Móses svaraði og sagði: „Sjá, ekki munu þeir trúa mér né heldur hlýða mínum orðum, heldur munu þeir segja: Guð hefur ekki vitrast þér.“ Þá sagði Drottinn til hans: „Hvað er það sem þú hefur í þinni hendi?“ Hann sagði: „Vöndur er það.“ [ Hann sagði: „Kasta þú honum frá þér á jörðina.“ Og hann kastaði honum frá sér. Þá varð hann að einum höggormi. Og Móses flýði undan honum. Þá sagði Drottinn til hans: „Útrétt þína hönd og gríp um hans hala.“ So rétti hann út höndina og hélt honum og hann varð að einum vendi aftur í hans hendi. „Þar fyrir munu þeir trúa að Drottinn, Guð þeirra feðra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi vitrast þér.“

Og Drottinn sagði enn aftur til hans: „Stíktu þinni hendi í barm þér.“ Og hann lét hana í sinn barm og tók hana út aftur og sjá, hún var orðin líkþrá sem snjór. Og hann sagði: „Stíktu henni í barm þér aftur. Og hann stakk henni aftur í barminn og tók hana út og sjá, þá var hún orðin aftur líka sem annað hans hold. „Sé það so að þeir vilji eigi trúa þér né heyra þína rödd við það fyrra teikn þá skulu þeir þó trúa þinni röddu við það seirna teiknið.“

En ef þeir trúa ekki þessum tveimur jarteiknum og hlýða ekki þinni röddu þá tak vatn úr ánni og aus því uppá þurrt land, so skal það vatn sem þú tókst úr ánni verða að blóði á þurru landi.“

Þá sagði Móses til Drottins: „Drottinn, ég hefi ekki hér til dags haft gott orðfæri síðan þú talaðir við þinn þénara, því eg hef þungt málfæri og em lítt talandi.“ [ Drottinn sagði til hans: „Hver hefur skapað mannsins munn eða hver hefur gjört þann dumba og daufa, sjáandi eða þann blinda? Hefi ég Drottinn ekki gjört það? So far nú héðan, ég vil vera með þínum munni og kenna þér hvað þú skalt tala.“

Móses svaraði: „Minn Drottinn, send þú hvern þú vilt senda.“ [ Þá varð Drottinn mjög reiður Móse og sagði: „Veit ég þó vel að þinn bróðir Aron af Leví slekti hann er málsnjallur. Og sjá, hann skal fara út í móti þér og nær hann sér þig þá mun hann fagna í sínu hjarta. Þú skalt tala til hans og leggja orðin í hans munn og ég vil vera með þínum og hans munni og læra ykkur hvað þið skuluð gjöra og hann skal tala vegna þín til fólksins. Hann skal vera þinn munnur og þú munt vera hans Guð og þennan vönd tak með, með hverjum að þú skalt jarteiknirnar gjöra.“

Móses gekk burt og kom aftur til síns mágs Jetró og sagði til hans: „Kæri, leyf mér að fara so ég megi koma til minna bræðra aftur sem að eru í Egyptalandi og vita ef þeir eru enn nú á lífi.“ Jetró svaraði: „Far þú í friði.“ Og Drottinn sagði til hans í Madían: „Far héðan og ferðast aftur í Egyptaland, því þeir eru dauðir sem leituðu eftir að lífláta þig.“ Móses tók sína kvinnu og sína sonu og setti þau uppá eirn asna og fór aftur til Egyptalands, berandi Guðs vönd í sinni hendi.

Og Drottinn sagði til Móse: „Sjá so til nær þú kemur aftur í Egyptaland að þú gjörir allar þessar jarteiknir fyrir faraóne sem ég hefi lagt í þínar hendur. En ég vil herða hans hjarta so að hann mun ekki láta fólkið laust. En þú skalt segja til hans: So segir Drottinn: Ísrael er minn frumgetinn sonur. Ég býð þér að þú látir minn son lausan so hann megi þjóna mér. En viljir þú það ekki þá skal ég ljósta í hel þinn frumgetinn son.“

En sem Móses kom til herbergis nokkurs á veginum kom Drottinn í móti honum og vildi deyða hann. En Sippóra tók þá eirn stein og umskar yfirhúðina á sínum syni, snart við hans fætur og sagði: „Þú ert mér eirn [ blóðbrúðgumi.“ Þá lét hann hann vera. En hún kallaði blóðbrúðguma vegna umskurnarinnar.

Og Drottinn sagði til Arons: „Far þú á eyðimörk til fundar við Mósen.“ Og hann fór og mætti honum hjá Guðs fjalli og kyssti hann. Og Móses sagði Aroni öll orð Drottins þess er hann sendi og allar þær jarteiknir sem hann bauð honum. Þeir fóru burt og söfnuðu saman öllum þeim inum elstu af Ísraelssonum. Og Aron talaði öll þau orð sem Drottinn mælti fyrir Mósen og gjörði jarteiknir fyrir fólkinu og fólkið trúði. Og sem þeir heyrðu það að Drottinn hafði vitjað Ísraelssona og séð þeirra kvöl féllu þeir fram og báðust fyrir.