II.

Því að þeir eru fávísir menn og segja: „Stuttir og leiðinlegir eru vorir lífdagar. Og þá maðurinn er í burtu þá er það útgjört um hann. Eigi vita menn nokkurn þann sem aftur er kominn frá helvíti. Óforvarandis erum vér fæddir og förum burt aftur so sem hefðum vér aldreigi verið. Því að andardráttur vorra nasa er reykur og vort mál er einn neisti sem hrærir sig út af voru hjarta. Þegar sá neisti slokknar þá er lífið í burtu sem einn fölski og andinn hverfur í burt sem einn lítill blær og vort nafn forgleymist um síðir so að enginn minnist vorra verka. Vort líf líður í burtu líka sem hefði það verið eitt ský og forgengur líka sem þoka hverja sólin burt rekur og sú sem forgengur fyrir þess hita. Vorir dagar eru líka sem líði fram einn skuggi og þá vér erum í burtu þá er enginn afturkoma. Því það er fastlega innsiglað að þar skal enginn aftur koma.

Komið því hingað og höfuð góða daga á meðan tíminn er og neytum vors lífs í ungdóminum. [ Vér viljum fylla oss af því besta víni og dýrðlegum smyrslum. Vér viljum ekki gleyma voru æskublómstri. Gjörum oss kransa af fögrum liljum áður en þær visna. Enginn af oss láti nokkuð vanta á neina ofneyslu so að menn megi alla vegana frétta hversu það vér höfum verið glaðir. Því vér höfum ekki annað þar út af en þetta.

Látum oss yfirfalla þann fátæka réttláta og hlífum hverki ekkjum né öldruðum mönnum. Hirðum ekki um hirting hins gamla gráhærða. Hvað helst vér kunnum að gjöra það skal vera rétt. Því hver hann kann ei að gjöra hvað hann lystir hann er einskisverður. Því látum oss umsitja þann réttláta það hann gjörir oss ónáðir og reisir sig í móti vorum verkum og ávítar oss að vér syndgunst í móti lögmálinu og útber vort athæfi fyrir synd. Hann þykist þekkja Guð og hrósar sér af því að hann sé Guðs barn og straffar það sem vér höfum í sinni. Vér getum hann ekki liðið og ekki séð hann því að hans lifnaður samhlýðir ekki öðrum og hann hefur með öllu annað framferði. Hann heldur oss óduganlega og forðast vor verk so sem óhreinindi og læst segja að þeim réttlátu skuli með það seinsta vel vegna og hrósar því að Guð sé hans faðir.

Svo látið sjá hvort hans orð eru sönn og reynum til hvílíkan endadag hann fær. Sé hann réttlátur, Guðs barn, þá mun hann hjálpa honum og frelsa hann af mótstöðumannsins hendi. Vér viljum fjötra hann með smán og harmkvæli so að vér megum sjá hversu réttlátur hann er og merkja hversu þolinmóður hann er. Vér viljum dæma hann til herfilegs dauða, þá munum vér þekkja hann á hans orðum.“

Þessu slá þeir fram en það mun þeim bregðast. Þeirra illska hefur blindað þá so að þeir þekkja ekki Guðs leyndan dóm. Því þeir trúa ekki því að heilagt líferni muni verða launað og þeir skeyta ekki um þá æru sem óstraffanlegar sálir munu hafa.

Því að Guð skapaði manninn til eilífs lífs og gjörði hann eftir sinni líking að hann skyldi vera eins so sem hann er. En fyrir djöfulsins öfund er dauðinn kominn í heiminn og þeir sem hans eru þeir hjálpa þar til.