XIIII.

Og það skeði í Iconia að þeir gengu til líka inn í Gyðingasamkundu og töluðu so að mikill mannfjöldi trúði, bæði Júðar og Grikkir. [ En þeir Gyðingar sem mistrúa voru uppvöktu og til reiði hvöttu í mót bræðrunum hugi heiðinna manna. Þó dvöldu þeir þar um langan tíma, styrklega erfiðandi með herrans fulltingi hver eð sjálfur vitni bar orðum sinnar náðar og veitti að tákn og stómerki skeðu fyrir þeirra hendur. En borgarmúgurinn tvískiptist í sundur so að sumir héldu að sönnu með Gyðingum en sumir með postulunum.

En er gjörðist upphlaup með heiðingjum og líka einnin með Gyðingum og þeirra yfirboðurum so þeir færi til með valdi og grýttu þá grjóti þá fornum þeir og flýðu í þær borgir sem liggja í Lyconialandi, Listra og Derben, og alls staðar í þeirra umliggjandi landsálfur, og prédikuðu þar evangelium. [ Og maður nokkur í Lýstra sat fótahrumur og var haltur frá sinnar móður kviði, sá er aldrei hafði enn gengið. Hann heyrði Pál mæla. Og sem hann leit á hann og sá að hann trúði það honum mætti hjálpa sagði hann með hárri röddu: „Statt uppréttur á þína fætur!“ Og hann spratt upp og gekk. En er lýðurinn leit hvað Páll hafði gjört hófu þeir upp hljóð sín á lycaonesku og sögðu: „Guðin eru mönnum lík vorðin og til vor ofanstigin!“ Og Barnabam kölluðu þeir Júpíter en Pál Mercurium af því að hann var framberi orðsins. En Júpíters prestur sá er fyrir borginni var flutti bæði yxn og kransa fyrir dyrnar og vildi fórnfæra þeim með fólkinu.

Þá er postularnir Páll og Barnabas heyrðu það hrifu þeir klæði sín, stukku út til fólksins, kölluðu og sögðu: [ „Þér menn, hví gjöri þér þetta? Við erum og dauðlegir menn líka sem þér og bjóðum yður að snúast frá þessum hégómum til lifanda Guðs sá er gjörði himin og jörð, sjó og allt hvað í þeim er, hver um liðnar aldir hefur allar þjóðir ganga látið sína sjálfs vegu og þó að sönnu hefur hann eigi forlátið sjálfan sig án vitnisburðar þá hann veitir gott og gefur oss dögg af himni og frjófsama tíma, uppfyllandi vor hjörtu með fæðslu og fagnaði.“ [ Og er þeir sögðu þetta gátu þeir þó varla stillt lýðinn so að þeir fórnuðu þeim eigi.

Þá komu þar nokkrir Gyðingar frá Antiochia og Iconia hverjir að umtöldu lýðinn svo að þeir grýttu Pál og drógu út af borginni, meinandi hann dauðan vera. [ En þá lærisveinarnir umkringdu hann stóð hann upp og gekk inn í borgina. Og deginum eftir fór hann með Barnaba til Derben og prédikaði evangelium í þeirri borg og lærði þar margan, vendi síðan aftur til Lystram, Iconiam og Antiochiam, styrkjandi andir lærisveinanna og áminnandi þá að þeir væri staðfastir í trúnni og það: „Að oss byrjar fyrir margar hrellingar inn að ganga í Guðs ríki.“ Og þeir skikkuðu þeim öldunga í sérhverja samkundu, báðust fyrir og föstuðu og fólu þá síðan þeim Drottni á hendi á hvern þeir trúðu.

Og er þeir höfðu gengið um Pisidiam komu þeir í Pamphiliam og töluðu orð Drottins til Pergan og fóru ofan til Atthaliam. [ Þaðan sigldu þeir til Antiochiam hvaðan þeir voru af Guðs náð tilfengnir í það verk hvert þeir höfðu fullkomnað. Og sem þeir voru komnir og samansafnað söfnuðinum töldu þeir fram hve mikið Guð hefði gjört meður þeim og hvernin hann hefði dyrum trúarinnar upplokið fyrir heiðingjum. Og þar dvöldu þeir eigi skamma stund hjá lærisveinunum.