XLVIII.
Og Elías spámaður braust fram sem annar eldur og hans orð brunnu so sem blys, og leiddi yfir þá hallæri og fækkaði þeim fyrir sitt vandlæti. [ Því að fyrir orð Drottins byrgði hann aftur himininn. Þrem sinnum færði hann eld af himni. Hvað dýrðlegur hefur þú verið, Elías, í þínum dáðsamlegum verkum! Hver er jafndýrðlegur sem þú?
Með orði Hins hæsta hefur þú uppvakið hinn dauða og út af helvíti leitt. Þú hefur steypt stoltum kóngum af þeirra sæng og þeim fyrirfarið. Þú hefur heyrt á fjallinu Sínaí þá tilkomandi [ ströffun og á Óreb hefndina. Þú hefur af kóngunum fyrirspáð sem þar skyldu refsa og spámenn eftir þig skikkað. Þú ert uppnuminn í vindbyl með eldlegri kerru og hestum. Þú ert tilsettur til að straffa á sínum tíma til að stilla reiðina fyrr en grimmdin kemur og að snúa hjörtum feðranna til sonanna og ættkvíslir Jakobs að endurskikka.
Sælir eru þeir eð þig sjá og fyrir þíns vinskapar sakir verða heiðraðir. Þar munum vér það sanna lífið hafa.
Þá Elías var uppnuminn í vindbylnum kom hans andi ríkuglega yfir Heliseum. [ Á sínum dögum hræddist hann öngvan höfðingja og enginn kunni hann að sigra. Hann lét sig ekki neitt þvinga. Og sem hann var andaður spáði enn þá hans líkami. Þá hann lifði gjörði hann tákn og þá hann var dauður gjörði hann stórmerki. Þó dugði þetta alls ekki að fólkið iðraðist og léti af sínum syndum, þar til þeir urðu útreknir af sinni fósturjörðu og um öll lönd tvístraðir þar til að lítill hópur varð eftir og einn höfðingi í húsi Davíðs, á meðal hverra nokkrir gjörðu hvað Guði líkaði en sumir syndguðu harla mjög.
Ezechias gjörði styrkva múrveggi í kringum sína borg og veitti vatni þar inn. [ Hann lét grafa niður í bergið og gjöra þar brunna. Á hans dögum ferðaðist Sennakeríb ofan og sendi út Rabsacen. [ Hann hóf upp sína hönd í mót Síon og dreissaði með miklu drambi. þá urðu þeirra hjörtu og hendur skjálfandi og þeir þoldu angist líka sem kona í barnsburðarneyð. Og þeir kölluðu á hinn miskunnsama Drottin og hófu upp til hans sínar hendur. Og sá Hinn heilagi á himnum er heyrði þá og frelsaði fyrir Esaiam. [ Hann sló herbúðir þeirra Assyreis og hans engill afmáði þá. Því að Ezechias gjörði það Drottni líkaði vel og stóð stöðugur á vegi Davíðs, síns föðurs, so sem Esaias kenndi honum, hver að var einn mikill og sannarlegur spámaður í sínum spásögum.
Á þeim dögum gekk sólin aftur og hann jók kóngsins lífdaga. Hann sagði fyrir með ríkum anda hvað með seinasta skyldi ske og veitti traust hryggðarfullum lýð til Síon þar þeir mætti sig um aldur og ævi með hugga. Hann boðaði ókomna og leynda hluti áður en þeir komu.