VI.
Það er ein ólukka sem eg sá undir sólunni og er almennileg á meðal mannanna: Sá maður hverjum Guð gefur ríkdóm, góss og heiður og vantar ekki par á allt hvað hans hjarta lystir og Guð gefur honum þó ekki kraft til að neyta þess ins sama heldur er annar því eyðandi. Það er hégómi og ein vond plága. Og þó einn gæti hundrað barna og hefði langa lífdaga so hann lifði mörg ár og hans sála yrði aldrei södd af auði og blífi án grafar, um þann sama segi eg að ótímabær burður er betri en hann. Því í hégómanum kom hann og fer í myrkri í burt og hans nafn mun afmást í myrkrunum. Af sólunni hefur hann öngva gleði og öngva ró veit hann sér, hverki í einum stað né öðrum. Og þó að hann lifði í tvö þúsund ár þá hefur hann þó aldrei gott. Kemur það nú ekki allt í einn stað?
Hverjum manni er erfiði á lagt eftir sínum mætti en hjartað er þar ekki við. Því hvað afrekar hygginn maður meir en heimskur? Hvað undir stendur hinn fátæki utan að vera meðal lifandi manna? Betra er að neyta þess nálæga en hugsa eftir því sem burt er. Það er eymd og hégómi.
Hvað er það að einn hann er mjög prísaður og lofaður en menn vita þó að hann er maður og kann ekki að halda þrætu við sér öflugra. Því margt er hégómavert og hvað hefur maðurinn meira þar út af?