XIII.
Sannlega eru allir menn af náttúrunni hégómlegir sem ekkert vita af Guði og af sýnilegum, góðum hlutum ekki þekkja hann sem hann er og ekki sjá á verkinu hver meistarinn er heldur halda annað hvort eld og veður eður vind og stjörnur eður stríð vötn eður ljósin á himninum sem veröldunni stýra að vera Guð. [ Og ef þeir hafa þóknan á þeirra fríðri sköpun og halda þá svo fyrir guði þá skyldu þeir með réttu hafa hugleitt hversu miklu fremri sá er sem er Drottinn yfir öllu þessu. Því hann sem er allrar fegurðar meistari hann skapaði allt þetta. Og þar sem þá furðaði þeirra máttur og kraftur þá skyldu þeir með réttu hafa markað þar af hversu megtugur hann er sem allt þetta tilreiddi. Því að út af þeirri miklu fegurðarprýði og verkum skaparans þá má hann þekkja so sem af annarri mynd.
En þó að þessir sé ei aldeilis fastlega ávítandi það þeir kunna og vel að fara villt þá þeir leita Guðs og vilja gjarnan finna hann. [ Því að nær eð þeir umgangast með hans skepnur og hugsa þar upp á þá verða þeir fangnir í skoðuninni eftir því að skepnurnar eru so fagrar, þær sem menn sjá. Þó eru þeir ekki þar með afsakaðir því að hafi þeir so mikið kunnað að viðurkenna að þeir kunni hátt að akta skepnuna, hvar fyrir hafa þeir þá ei miklu fyrri hennar Drottin fundið?
En þeir eru vesalir og þeirra von má vel reiknast á meðal þeirra dauðu sem kalla mannanna verk guð, sem er gull og silfur meistarlegana tilbúið og dýramyndir eður gagnlausir steinar sem eru gjörðir forðum so sem þá nær einn trésmiður leitar erfiðis, höggur einhver staðar tréð og útsnikkar og sléttir það vel og gjörir eitthvað smíðislegt og fagurt þar af sem gagnlegt kann að vera í þessu lífi en spænina þar af hefur hann til þess að sjóða mat með so að hann kunni að verða mettur. [ Hvað sem afgangs er og ekki er til gagns, sem er það bogna og kvistótta, það tekur hann og útsker það vandlega þá hann hefur ekki annað að gjöra og hann smíðar það meistarlega með sínum hagleik og gjörir það svo sem eins manns eður fyrirlegs dýrs mynd, hann gjörir það rautt og málar það með rauðum og hvítum color o ghvar sem það verður blettótt þá ber hann þar color á. Og hann gjörir eitt fagurt húskorn handa því og setur það á vegginn og festir það með járni so það skuli ekki falla. Slíka áhyggju hefur hann fyrir því því að hann veit að það getur ekki hjálpað sér sjálft því það er eitt líkneski og þarf stuðnings við.
Og nær hann biður fyrir sínu góssi, fyrir sinni kvinnu og fyrir sínum börnum og hann skammast sín ekki að tala til þess dauða og hann ákallar þann veika um heilbrigði, biður þann dauða um líf, beiðist hjálpar af þeim sem ekkert dugir og um lukkusama reisu af þeim sem ekki kann að ganga og hann biður hann um ávinning, erindi og útvegu, að það skuli vel lukkast, þann sem ekkert formá.