XIIII.
Og Assa gjörði það sem rétt var og þakknæmilegt fyrir Drottni hans Guði. [ Hann braut niður þau annarlegu altari og hæðirnar og sundursló bílætin og upphjó lundana. Hann lét segja Júda að þeir skyldu leita Drottins þeirra feðra Guðs og breyta eftir lögmálinu og boðorðunum. Og hann burt tók þær hæðir og afguðina úr öllum borgum í Júda því að ríkið var í friði undir honum. Og hann lét byggja sterkar borgir í Júda því að landið var stilli og ekkert stríð hófst upp í móti honum á þeim árum því Drottinn gaf honum frið.
Og hann sagði til Júda: „Látum oss byggja þessar borgir og styrkjum þær með steinveggjum, turnum, portum og grindum á meðan friður er í landinu. Því að vér höfum leitað Drottins vors Guðs og hann hefur gefið oss frið allt um kring.“ Svo tóku þeir til að byggja og það gekk fram lukkusamlega. Assa hafði einn mikinn her hver eð bar skjöld og spjót: Af Júda þrisvar sinnum hundrað þúsund manna, af Benjamín tvisvar sinnum hundrað þúsund og áttatígi þúsundir sem að skjöld báru og kænir voru með boga og þetta var allt hið valdasta stríðsfólk.
Og Sera af Blálandi dró út í móti þeim með einn mjög mikinn her. [ Hann hafði tíu sinnum hundrað þúsund manns, þar að auk þrjú hundruð vagna, og kom allt til Maresa. Og Assa dró í mót honum. Og þeir bjuggust til bardaga í dalnum Sefata hjá Maresa. Og Asa kallaði á Drottin sinn Guð og sagði: [ „Drottinn, enginn er mismunur fyrir þér að hjálpa mörgum eður þeim sem magtarlausir eru. Hjálpa oss, Drottinn vor Guð, því vér vonum á þig og vér erum komnir í þínu nafni móti þessum stóra mannfjölda. Drottinn vor Guð, enginn mann má sér nokkuð í móti þér.“
Og Guð plágaði þá blálensku fyrir Assa og fyrir Júda. [ Og Assa og hans fólk sem var með honum ráku flóttann allt til Gerar og þeir blálensku féllu svo að enginn af þeim var lifandi eftir og þeir voru í hel slegnir af Drottni og af hans her og þeir tóku þar ógrynni fjár. Hann sló alla staðina í kringum Gerar því að Drottins ótti féll yfir þá. Og þeir ræntu allar borgir því að þær voru fullar herfangs. Og þeir slógu niður féhúsin og fengu ógrynni sauða og úlfalda og komu svo aftur í Jerúsalem.