II.

En Jósúa son Nún sendi leynilega tvo njósnarmenn af Sitím og sagði: „Farið og skoðið Jeríkó.“ Þeir fóru af stað og komu inn í hús einnrar skækju sem hét Rabah og tóku sér þar herbergi.

Þá var þetta sagt kónginum af Jeríkó: „Sjá, á þessari nóttu eru komnir hingað menn af Ísraelssonum að skoða landið.“ Þá sendi Jeríkó kóngur boð til Rahab og lét segja henni: „Sel fram þá menn sem komnir eru til þín í þitt hús því þeir eru komnir hingað að njósna um landið.“

En kvinnan fór að fela báða mennina og sagði: „Hér komu menn inn til mín en eg vissa eigi hvaðan þeir voru. Og sem myrkt var orðið og móti því að borgarhliðin skyldu aftur látast þá struku þeir út so eg veit ekki hvert þeir sneru. Farið sem skjótast eftir þeim, þá megi þér ná þeim.“ En hún lét þá stíga upp á þakið og faldi þá undir hörhálminum sem hún hafði breitt á þakið. En mennirnir sóttu eftir þeim á veginn til Jórdanar til ferjustaðarins. En sem þeir voru útfarnir sem leita áttu þá voru borgarhliðin afturlátin.

Og áður en þeir mennirnir lögðu sig til svefns fór hún upp til þeirra á þakið og sagði: „Eg veit að Drottinn hefur gefið yður þetta land því að ein hræðsla er fallin yfir oss yðar vegna og allir landsins innbyggjarar bera kvíða fyrir yðar tilkomu. Sökum þess að vér höfum heyrt hversu að Drottinn þurrkaði vatnið fyrir yður í því Rauða hafi þá þér fóruð af Egyptalandi, og so líka hvað þér gjörðuð tveimur kóngum Amoritis, Síhon og Óg, hinumegin Jórdanar, og hvernin þér eyðilögðuð þá. [ Og upp frá því vér heyrðum þetta þá er æðra komin í vor brjóst og þar er engin hreysti í nokkrum manni vegna yðar tilkomu. Því að Drottinn yðar Guð er einn Guð, bæði á himnum uppi og á jörðu niðri.

So sverjið mér nú einn eið fyrir Drottni að so sem eg framdi miskunn við ykkur þá veitið og so miskunn mínu húsi og míns föðurs húsi og gefið mér eitt víst merki að þið viljið láta minn föður, mína móðir og mín systkin lifa og allt það þeim tilkemur og frelsið so vorar sálir frá dauðanum.“ [ Mennirnir svöruðu henni: „Ef vér gjörum ekki miskunn og sannleik við þig þá Drottinn gefur oss þetta land þá skulu vorar sálir deyja fyrir yður, so framt sem þú lætur ekki þetta efni í ljósi.“

Síðan lét hún þá síga í festi ofan fyrir múrinn út um eitt vindauga, það hennar hús stóð á borgarveggnum og hún bjó í múrnum. [ Og hún sagði til þeirra: „Farið upp á fjallið og felið ykkur þar í þrjá daga, so þeir mæti yður ekki sem ykkar fóru að leita, þar til þeir koma aftur, síðan megi þið fara ykkarn veg.“

Mennirnir svöruðu henni: „Við viljum vera frjálsir af þessum eiði sem þú hefur tekið af okkur ef þú hengir ekki þessa rauða festi út um þitt vindauga, í hverri þú lést okkur niður síga, þá vér komum í landið og so hafir þú ekki samankallað í þitt hús þinn föður, þína móðir, þína bræður og allt þitt föðurs hús. Og ef nokkur gengur út af þínum húsdyrum, hans blóð skal vera yfir hans höfði en við viljum vera saklausir. En leggist ein hönd upp á nokkurn þann sem er í þínu húsi þá skal þeirra blóð koma yfir vort höfuð. En verði so að þú útberir þessi vor efni þá viljum vér vera frjálsir af þessum eiði sem þú hefur tekið af okkur.“ Hún svaraði: „Verði so sem þið segið“ og eftir þetta lét hún þá fara. Og þeir gengu af stað og hún hnýtti þeirri rauðu festinni í vindugað.

So gengu þeir nú sinnar leiðar og komu á fjallið og töfðu þar í þrjá daga þar til þeir komu aftur sem þeirra höfðu leitað. En þeir höfðu leitað eftir þeim í allar áttir og fundu hvergi. Síðan sneru þessir tveir menn aftur og gengu af fjallinu og fóru yfir um og komu til Jósúa sonar Nún og sögðu honum frá öllum hlutum sem gjörst höfðu og sögðu til Jósúa: „Drottinn vor Guð hefur gefið allt landið í vorar hendur og landsins allir innbyggjarar eru felmtsfullir fyrir oss.“