IIII.

En þá Drottinn fornam að Pharisei höfðu heyrt það Jesús gjörði fleiri lærisveina og skírði en Jóhannes (þótt Jesús skírði eigi sjálfur heldur hans lærisveinar) þá forlét hann Gyðingaland og fór aftur til Galileam. En honum byrjaði og að reisa um mitt Samariam. Þá kom hann í eina samverska borg þá Síkar heitir, nærri því akurlendi er Jakob gaf syni sínum Jósef. [ En þar var brunnur Jakobs. Sem Jesús var orðinn vegmóður þá sat hann á brunninum. Það var nær um séttu stund.

Þá kemur þar ein samversk kona vatn að sækja. [ Jesús sagði til hennar: „Gef þú mér að drekka.“ Því hans lærisveinar voru inngengnir í borgina að kaupa fæðslu. Þá segir sú samverska kona so til hans: „Hvernin beiðir þú mig drykkjar þar þú ert einn Júði en eg em ein samversk kona? Því að eigi samneyta Júðar samverskum mönnum.“ Jesús svaraði og sagði til hennar: „Ef þú vissir Guðs gjöf og hver hann væri sá þér segir: Gef mér að drekka, má vera að þú beiddir af honum og hann gefi þér lifanda vatn.“ Þá sagði konan við hann: „Herra, þú hefur eigi það sem þú getur með ausið en hátt er ofan í brunninn. Eða hvaðan hefur þú lifanda vatn? Eður ertu meiri föður vorum Jakob sá eð gaf oss þennan brunn? Hann sjálfur drakk af honum, synir hans, hjörð hans.“

Jesús svaraði og sagði henni: [ „Allir þeir sem drekka af þessu vatni, þá þyrstir aftur en hver hann drekkur af því vatni sem eg mun gefa honum hann skal eigi þyrsta eilíflega heldur það vatn sem eg mun gefa honum skal verða í honum brunnur uppsprettandi vats til eilífs lífs.“ Konan sagði þá til hans: „Herra, gef mér þetta vatn svo að mig þyrsti eigi og að eg komi eigi hingað til vatsaustrar.“ Jesús sagði til hennar: [ „Far þú og kalla á mann þinn og kom so hingað.“ Konan svaraði og sagði: „Ei hefi eg mann.“ Jesús sagði til hennar: „Þú sagðir satt: Eigi hefi eg mann, því að fimm menn hefir þú haft og þann þú hefir nú er eigi þinn maður. Þetta sagðir þú satt.“

Konan sagði til hans: „Herra, eg sé að þú ert spámaður. Feður vorir hafa á þessu fjalli tilbeðið en þér segið til Jerúsalem sé sá staður þar vær eigum að tilbiðja.“ Jesús sagði henni: [ „Kona, trú mér: Sú stund kemur að hverki á þessu fjalli né til Jerúsalem munu þér tilbiðja föðurinn. Þér tilbiðjið það þér vitið eigi en vér vitum hvað vér tilbiðjum því að heillin er af Gyðingum. En sá tími kemur og er nú þegar að sannir tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika af því að faðirinn æskir slíkra er hann so tilbiðja. [ Guð er andi og hverjir hann tilbiðja þeim heyrir í anda og sannleika að tilbiðja hann.“

Konan sagði til hans: „Eg veit að Messías kemur, sá sem Kristur kallast. Og nær hann kemur þá mun hann undirvísa oss þetta allt.“ Jesús sagði henni: „Eg em hann, sá sem við þig talar.“ Og í því bili komu hans lærisveinar að og undruðust því hann talaði við [ konuna. Þó sagði enginn: „Að hverju spyr þú?“ eður: „Hvað mælir þú við hana?“ En konan skildist þar við sína skjólu og gekk inn í staðinn og sagði til þeirra manna: „Komið og sjáið þann mann er mér sagði allt það eg hefi gjört hvort að hann er eigi Kristur.“ Þá gengu þeir af staðnum og komu til hans.

En þess á milli báðu hans lærisveinar hann og sögðu: „Meistari, neyt þú.“ En hann sagði til þeirra: [ „Eg hefi þá fæðu til að neyta af hverri þér vitið eigi.“ Þá sögðu lærisveinarnir sín í milli: „Eða hefir nokkur fært honum að eta?“ Jesús sagði til þeirra: „Minn matur er sá að eg gjöri hans vilja þess mig hefur sent að eg fullkomni so hans verk. Segið þér eigi sjálfir að það eru enn fjórir mánuðir til kornskurðartímans? Sé, eg segi yður: [ Lyftið upp augum yðar og sjáið akurlöndin það þau eru enn hvít til kornskurðarins. Og hver sem uppvinnur sá tekur laun og safnar ávexti til eilífs lífs að sá sem sáir samfagni þeim er uppvinnur. Því sannast hér það orðtak að annar sé sá sem sár en annar sá sem uppvinnur. Eg sendi yður upp að vinna það þér erfiðið ekki. Aðrir hafa erfiðað en þér genguð inn í þeirra erfiði.“

Margir samverskir menn af þeim sama stað trúðu á hann fyrir konunnar orð, það vitnandi að hann sagði mér allt hvað eg gjört hefi. [ En þá hinir samversku voru til hans komnir báðu þeir hann að hann væri þar. Og hann var tvo daga. Og miklu fleiri trúðu fyrir hans orð. Þeir sögðu og so til konunnar: „Ei trúum vér nú fyrir þín orð því að vér sjálfir heyrðum og vitum að þessi er sannarlega Kristur, lausnari heimsins.“

En eftir tvo daga fór hann þaðan og reisti til Galileam. [ Því að Jesús vitnaði það sjálfur að einn spámaður hafi eigi heiður á sinni föðurleifð. Þá hann kom í Galileam meðtóku hann galeiskir menn sem séð höfðu allt það hann gjörði til Jerúsalem um hátíðardaginn því þeir höfðu og komið til hátíðardagsins. Hann kom og aftur til Kana í Galilea þar hann hafði gjört vatn að víni.

Og þar var þá einn konunglegur maður hvers sonur að lá sjúkur til Kapernaum. [ Þá þessi heyrði það að Jesús var kominn af Gyðingalandi í Galileam fór hann til hans og bað hann að hann færi ofan og læknaði son hans því að hann væri að mestu látinn. Þá sagði Jesús til hans: „Nema þér sjáið teikn og stórmerki þá trúið þér eigi.“ Sá konunglegi maður sagði þá til hans: „Herra, far ofan áður en sonur minn andast.“ Jesús sagði honum þá: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Og maðurinn trúði þeim orðum er Jesús sagði hönum og gekk þaðan. En þá hann fór ofan eftir gengu hans þénarar í móti honum og kunngjörðu honum, segjandi: „Sonur þinn lifir.“ Þá spurði hann þá að á hverjum tíma honum hafði batnað. [ Og þeir sögðu honum: „Í gær um sjöundu stund hvarf frá honum kaldan.“ Þá fann faðirinn að það var um þann tíma á hverjum Jesús sagði honum: „Sonur þinn lifir.“ Og hann trúði og allt hans hús. Þetta er að nýju annað það jarteikn er Jesús gjörði þá hann kom af Gyðingalandi til Galileam.