IIII.
Nú sem Ísbóset son Saul heyrði að Abner var dauður í Hebron þá féllust honum allar hendur og allur Ísrael fékk skelfing.
En son Saul hafði tvo höfuðsmenn fyrir sínu herfólki. Sá eini hét Baena en annar Rekób. [ Þeir voru synir Rimón Berothiter af sonum Benjamín. Því að Berót var og reiknaður á meðal Benjamín og þeir Berothiter voru flúnir til Gitaím og bjuggu þar sem útlendir allt til þessa dags.
Jónatas son Saul átti og einn son. Hann var fótlama og var hann fimm ára gamall þau tíðindi urðu um Saul og Jónatan af Ísrael og hans fósturmóður tók hann og flýði felmsfull og sem hún skundaði í flóttanum þá féll hann og varð haltur. Og hann hét Mefíbóset.
Á einum degi gengu þeir synir Rimón Berothiter, Rekób og Baena, í burt og komu til húsa Ísbóset þá dagur var sem heitastur og hann lá á sinni sæng um miðjan dag. Og þeir komu í húsið að sækja hveiti og þeir lögðu hann í kviðinn og flýðu í burt. Því á þessum tíma sem þeir komu í húsið lá hann á sinni sæng í sínu svefnhúsi og þeir stungu hann í hel og hjuggu af honum höfuðið. Og þeir tóku hans höfuð með sér og gengu um eyðimörk alla þá nótt og báru höfuð Ísbóset til Davíðs í Hebron. Og þeir sögðu til kóngsins: „Sjá, hér er höfuð Ísbóset, sonar Saul, þíns óvinar, hver eð sat um þitt líf. Drottinn hefur á þessum degi hefnt míns herra kóngsins á Saul og hans sæði.“
Þá svaraði Davíð þeim: „Svo sannlega sem Drottinn lifir sá frelsað hefur mína sál af allri minni angist: Eg greip þann sem kunngjörði mér og sagði: Saul er dauður, og hann ætlaði að hann mundi hafa borið mér góð tíðindi en eg sló hann í hel í Siklag þeim eg skyldi hafa gefið laun fyrir sínar fréttir. En þessir óguðlegir menn hafa myrt og slegið réttlátan mann í hans eigin húsi á sinni sæng. Já, skylda eg ekki krefja þvílíks blóðs af ykkrum höndum og burt taka ykkur af jörðunni?“ Og Davíð bauð sínum þénurum. Þeir aflífuðu þá og hjuggu af þeim bæði hendur og fætur og hengdu þá upp hjá fiskivatninu í Hebron. En höfuð Ísbóset tóku þeir og jörðuðu það í gröf Abners í Hebron.