XII.

Hann tók og til að tala við þá í eftirlíkingum: [ „Maður plantaði víngarð og girti garð um og gróf þar vínþrúgu og byggði þar upp turn og skipaði hann með víngarðsmenn og ferðaðist langt í burt. Og er tími var til sendi hann þjón sinn til víngarðsmannanna að hann meðtæki af þeim út af víngarðsins ávexti. En þeir handtóku hann og börðu og létu erindislausan í burt fara. Og enn aftur sendi hann annan þjón til þeirra og hans höfuð lestu þeir grjóti og slepptu spottuðum í burt. Og þá enn aftur sendi hann annan og þann aflífuðu þeir og fleiri aðra, suma hýddu þeir en suma drápu þeir.

Hann hafði þá enn eftir einn sinn kærastan son og þann sendi hann seinastan til þeirra og sagði: Þeir munu feila sér fyrir syni mínum. En víngarðsmennirnir sögðu sín á milli: Þessi er erfinginn. Komi þér, vegum hann so að vor verði arftakan. Og þeir höndluðu hann og aflífuðu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn. En hvað mun nú herra víngarðsins gjöra til? Hann mun koma og tortýna víngarðsmönnum og gefa víngarðinn öðrum. Hafi þér eigi lesið þessa skrift: [ Þann stein er byggendur forlögðu hann er orðinn höfuð hyrningar. Af Drottni er þetta gjört og er undarlegt fyrir vorum augum?“ Og þeir leituðu við að handtaka hann en hræddust þó lýðinn því að þeir fundu það hann sagði þessa eftirlíking til þeirra. Þeir forlétu hann og gengu í burt.

Og þeir sendu til hans nokkra af Phariseis og Herodis þénara að þeir veiddu hann í orðum. [ Þeir komu og sögðu til hans: „Vér vitum að þú ert sannsögull og skeytir eigi neinum. Því að þú fer ekki eftir mannvirðingu heldur kennir þú Guðs götu með sannleika. Hvert leyfist oss að gefa keisaranum skatt eður eigi?“ Hann vissi þeirra undirhyggju og sagði til þeirra: „Hví freisti þér mín? Færið mér peninginn að eg sjái hann.“ Og þeir fengu honum einn. Þá sagði hann til þeirra: „Hvers er þessi mynd og innskrift?“ Þeir sögðu honum: „Keisarans.“ Jesús svaraði og sagði til þeirra: „Gefið þá keisaranum hvað keisarans er og Guði það Guðs er.“ Og þeir undruðust yfir honum. Þá komu og Saducei til hans, þeir eð segja upprisuna ekki vera, spurðu hann að og sögðu: „Meistari, Moyses skrifaði oss að ef nokkurs bróðir létist og hefði eiginkonu eftir og léti engin börn eftir sig þá á bróðir hans að meðtaka hans eignarkonu og uppvekja sínum bróður sæði. Nú voru þar sjö bræður og hinn fyrsti tók sér eiginkonu og er andaður, látandi eigi sæði eftir. Og sá annar tók hana og andaðist, lét og eigi sæði eftir. Og líka hinn þriðji og einnin þeir sjö tóku hana allir og létu eigi sæði eftir. Seinast af öllum andaðist og konan. En í upprisunni þá er þeir rísa upp, hvers þeirra eiginkona þá verður hún? [ Því að þeir sjö höfðu hana til eiginkonu.“ Jesús svaraði og sagði til þeirra: „Er eigi so að þér villist, vitandi ei Ritningarnar og eigi heldur Guðs kraft? Því að þá þeir rísa upp af dauða kvongar þeir eigi né láta sig kvonga heldur eru þeir sem englar Guðs á himnum. En hafi þér eigi lesið í Moyses bók af framliðnum það þeir munu upp rísa? Hvernin sagði Guð til hans í skógarrunninum er hann sagði: [ Eg em Guð Abrahams og Guð Ísaaks og Guð Jakobs? Eigi er hann Guð dauðra heldur Guð lifendra. Af því villist þér mjög.“

Og einn af skriftlærðum gekk að, sá er heyrt hafði þá spyrjast á, sá og það að hann hafði svarað þeim vel, og spurði hann að: [ „Hvert er það æðsta boðorð af öllum?“ En Jesús svaraði honum: „Það er það æðsta boðorð af öllum: Heyr þú, Ísrael, Drottinn Guð vor er einn Guð. Og elska skaltu Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllu þínu hugskoti og af öllum krafti þínum. Þetta er hið æðsta boðorð. En annað er og þessu líkt: Elska þú náunga þinn sem sjálfan þig. Eigi eru þar önnur boðorð þessum meiri.“

Og hinn skriftlærði sagði til hans: „Meistari, í sannleika þá sagðir þú vel. Því að einn er Guð og enginn er þar annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta og af öllu hugskoti, af allri sálu og af öllum kröftum og að elska náunga sinn sem sjálfan sig, það er öllum brennifórnum meira og offri.“ En er Jesús sá að hann svaraði víslega sagði hann til hans: „Eigi ertu langt frá Guðs ríki.“ Og enginn þorði þá að spyrja hann meir.

Jesús svaraði og sagði er hann kenndi í musterinu: [ „Hvernin segja skriftlærðir Christum vera Davíðs son? En Davíð segir sjálfur af helgum anda: Drottinn sagði mínum Drottni: Sit þú til minnar hægri handar þar til eg legg þína óvini til skarar þinna fóta. Þar nefnir Davíð sjálfur hann sinn Drottin. Hvernin er hann þá sonur hans?“ Og margt af fólkinu heyrði hann gjarnan.

Og í sinni kenningu sagði hann til þeirra: [ „Varið yður við skriftlærðum, þeim sem ganga í síðum klæðum og heilsast á torgum og hafa hin fremstu sæti að kveldverðum, hverjir í sig gleypa ekkna hús undir hylmingu langrar bænar. Þeir munu og öðlast þess þyngra glötunardóm.“

Og er Jesús sat gegnt ölmusuörkinni sá hann hvernin fólkið varpaði peningum í ölmusuörkina og að margir ríkir köstuðu miklu. [ En þá er ein ekkja fátæk kom lét hún tvo skarfa inn, það er einn pening. Hann kallaði sína lærisveina til sín og sagði þeim: „Sannlega segi eg yður að þessi fátæka ekkja lét meir í ölmusuörkina en allir aðrir létu þar inn. Því að allir létu af því inn er þeim var afgangs en þessi lét af volað sinni allt hvað hún hafði og sína björg alla.“