XVII.

Og hans son Jósafat varð kóngur í hans stað og hann varð megtugur mót Ísrael. [ Hann setti stríðsfólk í allar sterkar borgir Júda, skikkaði og so embættismenn alls staðar um Júdaland og í Efraímsborgir sem hans faðir Assa hafði unnið. Og Guð var með Jósafat því að hann gekk í öllum vegi síns föðurs Davíðs og hann leitaði ekki eftir Baalím heldur eftir sinna feðra Guði og gekk eftir hans boðorðum en ekki eftir Israelis verkum. Og því staðfesti Drottinn hans ríki. Og allir í Júda færðu honum gjafir og hann hafði ofurmikinn ríkdóm og mikla vegsemd. Og sem hans hjarta var orðið öruggt í vegi Drottins eftir það tók hann hæðir og lunda í burt af Júda.

Og á því þriðja ári síns ríkis útsendi hann sína höfðingja Benhaíl, Óbadía, Sakaría, Netaneel og Míkaja að þeir skyldu kenna í stöðum Júda. [ Og Levíta sendi hann með þeim, Samajam, Netajam, Sebadjam, Asahel, Semíramót, Jónatan, Adónían, Thobían og Tob Adónía, og með þeim prestana Elísama og Jóram. Og þeir kenndu fólkinu í Júda og höfðu Guðs lögmálsbók með sér og ferðuðust í kring um allar borgir Júda og lærðu fólkið.

Og ótti Drottins féll yfir öll kóngaríki í landinu sem að voru í kringum Júda so þeir voguðu ekki að berjast á móti Jósafat. [ Þeir Philistei færðu Jósafat gáfur, mikinn þunga silfurs. Og þeir af ríkjum Arabia færðu honum sjö þúsund og sjö hundruð hrúta og sjö þúsund og sjö hundruð hafra. So efldist Jósafat að hans afli óx meir og meir. Hann byggði mörg slot og kornstaði í Júda og hafði mikla gnótt alls kyns [ forráða í stöðum Júda og stríðsmenn og voldugt fólk í Jerúsalem.

Og þessi var skipan í þeirra feðra húsi þeir sem að voru yppastir yfir Júda, yfir þúsund: [ Hertugi Adna og með honum voru þrisvar sinnum hundrað þúsund, það valdasta lið. Næst honum var höfðingi Jóhanan, með honum voru tvisvar sinnum hundrað þúsund og áttatígi þúsund. Næst honum var Amasja son Síkrí hver eð var helgaður Drottni og með honum voru tvö hundruð þúsund hraustra stríðsmanna. En af sonum Benjamín var Eljad mikill hermaður og með honum tvö hundruð þúsund, hverjir útbúnir voru með boga og skjöldu. Næst honum var Jósabad og með honum voru hundrað og áttatígi þúsund útbúnir til bardaga. Þessir allir voru með kónginum. Fyrir utan þá menn sem kóngurinn hafði sett í sterkar borgir í allri Judea.