Aunnur bók Samuelis

I.

Þá Saul var dauður og Davíð var fyrir tveimur dögum aftur kominn til Siklag frá slagi þeirra Amalek, sjá, þá kom þar á þriðja degi einn maður af her Saul. Hann reif sín klæði og jós moldu í höfuð sér og sem hann kom fyrir Davíð féll hann til jarðar og kvaddi hann. Davíð sagði til hans: „Hvaðan komstu?“ Hann svaraði: „Eg komst undan af Ísraelsher.“ Davíð sagði til hans: „Seg mér, hvað er þar tíðinda?“ Hann svaraði: „Fólkið flúði úr bardaga og féll fjöldi fólks. Þar féll og Saul og hans son Jónatan.“

Davíð sagði til þessa unga manns sem honum bar tíðindin: „Hvernin veistu það að Saul og hans son Jónatas eru báðir dauðir?“ [ Sá ungi maður sem honum bar tíðindin svaraði: „Eg kom óforvarandis upp á fjallið Gilbóa og sjá, Saul studdist við sitt spjót en vagnarnir og riddaraliðið var komið svo nær honum. Og hann leit við og sá mig og kallaði á mig og eg svaraði: Hér er eg. Og hann sagði til mín: Hver ert þú? Eg svaraði honum: Eg er einn Amalekíta. Og hann sagði til mín: Far hingað til mín og slá mig í hel því að enn er öll önd mín í brjósti mér en þrengsl spenna mig öllumegin. Þá gekk eg að honum og sló hann í hel því eg sá að hann mátti ekki lifa eftir hans fall. Og eg tók kórónuna af hans höfði og hringinn af hans armi og hafði eg þetta hingað til þín, minn herra.“

Þá hreif Davíð í sín klæði og sleit þau og allir þeir menn sem voru hjá honum með hörmuglegri hryggð og föstuðu til aftans og syrgðu sárlega Saul og hans son Jónatan og Drottins fólk og Ísraels hús að þeir höfðu fallið fyrir sverði.

Og Davíð sagði til þess unga manns sem honum undirvísaði þetta: „Hvaðan ert þú?“ Hann svaraði: „Eg er útlendur maður, sonur eins Amalekíta.“ Davíð sagði til hans: „Því varst þú svo djarfur að þú þorðir að leggja hendur á smurðan Drottins og lífláta hann?“ Og Davíð sagði til eins af sínum þénurum: „Kom hingað og slá hann.“ Og hann sló hann í hel. Þá sagði Davíð til hans: „Þitt blóð veri yfir þínu höfði því þinn munnur talaði í gegn þér sjálfum og sagðir: Eg hefi í hel slegið þann smurða Drottins.“

Og Davíð kvað þennan harmagrát yfir Saul og hans syni Jónatan og bauð að kenna sonum Júda þennan [ boga. Sjá, hann stendur skrifaður í Bók þeirra réttlátu.

Þeir inu ágætustu í Ísrael eru slegnir á þínum hæðum. Hvernin eru kapparnir fallnir?

Látið það ekki spyrjast í Gat og kunngjörið það ekki á strætunum í Asklón so að dætur Philistinorum gleðji sig ekki og að dætur þeirra óumskornu hafi ekki fögnuð þar af.

Þér Gilbóafjöll, komi hverki dögg né regn yfir yður og ei sé þar akrar af hverjum að upphafningaroffur komi því að þar voru skildir kappanna klofnir, skjöldur Saul so sem að hefði hann ekki verið smurður með viðsmjöri?

Jónatas bogi skaut aldrei vint og sverð Saul hjó aldrei miss af blóði þeirra í hel slegnu og af ístri kappanna.

Saul og Jónatas voru ástúðlegir og elskulegir í lífinu, þeir skildu og ekki í dauðanum. Þeir voru léttfærari en ernir og sterkari en león.

Þér Ísraelsdætur, syrgið Saul sem að klæddi yður svo prýðilegar sem rósir og prýddi yður með gyllini kienodium á yðar klæðum.

Með hverjum hætti eru kapparnir fallnir í bardaga? Jónatas er sleginn á þínum hæðum.

Syrgi eg þig, minn bróðir Jónatas. Eg hefi haft stóra gleði og unaðsemd af þér. Þinn kærleiki var mér yndislegri en kvennanna kærleiki.

Með hverjum hætti eru kapparnir fallnir og þeir hraustu hermenn yfirkomnir?