XXX.

Og Esekías sendi til alls Ísraels og Júda og skrifaði bréf til Efraím og Manasse að þeir skyldu koma til Drottins húss í Jerúsalem til að halda páska Drottni Israelis Guði. [

Kóngurinn hélt og eitt ráð við sína höfðingja og við allan söfnuðinn í Jerúsalem og kom það ásamt með þeim að þeir skyldu halda páska í öðrum mánuði því þeir þóttust ekki geta haldið þá í þeirri sömu tíð því að kennimennirnir voru ekki svo margir helgaðir sem vera áttu, svo og var ekki fólkið komið saman til Jerúsalem. Þetta líkaði kónginum vel og öllum söfnuðinum. Og þeim kom það saman að láta slíkt út berast um allan Ísrael frá Berseba og allt til Dan að þeir skyldu koma og halda Drottins Ísraels Guðs páska í Jerúsalem. Því að þeir höfðu ekki í langa tíma páska haldið so sem skrifað stendur (í lögmálinu).

Og sendiboðarnir hlupu með flýti með bréfum frá kónginum og hans hershöfðingjum um allan Ísrael og Júda eftir kóngsins skipan og sögðu: [ „Þér Ísraelssynir, snúið aftur til Drottins Guðs Abrahams, Ísaks og Ísraels, so mun hann snúa sér til þeirra sem eftir eru, þeir sem enn eru eftir undan kóngsins höndum í Assyria. Verið ekki sem yðar feður og bræður hverjir að sér sneru frá Drottni þeirra feðra Guði og hann gaf þá í glötun so sem þér sjálfir sjáið. Verið nú eigi svo harðhnakkaðir svo sem yðar forfeður heldur gefið Drottni yðar hönd og komið til hans helgidóms sem hann hefur helgað ævinlega og þjónið Drottni yðrum Guði, þá mun hans grimmdarreiði létta af yður. Því ef þér snúið yður til Drottins þá mun yðar bræður og börn fá miskunnsemd af þeim sem þá halda hertekna og munu koma aftur í sitt land. Því að Drottinn yðar Guð er náðigur og miskunnsamur og mun ekki snúa sínu augliti frá yður ef þér snúið yður til hans.“

Og þeir hlauparar gengu frá einum stað og til annars í öllu landi Efraím og Manasse og allt til Sebúlon. En þeir hæddu og spottuðu þá. Þó voru þeir nokkrir sem sig auðmýktu af Asser, Manasse og Sebúlon og komu til Jerúsalem. En í Júda var Guðs hönd svo hann gaf þeim eitt samhugað hjarta að gjöra eftir kóngsins boði og höfðingjanna út af Drottins orði. Og þar kom ofurmargt fólk til samans í Jerúsalem að halda þá sætubrauðshátíð í þeim öðrum mánuði, einn mjög mikill fólksfjöldi. [

Og þeir fóru til og niðurbrutu þau altari sem voru í Jerúsalem og öll þau altari yfir hverjum reykelsi var offrað og köstuðu þeim öllum í lækinn Kedron. Og þeir sæfðu [ páskana þann fjórtanda dag í þeim öðrum mánuði. Og prestarnir og Levítarnir meðkenndu sínar skammir og helguðu sig báru brennifórnir í Drottins hús. Og þeir stóðu í sinni skipan svo sem þeim heyrði eftir Móse guðsmanns lögmáli. Og prestarnir tóku blóðið af Levítanna höndum og þeir stökktu því. Því þeir voru margir í söfnuðinum sem ekki höfðu helgað sig. Því slátruðu Levítarnir páskunum fyrir alla þá sem ekki voru hreinir að þeir skyldu verða helgaðir fyrir Drottni

Þar var og margt fólk af Efraím, Manasse, Ísaskar og Sebúlon þeir sem ekki voru hreinir og þeir átu páskalambið ekki svo sem skrifað stendur. Því að Esekías bað fyrir þeim og sagði: „Drottinn sá sem góður er hann mun miskunna sig yfir alla þá sem af öllu hjarta leita Drottins þeirra feðra Guðs en eigi fyrir heilagleik . [ hreinsunarinnar.“ Og Drottinn bænheyrði Ezechiam og helgaði fólkið. Svo héldu Israelissynir, þeir sem fundnir voru í Jerúsalem, þá sætubrauðshátíð með miklum fögnuði. En prestarnir og Levítarnir lofuðu Drottin alla daga, magt Drottins með hljóðfærum. [

Og Esekías talaði hjartnæmilega við alla Levítana hverjir skilning höfðu á Drottni og þeir átu sjö daga hátíðarhaldsfórnirnar og offruðu þakkaroffri og þökkuðu Drottni þeirra feðra Guði. Og öllum almúga kom það ásamt að halda skyldi enn aðra sjö daga og þeir héldu aðra sjö daga með fagnaði. Því Esekías kóngur Júda gaf almúganum þúsund uxa og sjö þúsund sauða en höfðingjarnir gáfu almúganum þúsund uxa og tíu þúsund sauða. Svo helgaði sig mikill fjöldi kennimanna.

Allur söfnuður í Júda gladdist af fagnaði, prestarnir og Levítarnir og sá allur almúgi sem kominn var af Ísrael og þeir útlendu sem komnir voru af Ísraelslandi og þeir sem bjuggu í Júda. Og þar var einn stór fögnuður í Jerúsalem hvílíkur ekki verið hafði allt í frá dögum Salómon kóngs sonar Davíðs í Jerúsalem. En prestarnir og Levítarnir stóðu upp og blessuðu fólkið og þeirra rödd bænheyrðist og þeirra bæn kom inn fyrir hans heilögu tjaldbúð í himninum.