VII.

Eg er ein dauðleg manneskja líka sem aðrir, fæddur af slekti hins fyrsta manns, og eg er myndaður í kjöt samanrunnið í blóð um tíu mánuði af mannssæði fyrir girnd í samræðinu. Og eg fékk einnin, þá eg var fæddur, minn andardrátt af almennilegum vindi og eg fell einnin á jörðina sem oss alla ber og gráturinn var mitt fyrsta hljóð líka sem allra annarra og eg er í reifum uppfæddur með sorg, því enginn kónganna hefur annað fæðingarupphaf heldur hafa þeir allir eins inngang í þetta líf og eins útgang.

Þar fyrir bað eg og mér varð viskan gefin. [ Eg kallaði og spekinnar andi kom til mín. Og eg hélt hana dýrmætari en kóngaríkin og hertugadómana og ríkdóm hélt eg einskisverðan hjá henni. Eigi jafnaði eg henni við nokkurn gimstein því að allt gull er hjá henni svo sem lítill sandur og silfur er hjá henni að reikna svo sem saurindi. Eg elskaði hana meir en heilbrigðan og fagran líkama og eg útvaldi mér hana til eins ljóss því að sá ljómi sem af henni gengur hann slokknar ekki. Allt gott kom mér með henni og óseganlegur ríkdómur í hennar hendi. Eg var glaðvær í öllum hlutum. Það skeði af því að spekin gekk fyrir mér í þeim sömu. En eg vissi ekki að svoddan kom af henni til. Eg lærði það einfaldlega, ríflega útskipti eg því, eg vil ekki fela hennar ríkdóm. Því að hún er manninum ein óþrotnandi fésjóður, hverjir hans neyta þeir verða Guðs vinir og eru þakknæmilegir þar fyrir að þeim er gefið að láta undirvísa sér.

Guð gaf mér hyggilega að tala og að hugsa réttilega eftir slíkum spekinnar gáfum. Því að hann er sá sem leiðir á spekinnar vegu og sá sem stjórnar þeim inu vísu. Því að bæði vér og vor ræða er í hans hendi, þar með öll viska og kunnátta í alls kyns verkum. Því að hann hefur vissilega gefið mér að þekkja alla hluti so að eg veit hvernin heimurinn er gjörður og kraft höfuðskepnanna, upphaf tímans, enda og miðið, hvernin að daginn lengir og styttir, hvernin ársins tímar umskipta sér og hvernin árið veltist um kring, hvernin stjörnurnar standa, náttúru villudýranna og þeirra sem tamin eru, hvernin að veðrið blási so fast og hvað mennirnir hugsi, ýmislegt eðli plánetanna og kraft rótanna.

Eg veit allt hvað leynt og fólgið er því að spekin sem er meistari allra lista kenndi mér það. Því að í henni er andi skilningsins, heilagur, alleina, margfaldlegur, hygginn, margvitur, málsnjallur, hreinn, klár, þolinmóður, vingjarnlegur, alvarlegur, frjáls, góðgjarn, manngæskufullur, stöðugur, staðfastur, óhræddur, sá er allt getur gjört, sér alla hluti og gengur í gegnum alla anda, hversu hyggnir, skærir og skarpir þeir eru. [ Því að spekin að hún er ljómi guðdómlegs kraftar og einn geisli dýrðar Hins almáttuga.

Þar fyrir kann ekkert óhreint að koma til hennar því hún er birti þess eilífa ljóssins og ein skær skuggsjó guðdómlegs kraftar og ein mynd hans gæsku. [ Hún er ein og verkar þó alla hluti, hún er þar hún er og endurnýjar þó alla hluti. Og hún gefur sig æ og alla tíma í sálir þeirra heilögu og gjörir að Guðs vinum og prophetum. Því að Guð elskar öngvan nema hann blífi við spekina. Hún framgengur veglegar en sólin og allar stjörnur og hjá ljósinu að reikna þá gengur hún langt yfir. Því að ljósið hlýtur fyrir nóttinni að víkja en ranglæti yfirvinnur aldrei spekina. Hún náir volduglega frá einum enda til annars og stýrir vel öllum hlutum.