LXI.
Einn sálmur Davíðs fyrir að syngja upp á hljóðfæri
Heyr þú, Guð, mitt ákall og hygg að minni bæn.
Hér niðri á jörðu kalla eg til þín nær eð mitt hjarta það kvelst í ánauð, að þú vildir þá hefja mig upp á hátt bjarg.
Því að þú ert mitt trúnaðartraust, einn öruggur kastali fyrir mínum óvinum.
Eg vil byggja í þinni tjaldbúð ævinlega og skjóls leita undir þínum vængjum. Sela.
Því að þú, Guð, heyrir mín heit, þú launar þeim vel sem þitt nafn óttast.
Þú gefur konunginum langa lífdaga svo það hans áratala varir frá einni kynslóð til annarrar.
Svo það hann ævinlega stöðugur blífi fyrir Guðs augsýn auðsýn þú honum miskunn og sannleik svo að þær varðveiti hann.
Þá vil eg þínu nafni lofsyngja eilíflega so að eg gjaldi mín heit daglegana.