VIII.
Eftir snæðinginn fylgdu þeir inum yngra Tóbías til meyjarinnar í svefnherbergið. [ Minntist Tóbías þá á ræðu engilsins og tók eitt stykki af lifrinni úr pungi sínum og lagði það á kolaglóð. En engillinn Rafael höndlaði andskotann og batt hann í einni eyðimörk í fjarlægð á Egyptalandi. Síðan gjörði Tóbías meynni áminning og mælti: „Stattu upp, Sara, og biðjum til Guðs í nótt og aðra nótt og þriðju nótt. Því að þessar þrjár nætur skulu við á bæn vera. Eftir það viljum við halda okkur til samans svo sem ektahjón. Því að við erum heilagra manna börn og okkur heyrir ekki þvílíka stétt upp að byrja sem heiðnir menn þeir eð ei vita af Guði.“
Þau risu upp bæði saman og báðu innilega að Guð vildi gæta þeirra. Tóbías bað so segjandi: „Guð Drottinn minn, sem ert Guð feðra vorra, þig skyldast að lofa himin og jörð, sjór og vötn og allar uppsprettur og allar skepnur og hvað í þeim er. Þú skapaðir Adam af dufti jarðar og Efu gafstu honum til hjálpar sér. Og nú veistu, Drottinn, að fyrir lostagirndar sakir hefi eg ei fengið þessarar minnar systur mér til húsfrú heldur til þess að vér megum börn geta. Þar fyrir að nafn þitt dýrkist og lofað verði að eilífu.“ Og Sara mælti: „Miskunna okkur, Drottinn, að bæði við heilbrigð öðlunst að sjá okkar ellidaga.“
Og um miðnætti vakti Ragúel upp vinnumenn sína og gekk með þeim, bjóðandi þeim að gjöra gröf. Því að hann sagði: „Má vel ske að eins hafi honum til tekist og hinum sjö er hún var trúlofuð.“ Og sem þeir höfðu gjört gröfina kom Ragúel til húsfrú sinnar og sagði: „Sentu eina af ambáttunum þangað að vita hvert hann er dauður so vér megum grafa hann fyrr en birtir af degi.“ Og ambáttinn læddist í svefnhúsið og fann þ.au bæði heil og hraust, sofandi hvort hjá öðru, og sagði hún .þeim þessi fagnaðartíðindi.
En þau Ragúel og Hanna húsfrú hans gjörðu þakkir Guði og sögðu: [ „Þakkir gjörum við þér, Guð Drottinn Ísrael, að ekki er svo skeð sem að við ötluðum því að þú sýndir oss miskunn og rakst í burtu þann andskota er oss mein gjörði. Þú hefur sýnt mildi á þessum tveimur einkabörnum. Veittu þeim nú, Drottinn, að þau lofi þig alla tíma fyrir slíka náð og fórnfæri þér jafnan lof og dýrð so að aðrir viðurkenni að þú einn ert Guð um alla veröld.“
Þá strax skipaði Ragúel að byrgja aftur gröfina áður en rynni dagur. En hann bauð konu sinni að hún byggi til gestaboðs að nýju og tilreiddi þeim allt það þeim gjörðist þörf á veginum. Lét hann þá láta slátra tveimur feitum uxum og fjórum sauðum og bauð öllum sínum nágrönnum og vinum til gestaboðs. So og bað Ragúel Tóbías að hann dveldi hjá sér hálfan mánuð. Og hann gaf Tóbías helming af öllum sínum fjárhlutum og bréfsetti að eftir sinn dag skyldi Tóbías eignast þann helming sem eftir var af fénu.