Prophetinn Abdías
I.
Þetta er Abdías sýn. Svo segir Drottinn Drottinn af Edóm: Vér höfum heyrt af Drottni að þar skal koma einn boðskapur á meðal heiðinna þjóða: „Rísum upp, vér viljum stríða á móti þeim!“ Sjá, eg hefi þig lítinn á meðal heiðingjanna og mjög fyrirlitinn gjört. Drambsemi þíns hjarta hefur svikið þig af því þú bjóst í fjallaklofum, í þínum hávum slotum, og sagðir í þínu hjarta: „Hver vill mig undirleggja?“
Og þó þú færir enn so hátt upp í loftið sem örn og gjörðir þitt hreiður á millum stjarnanna, samt þá vil eg þó kollvarpa þér niður, segir Drottinn. Já að þjófar og ræningjar falla yfir þig á náttarþeli, hvernin muntu þá að öngu verða? Já þeir skulu nóg stela og nær þeir vínberjalesarar koma yfir þig þá skulu þeir ekki par eftir hjá þér láta. Ó hversu þeir skulu þá rannsaka Esaú og leita eftir hans fjársjóðum! Allir þínir trúnaðarmenn skulu þig af landinu reka og það fólk sem þú helst trúðir skal þig svíkja og yfirfalla og þeir sem eta þitt brauð skulu þig forráða áður þú veist af.
Hvað gildir, segir Drottinn, eg vil á þeim tíma gjöra vísindamennina í Edóm til einkis og hyggindin á fjallinu Esaú. Því að þínir sterku í Teman skulu örvæntast so að þeir skulu allir með morði forganga upp á Esaúfjalli sökum þeirra ofríkis sem þeir gjörðu sínum bróður Jakob á þeim tíma sem þú stóðst í móti honum og þá þeir annarlegu burt færðu hans her fangaðan og þeir útlensku inndrógu um hans borgarhlið og lögðu hluti yfir Jerúsalem. Þá varstu líka sem einn af þeim. Þar fyrir skaltu verða til allrar skammar og vera í eyði ævinlega.
Þú skalt ekki hér eftir so sjá lyst á þínum bróður í hans eymdartíð og þú skalt ekki gleðja þig yfir Júdabörnum á þeirra mótgangstíð. Og þú skalt ekki tala so drambsamlega með þínum munni í þeirra hryggðartíð. Þú skalt ekki draga inn um borgarhliðin míns fólks á þeirra eymdartímum. Þú skalt ekki gleðja þig yfir þeirra óförum í þeirra sorgartíð, þú skalt ekki senda í móti hans herliði í hans mótgangstíð. Þú skalt ekki standa á gatnamótum til að vega þá sem flýja frá honum. Þú skalt ekki fordjarfa þá sem afgangs eru á hans sorgartíð.
Því dagur Drottins er nálægur yfir öllum heiðingjum. Líka sem þú hefur gjört so skal þér endurgjaldast og so sem þú hefur forþénað so skal þér líka það sama í koll koma. Því að líka sem þér hafið drukkið á mínu heilögu fjalli so skulu allir heiðingjar daglega drekka. Já þeir skulu af drekka og uppsvelgja að það skal vera so sem þar hafi aldrei neitt verið.
En þar skulu þó nokkrir vera frelsaðir á Síonsfjalli og þeir skulu vera einn helgidómur. Og Jakobs hús skal þá eignast sem þá eignuðu sér áður. Og hús Jakobs skal vera einn eldur og Jósefs hús einn logi en Esaú hús einn hálmur. Hann skulu þeir uppkveikja og uppbrenna so að þar skal ekkert eftir vera af Esaú húsi. Því að Drottinn hefur so sagt.
Og þeir í móti suðrinu skulu eignast fjallbyggðir Esaú og þeir sem í dölunum eru skulu eignast Philisteos. Já, þeir skulu eiga Efraíms merkur og Samarie grund og Benjamín Gíleaðsfjall. Og þeir herteknu af her Israelisbarna, hverjir að eru á meðal Cananeos allt til Sarfat og þeir útreknu af Jerúsalem sem að eru af Sefarat þeir skulu byggja þá staðina sem eru nú í mót suðri. Og frelsarar skulu koma á fjallið Síon að dæma Esaú fjallbyggðir. So skal ríkið verða Drottins.
Ending prophetans Abdías