II.

Sundurdreifarinn skal draga upp í móti þér og setjast um þína kastala. En tilreittu strætin vel og bú þig það allra besta og efl styrk það mesta þú kannt. Því að Drottinn skal bitala Jakobs drambsemi so sem Ísraels drambsemi því reifararnir skulu rupla þá og fordjarfa þeirra vínkvistu.

Hans sterku skildir eru rauðir, hans stríðsmenn eru sem purpuri, hans vagnar leiftra sem eldur í orrustunni. Þeirra spjót bjúa, vagnarnir glamra á götunum og hrikta á strætunum. Þeir lýsa sem blys og fara til samans sem eldingar.

En hann mun þenkja á sína magtarmenn. Þá skulu þeir sömu falla hvert sem þeir snúa sér og þeir munu flýta sér til múrveggjanna og til vígis þar þeir mega örugglega standa. En portin hjá vatninu skulu þó verða upplátin og tignarhöllin skal niður falla. Drottningin skal hertekin í burt flytjast og hennar jungfrúr skulu sýta sem dúfur og berja sig á sín brjóst. Því að Níníve er líka sem dammur fullur af vatni en það skal burt renna. Þá skulu þeir kalla: „Standið við, standið við!“ En þar skal enginn snúa sér aftur.

So rænið nú silfri og rænið gulli því þar er ógrynni liggjanda fjár og allra handa kostulegra dýrgripa. En nú hlýtur hún með öllu upp að lesast og ruplast svo hennar hjarta skal bleyðast. Knén veiklast, allar lendar bifast og öll andlit skulu so föl sem pottur.

Hvar er nú leónanna heimilið og grashagar leónshvölpanna, þar sem leónið og leóninann ganga með sínum ungu hvölpum og enginn þorir að leggja par til þeirra? Heldur rænti leónið nóg fyrir sína unga og drap niður handa sinni leóninnu. Hann uppfyllti sínar holur með herfang og sitt inni með þeim sem hann hafði í sundur rifið.

Sjá þú, eg vil til við þig, segir Drottinn Guð Sebaót, og uppkveikja reyk í þínum vögnum og sverðið skal eta þína ungu leóna og eg vil gjöra enda á þínu ráni á jörðu so menn skulu ekki heyra raust þinna sendiboða héðan af.