VI.

Tóbías ferðaðist þá og hundur rann með honum. Hinn fyrsta náttstað hafði hann hjá þeirri á er Tígris heitir. Hann fór að hreinsa fætur sínar í ánni og sjá þú, einn mikill fiskur skaut sér upp að gleypa hann, hvern að Tóbías hræddist og kallaði upp með hárri raust og sagði: „Ó herra, hann vill svelgja mig!“ Þá sagði engillinn til hans: „Tak þú í tálkn hans og dragðu hann upp.“ Og hann kippti honum upp á þurrt land. Þar spriklaði hann fyrir fótum honum.

Þá segir engillinn: „Sundra þú fiskinn en hjartað, gallið og lifrina geym þú vandlega því að þau eru mjög góð til lækninga.“ En nokkur stykki af fiskinum steiktu þeir og höfðu með sér á veginn en sumt lögðu þeir í salt so þeim dugði það allt til þess þeir kæmi í borgina Medorum Rages.

Þá spurði Tóbías engilinn og sagði til hans: „Asarías, minn bróðir, bið eg þig að þú viljir segja mér hvað fyrir lækningum að menn megi gjöra af þeim hlutum er þú bauðst að geyma?“ Þá svaraði engillinn: „Þegar þú leggur lítinn part af hjartanu á glóandi kol þá burtrekur sá reykur allt djöflakyn frá körlum og konum so að þeir kunna þeim framar meir öngvan skaða að gjöra. Og gallið úr fiskinum er gott að smyrja með augu þau sem glýja er á og munu þau heil verða.“

Tóbías mælti: „Hvert viltu að við förum til herbergis?“ Engillinn svaraði og sagði: [ „Hér í borg þessari er einn maður. Hann heitir Ragúel, þinn náfrændi af þinni ætt. Hann á sér eina einkadóttur, hún heitir Sara, og engin börn fleiri. Þér eru ætluð öll hans auðæfi og þú munt fá dóttur hans. Þar fyrir haf þú upp bónorð um hana við föður hennar. Þá mun hann gefa þér hana til eignarkonu.“ Þá svarar Tóbías: „Eg hefi heyrt það hún hafi verið trúlofuð sjö mönnum og eru þeir allir dauðir. Þar með mæla menn að einn illur andskoti hafi drepið þá. Þar fyrir óttast eg að mér muni eins ganga eður vegna og mundi þá foreldrar mínir deyja af harmi þar sem eg er þeirra einbirni.“

Þá sagði engillinn Rafael: „Hlýddu mér og skal eg segja þér yfir hverjum djöfullinn hefur vald, það er að segja þér, yfir þeim sem Guð forakta og alleina fá sér kvenna fyrir saurlífis sakir líka sem skynlaus kvikindi. En þegar þú kemur í sængarherbergið með þinni brúði skaltu eigi drýgja munaðlífi við hana þrjár nætur hinar fyrstu og vera á bæn með henni. Og á þeirri sömu nóttu þegar þú leggur lifrina úr fiskinum á glóð mun djöfullinn verða burt rekinn. En á þriðju nótt muntu öðlast blessan að heilbrigð börn af ykkur fæðist. En á liðinni þriðju nótt skaltu eiga hjúskaparfar við hana með guðhræðslu, meir fyrir elsku sakir afkvæmis heldur en vondrar lostagirndar, svo að þú og þin börn öðlist þá blessan sem sæði Abrahams er fyrirheitin.“