II.
En sem þetta var nú skeð spurði Davíð Drottin að og sagði: [ „Skal eg fara upp til einhverrar borgar í Júda?“ Og Drottinn sagði til hans: „Far upp þangað.“ Davíð sagði: „Hvert þá?“ Hann svaraði: „Til Hebron.“ Svo fór Davíð þangað með sínum tveimur kvinnum, Ahínóam af Jesreel og með Abigail Nabal kvinnu af Karmel. Þar með hafði og Davíð upp með sér þá menn sem voru hjá honum, hvern með sínu hyski, og þeir settust í Hebronborgir. Og menn af Júda komu þangað og smurðu Davíð þar til kóngs yfir hús Júda.
Nú sem Davíð spurði að þeir af Jabes í Gíleað höfðu jarðað Saul þá sendi hann þeim boð og lét segja þeim: „Blessaðir séu þér af Drottni að þér gjörðuð svoddan miskunnarverk á Saul yðrum herra að þér jörðuðuð hann. Svo veiti yður nú Drottinn miskunn og trú. [ Eg vil og vera yður til góða fyrir það þér gjörðuð þetta. Styrkist nú yðar hendur og veri þér sjálfir hughraustir því þó yðar herra Saul sé dauður þá hefur húsið Júda smurt mig til kóngs yfir sig.“
En Abner son Ner sem var hershöfðingi Saul hann tók Ísbóset son Saul og færði hann til Mahanaím og tók hann til kóngs yfir Gíleað, Assuri, Jesreel, Efraím, Benjamín og yfir allan Ísraelslýð. Og Ísbóset son Saul var fjörutígi ára gamall þá hann tók kóngdóm yfir Ísrael og ríkti tvö ár. [ En Júda hús hélt með Davíð. Og allur sá tími sem Davíð var kóngur í Hebron yfir hús Júda var sjö ár og sex mánuðir.
Og það skeði að Abner son Ner dró út með sveina Ísbóset sonar Saul af herbúðum Gíbeon og Jóab son Serúja dró út með Davíðs þénurum og þeir mættust hjá Gíbeon fiskivatni og þeir settu sig hinumegin fiskivatsins hvorir. [ Og Abner sagði til Jóab: „Látið sveina standa upp hvorrratveggja og leiki oss til skemmtunar. Jóab sagði: „Það má vel.“ Þá stóðu þeir upp og gengu fram, tólf af hendi Ísbóset sonar Saul og tólf af Davíðs þénurum, og hvör greip hendi í annars höfuð og lagði sínu sverði í hans síðu og þeir féllu svo báðir. [ Þar af kallast sá staður Helkat Hasúrím sem er í Gíbeon. Og þar hófst á þeim sama degi hin snarpasta orosta en Abner og Ísraelsmenn flýðu fyrir Davíðs þénurum.
Þar voru þrír af Serújasonum: Jóab, Abísaí og Asahel. [ En Asahel var so skjótur á fæti sem eitt hreindýr á skógi og hann rann eftir Abner og veik hverki til hennar hægri né vinstri handar frá Abner. Þá sneri Abner sér við og sagði: „Ert þú Asahel?“ Hann sagði: „Já.“ Abner sagði til hans: „Vík þú þér út af, annaðhvert til hægri eður vinstri handar, og höndla einn af þeim ungu mönnum og tak hans herklæði frá honum.“ En Asahel vildi ekki víkja frá honum. [ Þá sagði Abner enn framar til Asahel: „Vík frá mér. Því vilt þú að eg skuli neyðast til að slá þig til jarðar og þaðan af megi eg ekki síðan óhræddur sjá þinn bróðír Jóab?“ En hann vildi ekki víkja frá honum. Þá lagði Abner hann á bak aftur með einu spjóti í kviðinn so að oddurinn gekk út og hann féll þar og lét lífið. Og hver sem kom að þeim stað þar Asahel var dauður sá nam þar staðar.
En Jóab og Abísaí sóttu eftir Abner allt til sólarfalls. Og sem þeir komu á hæð Amna sem liggur hjá Gía á veginum sem liggur til Gíbeonauðnar þá söfnuðust saman synir Benjamín til Abner og skutu á fylking á hæð nokkri. Þá kallaði Abner á Jóab og sagði: „Vilt þú öllu eyða með sverði? Veist þú ekki að hér eftir má koma meiri eymd? Hversu lengi vilt þú tefja að segja til fólksins að þeir láti af að ofsækja þeirra bræður?“ Jóab svaraði: „Svo sannarlega sem Guð lifir, hefðir þú talað svo fyrr í dag þá hefði fólkið látið af að elta sína bræður.“ Þá þeytti Jóab lúður sinn og stöðvaðist þegar allur lýður og elti ekki meir Ísrael og barðist ekki lengur.
En Abner og hans menn gengu þá alla nótt yfir það sléttlendi og gengu yfir Jórdan og ferðuðust í gegnum allt Bítrón og komu í herbúðirnar. Jóab sneri sér frá Abner og samansafnaði öllu fólkinu. Og þar vantaði nítján menn af Davíðs þénörum og Asahel. En Davíðs þénarar höfðu slegið af Benjamín og mönnum Abner þrjú hundruð og sextígi manns. Asahel tóku þeir upp og jörðuðu hann í síns föðurs gröf í Betlehem. En Jóab og hans menn gengu alla þá nótt svo að þeir komu í dögun til Hebron.