VIII.
Ó að eg mætta finna þig þar úti, minn bróðir, sem að sýgur minnar móður brjóst og eg mætti kyssa þig so enginn hæddi þig! Eg vil taka þig og leiða þig í minnar móður hús. Þar skaltu læra mig, þar vil eg gefa þér að drekka af krydduðu víni og af sætleika minna granataepla. Hans vinstri hönd liggur undir mínu höfði og hans hægri hönd umfaðmar mig.
Eg særi yður, þér dætur Jerúsalem, að þér hverki uppvekið né ónáðið mína unnustu þar til hana sjálfa lystir. Hver er sú sem uppfer af eyðimörku og styðst við sinn vin? Undir eplatrénu uppvakta eg þig þar þín móðir hafði fætt, þar sem hún lá og þú, hún sem hafði uppalið þig.
Settu mig á þitt hjarta sem eitt innsigli og upp á þinn arm sem annað innsigli. Því kærleikurinn er svo sterkur sem dauði og vandlætið svo fast sem helvíti. Þess glæður eru brennandi sem Drottins [ eldur so að mörg vötn kunna ekki að slökkva kærleikann né straumarnir að kefja hann. Þó að maður vildi gefa öll auðæfi síns húss fyrir kærleikann þó væri það allt ekki par vert.
Vor systir er lítil og hefur engin brjóst. Hvað skulu vér gjöra vorri systur nær menn vilja tala til hennar? Er hún einn múr, þá viljum vér byggja vígskörð af silfri þar upp á. Er hún einar dyr, þá viljum vér gjöra hana fast með sedrustré. Eg em einn múr og mín brjóst eru sem turn. Þar er eg orðin fyrir hans augum líka sem sá eð friðinn finnur.
Salómon hefur einn víngarð í Baal Hamon. Hann gaf varðhaldsmönnunum víngarðinn að hver af þeim skyldu færa honum fyrir hans ávöxtu þúsund silfurpeninga.
Minn víngarður er fyrir mér. Þér Salómon, heyrir til þúsund en varðhaldsmönnunum tvö hundruð með hans ávexti.
Þú sem býr í aldingarðinum, lát mig heyra þína raust, vinirnir hlýða þar upp á.
Flý þú, minn vin, og vert sem ein hind eða sem einn ungur hjörtur á jurtrahæðunum.
Endir á lofkvæði Salomonis