X.
Og hann kallaði tólf sína lærisveina til sín og gaf þeim magt yfir óhreina anda að þeir ræki þá út og að lækna alls kyns sóttir og öll meinlæti.
En þeirra tólf postula nöfn eru þessi: [ Fyrstur er Símon sá er kallaðist Pétur og Andreas bróðir hans, Jakob son Zebedei og Jóhannes hans bróðir, Philippus og Bartholomeus, Tómas og Matteus tollheimtari og Jakob Alpheison, Lebbeus er að viðurnefni hét Taddeus, Símon Cananeus og Júdas Ískaríot sá er forréð hann.
Þessa tólf útsendi Jesús, bjóðandi þeim og sagði: [ „Farið ei á götu heiðinnar þjóðar og gangið eigi inn í borgir samverskra manna heldur gangið til þeirra fortapaðra sauða af húsi Ísraels. En farið út, prédikið og segið það himnaríki er nálægt. Læknið sjúka, hreinsið líkrþá, uppvekið dauða, útrekið djöfla. Fyrir ekkert hafi þér það fengið, gefið það og út fyrir ekkert. Þér skuluð eigi gull eða silfur né peninga hafa í lindum yðar né tösku til vegar, engin skóklæði, ei tvo kyrtla, öngvan staf. Því að verður er verkmaðurinn sinnar fæðu.
En í hverja borg eður kauptún þér inngangið þá spyrjið að hver í henni verðugur sé og þar hjá þeim sama blífið þar til þér farið burtu þaðan.
En nær þér inngangið í húsið þá heilsið því og ef það sama hús er þess verðugt mun yðar friður koma yfir það en ef það er eigi verðugt þá mun yðar friður til yðar aftur hverfa. [
Og hver hann meðtekur yður eigi og eigi heyrir yðvari ræðu gangið út af því húsi eða borg og hristið duftið af yðrum fótum. Sannlega segi eg yður að bærilegra mun verða landinu Sodome og Gomorre á dómsdegi heldur en þeirri sömu borg.
Sjáið, eg sendi yður so sem sauði á millum varga. [ Fyrir því verið forsjálir so sem höggormar og einfaldir sem dúfur. En varið yður fyrir þeim mönnum því að þeir munu ofurselja yður fyrir sín ráðhús og í sínum samkunduhúsum munu þeir yður strýkja. Og þér munuð leiddir verða fyrir kónga og landshöfðingja fyrir míns nafns sakir til vitnisburðar yfir þá og yfir heiðinn lýð.
En nær eð þeir framselja yður verið ei hugsjúkir hvernin eður hvað þér skuluð tala því að það mun yður á þeirri stundu gefið verða hvað þér eigið að tala. [ Því að þér eruð eigi þeir sem tala heldur andi yðvars föðurs, sá er talar fyrir yður.
En einn bróðir mun selja annan í dauða og faðir soninn og niðjarnir munu upp rísa í móti foreldrunum og þeim fjörræði veita og þér verðið að hatri hafðir af öllum mönnum fyrir míns nafns sakir. En hver hann er staðfastur allt til enda sá mun hólpinn verða.
En nær eð þeir ofsækja yður í einni borg þá flýið í aðra. Sannlega segi eg yður að þér munuð eigi fullkomnað geta borgirnar í Ísrael þar til að Mannsins sonur hann kemur. Eigi er lærisveinninn yfir meistaranum og ekki þjóninn yfir sínum herra. Nægist lærisveininum að hann sé so sem hans meistari og þjóninum sem hans herra. Ef þeir hafa húsföðurinn Beelsebúb kallað, hve miklu meir munu þeir þá hans heimamenn kalla? Af því óttist þá ekki.
Ekkert er so hulið að eigi verði augljóst og eigi so leynt að eigi vitist. Hvað eg segi yður í myrkri það talið í ljósi og hvað þér heyrið í hljóði það prédikið á ræfrunum.
Hræðist eigi þá sem líkamann aflífa og sálina geta eigi líflátið heldur hræðist þann framar sem sálu og lífi getur tortýnt til helvítis. Kaupast eigi tveir tittlingar fyrir pening? Þó fellur eigi einn af þeim á jörð án yðvars föðurs vild. Svo eru og einnin öll yðar höfuðhár talin. Fyrir því óttist eigi, þér eruð mörgum tittlingum betri.
Fyrir því hver hann meðkennir mig fyrir mönnum þann mun eg meðkenna fyrir mínum föður sem á himnum er. [ En hver hann afneitar mér fyrir mönnum þeim mun eg afneita fyrir mínum föður sem á himnum er.
Þér skuluð eigi meina að eg sé kominn frið að senda á jörðina. [ Eigi kom eg frið að senda heldur sverð. Því að eg em kominn til að ýfa manninn í móti föður sínum og dótturina í gegn móður sinni og sonarkonuna í gegn móður manns síns og mannsins óvinir eru hans eigin hjú.
Hver hann elskar föður og móður meir en mig sá er mín eigi verðugur. Og hver hann elskar son eður dóttur yfir mig sá er mín eigi verðugur. Og hver hann tekur eigi sinn kross á sig og fylgir mér eftir sá er mín eigi verðugur. Hver eð finnur sitt líf sá mun týna því og hver sínu lífi týnir minna vegna hann mun það finna.
Hver hann meðtekur yður sá meðtekur mig og hver mig meðtekur hann meðtekur þann sem mig sendi. [ Hver hann meðtekur spámann í spámanns nafni sá fær spámannslaun. [ Hver hann meðtekur réttlátan í réttláts nafni sá fær réttláts laun. Og hver hann gefur einum af þessum vesalingum kaldan vatsdrykk að drekka í lærisveins nafni, sannlega segi eg yður að það mun eigi ólaunað vera.“