 Finnið alla staði þar sem hann hefði getað falið sig, kannið þá og komið aftur til mín með öruggar upplýsingar. Þá fer ég með ykkur. Ef hann er í landinu skal ég leita hans meðal allra ættbálka Júda.“ 24 Þeir héldu síðan af stað og fóru á undan Sál til Síf.
Davíð og menn hans voru þá í Maoneyðimörk í Araba, sunnan við Jesímon. 25 Sál og menn hans héldu af stað til að leita hans og þegar Davíð var skýrt frá því hélt hann niður að kletti einum og var um kyrrt í Maoneyðimörk. Þegar Sál frétti það veitti hann Davíð eftirför inn í eyðimörkina. 26 Sál fór öðrum megin við fjallið en Davíð og menn hans hinum megin. Davíð flýtti sér þá sem mest hann mátti til að komast undan Sál. Þegar við lá að Sál og menn hans hefðu umkringt Davíð og menn hans og gripið þá 27 kom sendiboði til Sáls og sagði: „Komdu sem skjótast því að Filistear hafa ráðist inn í landið.“ 28 Þá sneri Sál við og lét af eftirförinni en hélt gegn Filisteum. Þess vegna er þessi staður nefndur Undankomuklettur.