XIIII.

Eftir þetta, þá eð Tóbías hafði fengið aftur sína sýn, þá lifði hann þaðan fjörutígi og tvö ár og sá barnabörn sín. Og þá hann var nú hundrað ára gamall og tvö betur var hann heiðursamlega greftraður í Níníveborg. Því að þá hann var fimmtígi og sex ára að aldri varð hann sjónlaus en á sextuganda ári fékk hann sýn sína aftur. Og það eftir var hans aldurs lifði hann í gleði og þróaðist í Guðs ótta og andaðist í góðum friði.

En fyrir andlát sitt kallaði hann son sinn Tóbías til sín og þá sjö ungu sveina, sonarsonu sína, og talaði til þeirra: „Innan skamms mun Níníve fyrirfarast því orð Drottins mun ei bregðast. En í ríki Medorum mun enn þá um nokkurn tíma friður vera. Og bræður vorir sem af Israelis jörðu eru dreifðir munu þangað aftur hverfa og vor ættjörð er nú liggur í eyði mun alls staðar byggð verða og það Guðs hús sem brennt var skal upp á nýtt verða uppbyggt og allir þeir sem guðhræddir eru munu þangað aftur koma. Og heiðnir menn munu fyrirláta sín skúrgoð og koma til Jerúsalem og þar búa. Og allar þjóðir og konungar munu í henni fagna og Israelis Guð tilbiðja.

So heyrið nú, synir mínir, föður yðarn. Þjóni þér Drottni í sannleika og haldið yður til hans réttferðuglega. Gjörið hvað hann hefur boðið og kennið slíkt yðrum börnum og að þau gefi ölmösur. Óttist Guð ætíð og treystið á hann af öllu hjarta. Heyrið mig nú, kæri synir, og blífið hér ekki í Níníve heldur þegar þér hafið einnin afleyst að greftra möður yðar hjá mér í sömu gröf, eftir það takið yður upp og farið héðan. Því að eg sé að syndir Níníve gjöra út af við hana.“

Þegar jafnsnart eftir andlát móður sinnar fór Tóbías í burtu úr Níníve með húsfrú sinni, börnum og barnabörnum og hvarf aftur til sinna mága og frænda konu sinnar og hitti þá alla heila og hrausta í góðri elli. Veitti hann þeim forsjá. Og þegar þeir önduðust veitti hann þeim nábjargir og tók svo við öllum arfi og auðæfum Raguelis og lifði allt fram í fimmtu ættkvísl og sá sín börn og barnabörn. Og er hann var níu og níutígir ára gamall, sem hann hafði lifað í Guðs ótta með fagnaði, grófu frændur hans hann. Og allt hans afkvæmi bleif í heilögum lifnaði og umgengni svo að þeir voru bæði Guði og mönnum þekkir og öllum þeim er byggðu í því landi.

Ending bókar Tobie