XI.

Og er það heyrðu postularnir og þeir bræður sem í Judea voru að heiðingjar höfðu meðtekið Guðs orð og þá Pétur kom upp til Jerúsalem tóku þeir að þrátta í móti hönum sem voru af umskurningunni og sögðu: [ „Þú gekkst inn til þeirra manna sem yfirhúð hafa og mataðist með þeim.“

En Pétur tók til af upphafi og framtaldi fyrir þeim eitt eftir annað og sagði: „Eg var í borginni Joppen á bæn og eg sá í leiðslu míns hugskots sýn þá að diskur nokkur leið ofan, stór sem annað línlak meður fjórum hyrningum, ofan látinn af himnum og kom allt inn til mín, á hvern eg horfða. Hugða eg að og sá ferfættar kindur jarðar, skógdýr, skriðkvikindi og fugla himins. En eg sagði: Herra, nei, því að ekkert almennt eður óhreint hefur enn nokkurn tíma inn í minn munn gengið. En röddin svaraði mér í annað sinn af himnum: Hvað Guð hreinsaði það seg þú eigi almennt. Og þetta skeði þrisvar. Og þá var allt uppnumið aftur til himins.

Og sjáið, að jafnsnart stóðu þrír menn úti fyrir húsinu þar eg var inni, sendir af Cesarea til mín. En andinn sagði mér að eg skyldi ganga með þeim og efa ekkert. En mér fylgdu þessir sex bræður. Og vær gengum inn í þess manns hús. Hann kunngjörði oss hvernin hann hafði séð engil í sínu húsi hver eð staðið hafði fyrir honum og sagt til hans: Send þú út menn til Joppen og lát kalla til þín Símon þann kallaður er Pétur. Hann mun segja þér þau orð af hverjum þú munt hólpinn verða og allt þitt hús. En þá eg tók til að tala féll heilagur andi yfir þá líka sem hann féll yfir oss í upphafi. [ Þá kom mér það í hug hvað Drottinn hafði sagt: Jóhannes skírði að sönnu í vatni en þér skuluð með heilögum anda skírðir verða. Því fyrst Guð hefur gefið þeim líkar gjafir sem oss þann tíð vér trúðum á Drottin Jesúm Christum, hver var eg þess að eg mætta það Guði banna?“ Þá þeir heyrðu það þögnuðu þeir út af, vegsömuðu Guð og sögðu: „Þá hefur Guð unnt heiðingjum iðran til lífs.“

Og sennilega sem þeir í sundur höfðu dreifst af þeirri hörmung er bar til um Stephanum gengu um kring allt til Phenicen og Cipriam og Antiochiam, talandi orðið fyrir öngum nema Gyðingum einum. [ Þar voru og nokkrir út af þeim sem voru af Cipria og Cirema hverjir, þá þeir gengu inn í Antiochiam, tóku að tala til þeirra Grikkja, boðandi þeim Drottin Jesúm. Og hönd Drottins var meður þeim. Og mikil tala trúaðra manna snerist til Drottins.

En það orðflaug sem af þeim fór kom til eyrna safnaðarins sem var í Jerúsalem. Og þeir sendu út Barnabam það hann gengi til Antiochiam. [ Og sem hann kom þar og sá Guðs náð varð hann glaður og réð þeim öllum að þeir skyldu með öruggu hjarta hjá Guði staðnæmast. Því hann var góður maður og fullur heilags anda og trúar. Og margt fólk jókst þar Drottni. En Barnabas fór til Tarsen að hann frétti upp Saulum. Og er hann hafði fundið hann fylgdi hann honum í Antiochiam. Og það skeði so að þeir voru til samans árið allt hjá þeim söfnuði, kenndu þar og mörgu fólki so að lærisveinarnir kölluðust fyrst í Antiochia kristnir.

En á þeim dögum komu spámenn af Jerúsalem til Antiochiam. Og einn af þeim stóð upp, Agabus að nafni. [ Hann tilreiknaði fyrir andann að koma skyldi mikið hungur í öllum veraldarheimi, hvert eð skeði undir Claudeo keisara. En lærisveinarnir lögðu til, hver eftir því sem hann formátti, og sendu þeim bræðrum til bjargar er bjuggu í Judea. Hvað þeir gjörðu og sendu til þeirra öldunga fyrir hendur Barnabe og Sauls.