XXVI.
Og það gjörðist þá Jesús hafði lyktað öll þessi orð sagði hann til sinna lærisveina: [ „Þér vitið að eftir tvo daga verða páskar. Og Mannsins son mun ofurseljast að hann krossfestur verði.“ Þá samansöfnuðust kennimannahöfðingjar, skriftlærðir og öldungar lýðsins í höll kennimannahöfðingjas, þess er Kaífas hét, og samsettu ráð hvernin þeir gæti með slægð gripið Jesú og líflátið. [ En þeir sögðu: „Eigi á hátíðardeginum so að eigi verði upphlaup með fólkinu.“
En þá Jesús var nú í Bethania, í húsi Símonar vanheila gekk kona að honum, hafandi buðk dýrlegs smyrslavats og hún hellti því yfir höfuð honum er hann sat við borðið. [ En er það sáu hans lærisveinar þykktust þeir við og sögðu: „Til hvers er þessi spilling? Þetta vatn hefði mátt seljast fyrir mikið og gefast fátækum.“ En er Jesús fornam það sagði hann til þeirra: „Hvað eru þér ýfnir við þessa konu? Því að gott verk gjörði hún á mér. Fátæka hafi þér jafnan hjá yður en mig hafi þér eigi alla tíma. Það hún hellti sínu smyrslavatni yfir minn líkama það gjörði hún mér til greftrunar. Sannlega segi eg yður: Hvar helst þetta evangelium prédikað verður í öllum heimi mun sagt verða í hennar minning hvað hún hefur gjört.“
Þá gekk burt einn af tólf, sá er Júdas Ískaríot hét, til kennimannahöfðingja og sagði til þeirra: [ „Hvað vilji þér gefa mér og mun eg selja yður hann?“ En þeir buðu honum þrjátígi silfurpeninga. Þaðan í frá leitaði hann lægs það hann sviki hann.
En á fyrsta sætubrauðsdegi gengu lærisveinarnir til Jesú og sögðu til hans: [ „Hvar vilt þú að vér tilreiðum þér páskalambið að eta?“ En Jesús sagði: „Fari þér í borgina til nokkurs og segið honum: Meistarinn lætur segja þér: Minn tími er í nánd, hjá þér vil eg páska halda með lærisveinum mínum.“ Og lærisveinarnir gjörðu so sem Jesús hafði þeim boðið og reiddu til páskalambið.
En að kveldi komnu setti hann sig til borðs með tólf sínum lærisveinum. Og er þeir átu sagði hann: „Sannlega segi eg yður að einn yðar mun svíkja mig.“ Þeir hryggðust mjög við það og tóku allir til að segja: „Er eg það nokkuð, herra?“ En hann svaraði og sagði: [ „Sá er hendinni drepur í fatið með mér, sá mun mig forráða. Mannsins son mun að sönnu fara so sem skrifað er af honum en vei þeim manni fyrir hvern Mannsins son mun forráðinn verða! Betra væri honum að sá sami maður hefði aldrei fæddur verið.“ Þá svaraði Júdas, sá er forréð hann, og sagði: „Er eg það nokkuð, rabbí?“ Hann sagði til hans: „Þú sagðir það.“
En þá þeir neyttu tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og braut það, gaf sínum lærisveinum og sagði: [ „Takið og etið, þetta er mitt hold.“ Hann tók og kaleikinn, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: „Drekkið allir hér út af. Það er mitt blóð ins nýja testamentis, hvört eð úthellist fyrir marga til syndanna fyrirgefningar. En eg segi yður að eg mun eigi héðan í frá drekka af þessum vínviðarins ávexti allt til þess dags er eg mun drekka það nýtt með yður í míns föðurs ríki.“ Og að lofsöngnum sögðum gengu þeir út í fjallið Oliveti.
Þá sagði Jesús til þeirra: [ „Á þessari nóttu munu þér allir hneykslast á mér. Því að skrifað er: [ Hirðirinn mun eg slá og sauðir hjarðarinnar munu í sundur tvístrast. En eftir það eð eg er upprisinn mun eg ganga fyrir yður í Galilea.“ Pétur svaraði og sagði til hans: [ „Og þó allir skammfyllist við þig þá skal eg þó aldrei skammfyllast þér.“ Jesús sagði til hans: „Sannlega segi eg þér að á þessari nótt áður en haninn galar muntu afneita mér þrisvar.“ Pétur sagði til hans: „Einnin þó mér byrjaði með þér að deyja skyldi eg eigi neita þér.“ Slíkt hið sama sögðu og allir lærisveinarnir.
Jesús kom þá með þeim í það gerðistún sem kallaðist Getsemane og sagði til sinna lærisveina: [ „Sitjið hér á meðan eg fer þangað og biðst fyrir.“ Og hann tók með sér Petrum og tvo sonu Zebedei, tók síðan til að hryggvast og harmþrunginn að verða. Hann sagði þá til þeirra: „Hrygg er sála mín allt til dauða. Blífið hér og vakið með mér.“ Og hann gekk litlu eina fram lengra, féll fram á sína ásjónu biðjandi og sagði: [ „Faðir minn, ef mögulegt er þá líði af mér kaleikur þessi. En eigi so sem eg vil heldur so sem þú vilt.“ Og hann kom til sinna lærisveina og fann þá sofandi og sagði til Péturs: „Gatstu ekki eina stund vakað með mér? Vaki þér og biðjið so að þér fallið eigi í freistni. Andinn er að sönnu reiðubúinn en holdið er breyskt.“
Í annað sinn gekk hann enn burt og bað, segjandi: „Faðir minn, ef þessi kaleikur má eigi af mér líða utan eg drekki hann, þá verði þinn vilji.“ Og hann kom aftur og fann þá sofandi og þeirra augu voru full af svefni. Og hann lét þá kyrra og gekk í burt aftur og bað í þriðja sinn, segjandi inu sömu orð. Þá kom hann til sinna lærisveina og sagði til þeirra: „Ó já, vilji þér nú sofa og hvílast. Sjáið, sú stund tekur að nálgast að Mannsins son mun ofurseljast í syndugra hendur. Standið upp, förum vær. Sjáið, hann tekur að nálgast sá er mig forræður.“
Og sem hann var þetta að tala, sjá, að Júdas, einn af tólf, kom og með honum flokkur mikill með sverðum og stöngum, útsendir af kennimannahöfðingjum og öldungum lýðsins. [ En sá er hann forréð gaf þeim teikn og sagði: „Hvern helst eð eg kyssi, sá er það, haldið honum.“ Og jafnsnart gekk hann að Jesú og sagði: „Heill sért þú, rabbí“ og kyssti hann. En Jesús sagði til hans: „Minn vinur, hvar til komst þú hingað?“ Þá gengu þeir þangað að, lögðu hendur á Jesúm og gripu hann.
Og sjá, að einn út af þeim sem með Jesú voru rétti út höndina, rykkti sínu sverði og sló þjón kennimannahöfðingjans og hjó af hans eyra. Þá sagði Jesú til hans: [ „Snú þú sverði þínu aftur í sína slíður. Því að hverjir sem sverðið taka þeir munu fyrir sverði farast. Eður meinar þú að eg kunni ekki að biðja föður minn að hann skikkaði mér meir en tólf legiom engla? Eða hvernin uppfyllast þá Ritningarnar? So byrjar að ske skuli.“
Á þeim tíma sagði Jesús til fólksins: „Þér eruð útgengnir líka sem til annars spillvirkja með sverðum og stöngum að höndla mig. Daglega hefi eg þó hjá yður setið og kennt í musterinu og þér hafið mig eigi gripið. En allt þetta er skeð so að uppfylldust Ritningar spámannanna.“ Þá forlétu hann allir lærisveinarnir og flýðu. [
En þeir sem Jesúm höfðu gripið leiddu hann til Kaífas kennimannahöfðingja, hvar eð skriftlærðir og öldungar voru samankomnir. En Pétur fylgdi honum eftir langt í burt frá allt í forbyrgi kennimannahöfðingjans og gekk inn, settti sig hjá þénörunum so að hann sæi hver endir á yrði.
En kennimannahöfðingjar og allt ráðið leituðu ljúgvitna í gegn Jesú svo að þeir gætu selt hann í dauðann og fundu engin. [ Og þó að mörg falsvitni gengi fram að þá fundu þeir engin. En að síðustu gengu tveir falsvottar fram og sögðu: „Þessi sagði: Eg get niðurbrotið musteri Guðs og eftir þrjá daga það upp aftur byggt.“
Kennimannahöfðinginn stóð upp og sagði til hans: „Svarar þú öngu til þessa sem þeir vitna í móti þér?“ En Jesús þagði. Kennimannahöfðinginn ansaði og sagði til hans: „Eg særi þig fyrir lifanda Guð að þú segir oss ef þú ert Kristur, sonur Guðs.“ Jesús sagði: „Þú sagðir það. Þó segi eg yður: [ Hér eftir mun það ske að þér munuð sjá Mannsins son sitja til hægri handar Guðs kraftar og komanda í skýjum himins.“
Þá reif kennimannahöfðinginn sín klæði og sagði: [ „Hann guðlastaði. Hvað þurfum vær vitnanna við? Sjá, þér heyrðuð nú sjálfir hans guðlastan. Hvað virðist yður?“ Þeir svöruðu og sögðu: „Hann er dauðans sekur.“ Þá spýttu þeir í hans ásján og börðu hann með hnefum en aðrir gáfu pústra í hans andlit og sögðu: „Spá þú oss, Kristur, hver sá er sem þig sló!“
En Pétur sat út í fordyrinu. Og ambátt ein gekk að honum og sagði: „Og þú vart með þessum Jesú af Galilea.“ En hann neitaði fyrir öllum og sagði: [ „Eg veit eigi hvað þú segir.“ En sem hann gekk út um dyrnar leit hann ein önnur og sagði til þeirra sem þar voru: „Þessi var og með Jesú af Naðsaret.“ Og í annað sinn neitaði hann með eiði og sagði: „Ei þekki eg þann mann.“ Og innan skamms gengu þeir að sem þar stóðu og sögðu til Petro: „Að sönnu ertu og einn af þeim því að þitt mál opinberar þig.“ Þá tók hann að formæla sér og sverja að eigi þekkti hann þann mann. Og jafnsnart gól haninn. Og þá minntist Pétur orða Jesú er hann sagði til hans: „Áður en haninn galar muntu neita mér þrisvar.“ Og hann gekk út og grét beisklega.