XIX.

Og það skeði er Apollo var til Corintho að Páll gekk þá um upplönd og kom til Ephesum og fann nokkra lærisveina og sagði til þeirra: [ „Hafi þér nokkuð meðtekið heilagan anda síðan þér urðuð trúaðir?“ En þeir sögðu til hans: „Vær höfum enn eigi heyrt hvort að nokkur heilagur andi væri.“ Hann sagði til þeirra: „Upp á hvað eru þér þá skírðir?“ En þeir sögðu: „Upp á skírn Johannis.“ Páll sagði: „Jóhannes skírði að sönnu með iðranarskírn og sagði fyrir fólkinu að þeir skyldu trúa á þann sem eftir hann mundi koma, það er á Jesúm, það hann sé Kristur.“ Sem þeir heyrðu það létu þeir skíra sig í nafni Drottins Jesú Christi. Og er Páll hafði haft hendur yfir þeim kom heilagur andi yfir þá. Og þeir töluðu tungur og tóku að spá. En þeir menn voru alls nær tólf.

Hann gekk inn í samkunduhúsið og prédikaði í frelsi um þrjá mánuði, kenndi og þeim fortölur setti af Guðs ríki. [ En þá þeir voru nokkrir sem harðfylldir voru og ei trúðu, talandi illt af vegi Drottins fyrir alþýðu, veik hann frá þeim og aðskildi lærisveinana, daglegana talandi í kennsluhúsi þess manns er Týrannus hét. Og þetta gjörðist um tvö ár svo að þeir allir sem bjuggu í Asia heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir. Og Guð gjörði eigi lítil kraftaverk fyrir hendur Páls so að ef einnin sveitadúkar eður nærklæði af hans líkama bárust yfir sjúka það krankdæmi hurfu af þeim og illskuandar útfóru af þeim.

En nokkrir freistuðu út af umhleypings Júðum, særingamenn, að kalla á nafn Drottins Jesú yfir þeim sem illskuanda höfðu með sér og sögðu: [ „Vér særum yður fyrir Jesúm þann Páll prédikar.“ En þessir voru sjö er þetta frömdu, synir þess Gyðings og prestahöfðingja er Skeva hét. En illskuandinn svaraði og sagði: „Jesúm kenni eg og Pál veit eg en hverjir eru þér?“ Og sá maður í hverjum illskuandinn var stökk upp á þá, varð þeim öflugri og varpaði þeim undir sig so að þeir flýðu naktir og sárir úr því sama húsi. Þetta varð öllum kunnigt sem bjuggu í Epheso, bæði Gyðingum og Grikkjum. Og yfir þá alla sló ótta og nafn Drottins Jesú var næsta miklað.

Þar komu og margir sem trúaðir voru vorðnir, viðurkenndu og kunngjörðu hvað þeir hefðu aðhafst og margir af þeim sem forneskjulistir höfðu framið báru bækurnar saman og brenndu þær öllum hjáveröndum og samanreiknuðu þeirra verði, fundu þeir þess fjár fimmtigu þúsund peninga. [ So öfluglega tók að vaxa orð Drottins og að eflast. Nú sem þetta var útgjört setti Páll sér í anda að ferðast um Macedoniam og Achaiam og að ganga til Jerúsalem og sagði: „Því eftir það er eg hefi verið þar byrjar mér að sjá Roman.“ Og hann sendi tvo af þeim er honum þjónuðu, Timotheum og Crastum, til Macedoniam. En hann bleif sjálfur um stundarsakir í Asia.

En í þann tíma hófst eigi lítill uppblástur af þessum vegi. [ Því að nokkur gullsmiður sá Demetríus var að nafni, hver eð gjörði silfurhuldir Díanu, og það gjörði þeim embættismönnum eigi lítinn ábata, hverja hann samankallaði sem þess háttar verkmenn voru og sagði: „Góðir menn, þér vitið að vér höfum mikinn gróða af þessu verklagi og þér sjáið og heyrið eigi alleinasta í Epheso heldur og næsta um alla Asiam það þessi Páll umhverfir miklu fólki, teljandi fyrri því og segir að það sé öngvir guðir sem með höndum verða gjörðir. En þetta hlutskipti kemur ei einasta oss til tjóns og voru verklagi til niðranar heldur mun musteri hinnar miklku gyðju Díanu einskis virt. Þar til mun hennar tign niðurbrotin verða hverja öll Asia og heimskringlan vegsamar.“

Sem þeir heyrðu það fylltust þeir reiði, æptu upp og sögðu: [ „Hin mikla Díana í Epheso!“ Og öll borgin fylltist af sneypan. Og þeir gjörðu með einu hugarfari áhlaup til sjónarflötsins, gripu þá Gaium og Aristarchum af Macedonia, förunauta Páls. Páll vildi þá ganga inn að fólkinu og lærisveinarnir leyfðu honum það eigi. Og nokkrir yfirmen úr Asia þeir eð Páls góðir vinir voru sendu til hans og báðu að hann gæri sig eigi fram á sjónarflötinn. Sumir kölluðu so en aðrir annað því að alþýðan var vill vorðin og flestir vissu eigi af hverju efni þeir voru til samans komnir. En sumir af fólkinu drógu fram Alexandrum þeim er Gyðingar fram ýttu. En Alexander benti sér til hljóðs, viljandi forsvara sig fyrir fólkinu. Og er þeir formerktu það hann var Gyðingur hófst upp eitt kall af öllum, nær tveim stundum: „Hin mikla Díana í Epheso!“

Og sem kanselereinn fékk stöðvað fólkið sagði hann: [ „Þér menn í Epheso! Hver er sá manna eð ei veit það borgin Ephesus sé dýrkunarinnar hinnar miklku gyðju Díanu og hennar líkneskju af himni ofanfallna? Nú með því að þessu segir enginn í móti þá byrjar yður spökum að vera og ekkert af bráðræði að gjöra. Þér hafið nú þessa menn hingað dregið sem hverki eru ræningjar kirkna né háðsmenn yðrar gyðju. Þótt Demetríus og þeir embættismenn sem með honum eru hafi kærumál við nokkurn þá gjörist þar lög um og þar eru borgmeistarar. Klagist þeir innbyrðist fyrir þeim. En ef þér leitið nokkuð eftir um aðra hluti þá látið það uppleysast á annarri löglegri samkomu. Því það er háskasamlegt að ef vér skulum sekir verða fyrir þessa dags upphlaup með því þó að engin sök er undir niðri hvaðan vér megum skjal af gefa þessa upphlaups.“ Og er hann hafði þetta sagt sleit hann safnaðinum.