XV.

Og eg sá annað teikn á himni, það var mikið og undarlegt: Sjö englar höfðu sjö inar síðustu plágur það með þeim sömum er fullkomnuð reiði Guðs. Og eg sá so sem glersjó eldi mengaðan og þá sem sigrað höfðu dýrið og þess mynd og þess teikn og tölu þess nafns það þeir stóðu á glersjónum og höfðu hörpur Guðs og sungu lofsöng Móses, Guðs þénustumanns, og lofsöng lambsins, segjandi: [ „Mikil og undarleg eru þín verk, Drottinn Guð almáttigur, réttvísir og sannarlegir eru þínir vegir, þú konungur heilagra. Hver skyldi eigi hræðast, Drottinn, og mikla þitt nafn? Það þú ert einn heilagur. Af því munu allar þjóðir koma og tilbiðja fyrir þér því þínir dómar eru opinberir orðnir.“

Og eftir það sá eg og sjá, að upplokið varð musteri vitnisburðarins tjaldbúðar á himni og út af musterinu gengu þeir sjö englar sem þær sjö plágur höfðu, klæddir hreinu skínanda líni og gyrtir um brjóstið gulllindum. Og eitt af fjórum dýrunum gaf þeim sjö englunum sjö gullskálir fullar Guðs reiði, þess er lifir um aldur og að eilífu. Og musterið varð fullt af reyk af vegsemd Guðs og hans krafti. Og enginn kunni að ganga í musterið þar til það þær sjö plágur þeirra sjö engla fullkomnaðar urðu.