XI.

Það skeði eð hann var í nokkrum stað að biðjast fyrir. [ Og er hann gaf upp þá sagði einn af hans lærisveinum til hans: „Lávarður, kenn þú oss að biðja líka sem Jóhannes kenndi sínum lærisveinum.“ Hann sagði þá til þeirra: [ „Nær þér biðjið segið so: Faðir vor, sá þú ert á himnum, helgist nafn þitt. Tilkomi ríki þitt. Verði þinn vilji so á jörðu sem á himnum. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vær fyrirgefum vorum skuldunautum. Og leið oss eigi í frestni heldur leys oss frá illu.“

Hann sagði til þeirra: [ „Hver yðar sem hér hefur vin og fer til hans um miðnætti og segir honum: Vinur, lána mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn af leið til mín og eg hefi eigi það eg megi fram fyrir hann setja. Og hinn sem fyrir innan er svarar: Gjör mér eigi ónáð því dyr eru luktar og börn mín eru í svefnhúsi hjá mér og eigi get eg upp staðið að fá þér þau. Eg segi yður: Ef hann stendur eigi upp og fær honum þau fyrir það að hann er vinur hans, þó mun hann fyrir sakir hans leiðulegrar brekunar upp standa og fá honum so mikið sem hann þarf.

Og eg segi yður: [ Biðjið og yður mun gefast, leitið að og munu þér finna, knýið á og mun fyrir yður upplokið. Því að hver eð biður hann mun öðlast, hver eð leitar hann finnur og hver eð áknýr fyrir honum lýkst upp. En hver faðir er sá af yður ef sonurinn biður um brauð að hann gefi honum stein þar fyrir? Eða biðji hann um fisk gefur hann honum nokkuð höggorm fyrir fisk? Eða ef hann biður um egg að hann rétti að honum flugorm þar fyrir? Því ef þér sem vondir eruð kunnið góðar gjafir að gefa sonum yðar, miklu meir þá mun faðir yðar af himnum gefa þeim heilagan anda er hann biðja.“

Og hann rak út djöful þann er dumbi var. [ Og það skeði er djöfullinn var útfarinn að hinn mállausi talaði og fólkið undraðist það. En nokkrir af þeim sögðu: „Fyrir Belsebúb djöflahöfðingja þá drífur hann djöfla út.“ Aðrir freistuðu hans og sóttu að honum eftir teikni af himni. En er hann sá þeirra hugrenningar sagði hann til þeirra: [ „Hvert ríki sem í sjálfu sér er sundurþykkt það mun eyðast og hvert hún mun yfir annað hrapa. Og ef andskotinn er í sjálfum sér sundurþykkur hvernin má hans ríki þá standast, fyrst þér segið mig fyrir Belsebúb útreka djöfla? Nú ef eg á fyrir Belsebúb djöfla út að reka fyrir hvern rekast þeir þá út af sonum yðrum? Fyrir því verða þeir og yðrir dómendur. En ef eg rek út djöfla meður Guðs fingri, að sönnu kemur þá Guðs ríki til yðar.

Nær eð sterkur, hertygjaður maður varðveitir sitt fordyri þá er allt með mak hvað hann á. En þá er annar honum yfirsterkari kemur og yfirvinnur hann og sviptir hann öllum herklæðum á hver hann treysti og sundurskiptir so hans herfangi. Hver hann er ei með mér, sá er í móti mér og hver hann dregur eigi saman með mér, sá sundurdreifir.

Nær óhreinn andi fer af manninum út ráfar hann um þurra staði, leitar að hvíld og finnur eigi. [ Þá segir hann: Eg vil hverfa aftur í hús mitt hvaðan eg fór. Og er hann kemur finnur hann það af sóplimum hreinsað. Þá fer hann og tekur með sér sjö aðra anda honum verri og er þeir eru þar innkomnir byggja þeir þar og verður so þess manns hið síðara verra hinu fyrra.“

En það skeði er hann talaði þetta hóf nokkur kona upp sína rödd og sagði til hans: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir!“ En hann sagði: „Hvað um það. Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita þau.“

En er fólkið flykktist þar að tók hann að segja: [ „Kynslóð þessi er ein vond kynslóð. Hún girnist teikn. Og henni gefst ekkert teikn nema teikn Jona spámanns. Því að líka sem Jónas var teikn Níníveborgar so mun Mannsins son verða kynslóð þessari. Drottning suðuráttar mun upprísa á efsta dómi með mönnum þessarar kynslóðar og fordæma þá því að hún kom af yðstum takmörkum jarðar að heyra speki Salómons og sjái, hér er meir en Salómon. Menn Níníveborgar munu og upprísa á efsta dómi meður þessari kynslóð og munu hana fordæma því að þeir gjörðu iðran viður prédikan Jonas og sjáið, hér er meir en Jonas. Enginn tendrar ljósið og setji það í leyni eða undir mæliask heldur á ljósastjakann so að þeir sem innganga sjái ljósið. [ Ljós þíns líkama er augað. Því ef þitt auga er einfalt so er þinn líkami allur skær. En ef auga þitt er strákur þá er einnin þinn líkami myrkur. Því sjá so til að ljós það sem í þér er sé eigi myrkur. Nú ef allur líkami þinn er skær, eigi hafandi nokkurn myrkvan part, so blífur hann allur skær og mun upplýsa þig svo sem leiftran eldingar.“

Og er hann var slíkt að mæla þá bað hann nokkur Phariseus að hann æti miðdagsverð hjá sér. [ Hann gekk inn og setti sig til borðsins. En er farísearinn sá það undraðist hann er hann þvo sér eigi fyrir máltíðina. En Drottinn sagði til hans: [ „Þér farísei, hreinsið nú hið ytra, bikara og matdiska, en yðvart ið innra er fullt með rán og illsku. Þér þussar, er eigi so að sá eð gjörði ið ytra hann gjörði einnin hið innra? En hvað um það, gefið þó ölmusu af því sem til er og sjáið að þá er yður allt hreint.

Vei yður Phariseis, sem tíundið myntugras og ruthu og allt kálgresi og sneiðið svo hjá dómi Guðs og réttlæti! Því þetta byrjar að gjöra en hitt eigi eftir að skilja.

Ve sé yður, Phariseis, sem elskið hin fremstu tignarsæti í samkunduhúsum og kveðjur á torgum!

Vei sé yður lögspekingum, Phariseis og hræsnurum, því þér eruð sem hulin leiði framliðinna yfir hverjum að menn ganga og þekkja þau eigi!“

Þá svaraði nokkur lögspekinga og sagði til hans: „Segir þú þetta einnin til háðungar við oss?“ En hann sagði: [ „Og yður lögspekingum sé vei, því þér hlaðið á menn þeim byrðum er þeir geta ei borið og sjálfir þér snertið eigi þær byrðar með einum fingri yðar!

Vei yður því að þér uppbyggið spámannaleiðin en feður yðrir líflétu þá! Að sönnu þá vitni þér það og samsinnið so verkum yðvara feðra því að þeir aflífuðu þá en þér uppbyggið leiði þeirra.

Fyrir því segir spekin Guðs: Eg mun senda til þeirra spámenn og postula og suma af þeim munu þeir deyða en suma ofsóknum sækja so að krefjist af þessari kynslóð blóð allra spámanna því úthellt hefir verið frá grundvallan veraldar, allt frá blóði Abels og til blóðs Zacharie hver eð lést í milli altaris og musterisins. [ Að vísu segi eg yður að það mun krefjast af þessari kynslóð.

Ve sé yður lögspekingum, því þér berið lykil viskunnar en komist þó eigi sjálfir þar inn og hamlið þeim eð þar vilja innganga.“ [

En þá hann hafði þvílíkt til þeirra talað tóku lögspekingar til og Pharisei þunglega að þrengja að honum og vélsamlega hann að mörgu aðspyrja, veitandi honum umsát og leituðu við að jaga það nokkuð af hans munni er þeir mættu um hann kylja.