II.
Fyrir því kanntu eigi, ó maður, þig að afsaka hver helst þú ert sem dæmir því hvar þú dæmir um annan þar fordæmir þú sjálfan þig af því þú gjörir það sama hvað þú dæmir. Því vér vitum það Guðs dómur er réttur yfir þeim sem þvílíkt gjöra. En þenkir þú, ó maður, sem dæmir þá er þvílíkt gjöra og þú gjörir hið sama að þú munir umflýja Guðs dóm? Veistu eigi það að Guðs góðgirni leiðir þig til yfirbótar? En þú eftir þinni harðúð og óyfirbótarsömu hjarta safnar þér sjálfum reiði upp á reiðinnar dag og uppbirtingar Guðs réttlætisdóms, sá er gjalda mun einum og sérhverjum eftir hans verkum ,þeim að sönnu heiður og vegsemd og ófallvalta veru sem með þolinmæði góðra verka eftirleita eilífu lífi en hinum sem þrætugjarnir eru og hverjir eigi hlýða sannleikanum en hlýða heldur ranglætinu sneypu og reiði, hrellingar og harmkvæli yfir allar sálir þeirra manna sem illsku drýgja, fyrst Gyðingum og so Grikkjum, en heiður, vegsemd og frið öllum þeim sem gott gjöra, fyrst Gyðingum og so Grikkjum.
Því að ekkert manngreinarálit er fyrir Guði. Því þeir sem án lögmáls hafa syndgast þeir munu og án lögmáls fyrirfarast. Og þeir sem undir lögmálinu hafa syndgast munu fyrir lögmálið dæmdir verða. Af því að áheyrendur lögmálsins eru ei réttlátir fyrir Guði heldur eru þeir réttlátir sem lögmálið gjöra. Því ef þeir heiðnu sem eigi hafa lögmálið en gjöra þó af náttúru hvað lögmálið inniheldur þeir sömu, með því þeir hafa ei lögmálið eru þeir sér sjálfir lögmál með hverju þeir útvísa það lögmálsins verk sé skrifuð í þeirra hjörtum sem þeirra samviska sjálf ber þeim um vitni og þeir þankar sem sín á milli áklaga sig eður afsaka, á þeim degi nær Guð dæmir leynda hluti mannanna eftir mínu guðsspjalli fyrir Jesúm Christum.
En sjá, þú kallast Gyðingur og forlætur þig upp á lögmálið og hrósar þér af Guði og veist hans vilja og með því þú ert lærður í lögmálinu reynir þú hvað að best sé að gjöra og formetur þig sjálfan vera blindra leiðtogara og ljós þeirra sem í myrkrum eru, fávísra tyftunarmann og læriföður einfaldra, hafandi bæði viskunnar form og sannleikans í lögmálinu. Nú lærir þú annan en sjálfan þig lærir þú eigi. [ Þú prédikar að eigi skuli stolið verða og þú stelur. Þú segir að eigi skuli hórdómur drýgjast og þú drýgir hór. Þú svívirðir skúrgoðin, [ rænir þó Guð sínu. Þú hrósar þér af lögmálinu og vanvirðir Guð fyrir yfirgöngu lögmálsins. „Því að fyrir yðar skuld verður Guðs nafn lastað meðal heiðinna þjóða,“ so sem að skrifað er.
Umskurðurinn dugir að sönnu ef þú varðveitir lögmálið en ef þú ert yfirtroðslumaður lögmálsins þá er þín umskurn orðin að yfirhúð. Því að ef yfirhúðin varðveitir réttlætingar lögmálsins, reiknast eigi þá hans yfirhúð fyrir umskurn? Og so mun það, þa sem af náttúru er [ yfirhúð og lögmálið fullkomnar, dæma þig sem ert undir bókstafnum og umskurninni, yfirtroðslumann lögmálsins. Því að sá sem augljóslega er Gyðingur er ei Gyðingur og ei sú augljós holdsins umskurn er umskurn heldur er sá Gyðingur sem heimuglegur Gyðingur er og umskurn hjartans er umskurn sú er sker [ í andanum en eigi í bókstafnum, hverra lofstír eigi er af mönnum heldur af Guði.