XIII.

En Tóbías lauk upp sínum munni, lofaði Guð, svo segjandi:

„Drottinn, þú ert einn mikill, styrkur Guð og þitt ríki endist að eilífu.

Þú flengir og huggar aftur, þú kannt ofan að hrinda til helvítis og aftur í burtu þaðan að leiða og engi er sá að undan megi flýja þínu valdi.

Þér Ísraelssynir, lofi þér Drottin og dýrkið hann í bland heiðingjanna.

Því þar fyrir hefur hann yður dreift á meðal heiðingjanna að enginn er Guð almáttugur utan hann einn. [

Hann hefur tyttað oss fyrir sakir synda vorra og af sinni gæsku hjálpar hann oss að nýju.

Sjáið hvað hann hefur gjört við oss. Lofið hann í sínum verkum með ótta og skelfingu og vegsamið þann sem að eilífu drottnar.

Og einnin eg vil göfga hann í þessu landi þar vér erum herteknir það hann hefur sýnt sína dásemd yfir einum syndugum lýð.

Snúist þér þar fyrir, þér syndugir, og gjörið gott fyrir Guði og trúið því það hann sýnir yður góða hluti.

Og nú vil eg af hjarta fagna í Guði. Lofið Drottin, þér hans útvaldir, haldið fagnaðarhátíðir og dýrkið hann.

Jerúsalem, þú Guðs staður, Drottinn mun tytta þig fyrir þín verk en þó mun hann þér miskunn veita að nýju.

Lofa þú Drottin fyrir sínar gáfur og blessa þeim eilífa Guði so að hann upp aftur byggi þínar tjaldbúðir

og aftur til þín kalli alla þína hertekna so að þú megir gleðja þig um aldir alda.

Þú munt lýsa sem skínandi birta og öll jarðríkis endimörk munu þig vegsama.

Af fjarlægum löndum munu menn til þín sækja og þér gjafir gefa.

Í þér munu þeir Drottin vegsama og muntu helgidómur kallast því að þeir munu það mikla nafn í þér Drottins ákalla.

Bölvaðir verði allir þeir sem þig forsmá og fyrirdæmdir þeir allir sem þig lasta. Blessaðir munu vera þeir allir er þig uppbyggja. [

Þú munt fagna yfir þínum börnum því þau munu öll blessuð verða og til Drottins samansöfnuð. Sælir eru þeir sem þig elska og þeir sem æskja að þér vel gangi.

Mín sála lofi Drottin því að Guð Drottinn vor mun borgina Jerúsalem frelsa af allri hennar kvöl.

Sæll er eg ef að þeir sem eftirkoma af mínu sæði sjá Jerúsalem í sinni dýrð.

Jerúsalems borgarhlið skulu verða af saphirus og smaragdus smíðuð og allir hennar múrveggir allt um kring af dýrum steinum. [

Með hvítum og fögrum marmarasteini munu öll hennar stræti lögð og á öllum hennar götum mun halelúja sungið verða.

Blessaður sé Guð sem hana hefur bænheyrt og vari hans ríki yfir henni að eilífu. Amen.“